15.02.2025Evelyn Ýr
Ég hef nýlega keypt bókina Íslandsmyndir Mayers 1836. Auguste Étienne François Mayer var franskur listmálari sem fór í leiðangur til Íslands með franska landkönnuðinum Paul Gaimard. Vísindarit Gaimards, Voyage en Islande et au Groënland, var gefið út eftir heimkomuna, en afrakstur Mayers af ferðinni var meðal annars tæplega 200 myndir. Þar má sjá íslenskt landslag og áhugaverða staði eins og Geysi, Þingvelli, Möðruvelli í Hörgárdal, Mælifellshnjúk og Mælifellskirkju, svo eitthvað sé nefnt, auk mynda af ferðalaginu, heimamönnum og húsakosti þeirra. Það er afar skemmtilegt að fletta í gegnum bókina.
Mér er ekki kunnugt um hvort Gaimard hafi skrifað um hunda á Íslandi, en hundar sjást á mörgum myndum Mayers. Oft virðist um að ræða sama hundinn – gæti hann hafa verið hluti af leiðangrinum? Ég tók saman myndir sem sýna hundinn á þremur mismunandi málverkum, ásamt aðalmyndinni sem fylgir bókinni.
Sú mynd var fyrirmynd að koparstungumynd sem listamaðurinn Massard gerði í fimm eintökum árið 1842. Ég var svo heppin að eignast eitt þeirra og hef, þrátt fyrir mikla leit, ekki fundið annað eintak. Er hugsanlegt að þetta eintak, prent númer 1 af 5, sé jafnframt það síðasta sem enn er til? Hvað sem því líður mun myndin, sem mér þykir afar vænt um, verða til sýnis á sýningunni.
Sími: +354 893 3817
[email protected]