Hero Image

Íslenski Fjárhundurinn

Íslenski fjárhundurinn, þjóðarhundur Íslendinga, hefur fylgt þjóðinni allt frá landnámi og er órjúfanlegur hluti af sögu og menningu landsins. Á árinu 2025 opnum við einstaka sýningu á Lýtingsstöðum í Skagafirði, helgaða þessari einstöku hundategund og sögu hennar. Komdu og upplifðu þessa einstöku sýningu – fræðsla, saga og upplifun bíða þín!

BLOG



Íslenski hundurinn í Bretlandi

Íslenski hundurinn í Bretlandi

Eins og fram kom í síðustu bloggfærslunni minni hefur breska hundaræktarfélagið, The Kennel Club, nýlega viðurkennt íslenska fjárhundinn sem tegund. Ég skrifaði einnig um Vask frá Þorvaldsstöðum, sem stóð sig einstaklega vel á Crufts-sýningunni árið 1960. Ég var viss um að tegundin hefði verið viðurkennd á þeim tíma fyrst Vaskur fékk að taka þátt í sýningunni. Mér fannst samt sem áður að ég þyrfti að kafa dýpra í málið. Það skiptir máli að upplýsingarnar séu réttar, sérstaklega þegar maður miðlar sögu og staðreyndum um þessa merkilegu tegund. Ég vildi vera viss um að ég væri ekki að breiða út rangar upplýsingar um íslenska fjárhundinn og hans sögu í Bretlandi. Ég las greinar, bækur og önnur heimildaskjöl sem ég hafði undir höndum, en að lokum hafði ég samband við The Kennel Club til að fá skýringar á því hvernig staðan var í raun á þessum tíma. Það tók ekki nema hálfan sólarhring að fá mjög ítarlegt svar frá starfsmanni bókasafns breska hundaræktarfélagsins, sem ég er afar þakklát fyrir og ætla að birta að hluta hér. The Kennel Club er elsta hundaræktarfélag í heimi, stofnað árið 1873. Íslenski fjárhundurinn mun brátt verða nýjasta viðurkennda hundategundin í Bretlandi. Hins vegar hafa nokkrir íslenskir fjárhundar verið skráðir áður. Hundurinn Chuck var skráður sem íslenskur kollí (í Bretlandi eru fjárhundar kallaðir collie) í október 1905. Þetta var í skráningarflokki „Any Other Variety Foreign or Colonial Dog“, sem þýðir ekki að tegundin hafi verið viðurkennd í þeim skilningi sem við þekkjum í dag. Þetta var einfaldlega flokkur sem náði yfir allt sem fólk vildi skrá, og engin staðfestingarferli voru til staðar. Skráning í flokknum „Any Other Variety“ var aflögð árið 1970. Í þessari skrá má finna einstaka eða fáeina hunda af ýmsum tegundum sem aldrei var ræktað úr. Þetta á við um Chuck og hina fáu íslensku fjárhunda sem voru skráðir á sama hátt á seinni tímum. Chuck var skráður í tímaritinu Kennel Gazette (sjá mynd hér að ofan) í nóvember 1905, sem hundur með „óþekkta ætt“. Eigandi hans var Mr. E. Swain, og dagsetningin 2. október fylgir skráningunni. Óljóst er hvort þetta sé fæðingardagur Chucks eða dagurinn sem Mr. Swain eignaðist hann. Yfirleitt táknar þessi dagsetning fæðingardag, en það vekur spurningar hvernig Mr. Swain gæti ekki vitað um a.m.k. annan foreldri hundsins ef hann hefði fæðst mánuðinum áður. Chuck var ekki skráður sem innfluttur hundur, þrátt fyrir að hann hafi líklega þurft að vera það. [Í tillögu Guðna Ágústssonar](https://www.althingi.is/altext/117/s/0588.html) um skipulega ræktun íslenska fjárhundsins frá 1993 stendur: "Árið 1905 var íslenskur hundur „Chuck“ ættbókarfærður í The English Kennel Club og um leið var kynið viðurkennt sem slíkt í Englandi og gefin út ræktunarmarkmið sem þýtt var úr dönsku. Íslenskir hundar hafa örsjaldan komið þar fram á sýningum en þó var Vaskur frá Þorvaldsstöðum bestur í sínum flokki og keppti um titilinn „Besti hundurinn á sýningu á Crufts“ árið 1960, þá sjö ára gamall." **Það er ýmislegt í þessu sem er einfaldlega ekki rétt, og mig langar að leiðrétta það hér og nú, þó ég geti ekki breytt þessari tillögu.** Chuck var ekki ættbókarfærður, en hann var skráður í flokkinn „Any Other Variety Foreign or Colonial Dog“. Kynið var ekki viðurkennt sem slíkt í Englandi; það gerðist ekki fyrr en 120 árum síðar. The Kennel Club gaf ekki út ræktunarmarkmið árið 1905, en í bókinni _Dogs of All Nations_ eftir Count Henry De Bylandt birtist ræktunarmarkmið fyrir íslenska hundinn á fjórum tungumálum (frönsku, ensku, þýsku og hollensku). Líklega var þetta markmið þýtt úr dönsku, en það er ekki alveg ljóst hvaðan Bylandt fékk það þegar hann gaf bókina út árið 1897. Vaskur frá Þorvaldsstöðum keppti ekki um titilinn „Besti hundurinn á sýningu“ árið 1960, þar sem hann keppti í flokknum „Any Variety Not Classified at this Show“ og stóð þar efstur. Það gaf honum þó ekki rétt til að keppa um „Best in Show“, þar sem flokkurinn „Any Variety“ var blandaður flokkur frekar en tegundasértækur flokkur. Nokkrum árum eftir að Chuck var skráður, birtast tveir íslenskir fjárhundar á hundasýningum í Bretlandi, einnig í flokknum „Any Other Variety“, árið 1923 á Birmingham National og 1925 á Kensington Canine Society. Þessir hundar voru í eigu Gwendoline Wingfield Digby, sem var mjög þekkt ræktandi á þeim tíma og sérhæfði sig í annarri Spitz-tegund, Keeshond. Hún flutti báða hundana beint frá Íslandi. Þeir fengu talsverða athygli í fjölmiðlum sem nýjung, enda höfðu íslenskir fjárhundar aldrei sést áður á breskum hundasýningum. Í bókinni _The Iceland Dog_ eftir Mark Watson er mynd úr blaðinu _Our Dogs_ sem sýnir skráningu þessara hunda: * Mrs. G. Wingfield Digby. **Langa of the Borgafiord** _(Icelandic Sheep Dog)_ b. júní 1921. Br. Mr. E. Einarsson. Pedigree unknown. * Mrs. G. Wingfield Digby. **Hvita of the Borgafiord** _(Icelandic Sheep Dog)_ b. júlí 1922. Br. Mr. A. Sigurðsson. Pedigree unknown. [Í bók Watsons](https://drive.proton.me/urls/MSZXKPRSBW#NJ3Xh5blzdvJ) er einnig grein þar sem Digby skrifar um íslenska hunda: " In Iceland we found a dog of different type to any we had seen before, which was very interesting, as I had not seen it mentioned in the few textbooks I had been able to get hold of, although I have since read and seen pictures in travel books of exactly this type. Also the dogs must have been peculiar to their country for a great number of years, as they are mentioned in Shakespeare. They are small- at least, they seem very small for a aheep dog, although, of course, everything up there is emaller than the rest of Europe - exceedently alert, active, and very fast, well built, with curly tail, broad chest, fine drawn legs and muzzle, prick ears, and a stong coat, which always should look very shiny and well kept. The dog does that for himself. If they come in dirty they clean themselves in about ten minutes. In Iceland I have seen men work these dogs over the river at a great distance from themselves by waving their arms. We noticed they were absolutely devoted to their masters and some of them simply could not bear us - strange sort of people they had never seen before-ooming anywhere near their belongings. When their masters sat down the dogs immediately came and sat down and leant against them. A curious fact is that they are never allowed in the house in Iceland. I suppose simply because the lack of accommodation is so acute there, but I find them to be quite the best of house dogs. They will learn anything, as they are so anxious to please, perfectly devoted and good watch dogs, and they are very strong and healthy. The colours are black and white. Black should predominate, or brown and black, l also saw them over there of a beautiful golden or chocolate color, with yellow eyes, but certainly the greater number I saw were black ones with white on them."  Það var fróðlegt að hafa fengið þessar upplýsingar, og ég vona að viðurkenning íslenska fjárhundsins verði til þess að hann fái verðskuldaða aðdáun og aukna útbreiðslu í Bretlandi á komandi árum, því hann hann hefur átt sinn sess þar í gegnum aldirnar [eins og Skakespeare sannaði](https://www.fjarhundur.is/is/blog/shakespeare).

Óvænt símtal

Óvænt símtal

Síminn minn hringdi um 10:30 á gamlársdag. „Ingibjörg fréttamaður hjá RÚV, góðan dag. Mig langar að athuga hvort þú sért tilbúin í stutt viðtal um frétt sem barst frá Bretlandi – að breska hundaræktarfélagið hafi viðurkennt íslenska fjárhundinn sem tegund og hvað það þýðir.“ Ég hélt það nú! Fyrir utan útskýringar á því hvað þessi viðurkenning þýðir fyrir tegundina vorum við að spjalla um verkefnið mitt og tilvonandi opnun sýningarinnar um sögu íslenska fjárhundsins hér á bæ. Hversu dásamlegt að fá óvænt tækifæri til að kynna sýninguna á síðasta degi ársins fyrir landsmenn! Viðtalið var útvarpað í hádegisfréttum og einnig birtist frétt á ruv.is. Ég er ennþá alveg í skýjunum – ekki síst yfir því að RÚV leitaði til mín, var búið að frétta af mér og verkefninu. Það var dásamlegt að ljúka árinu með þessu viðtali! Til útskýringar á fréttinni frá Bretlandi: íslenski fjárhundurinn var einu sinni viðurkennd tegund hjá breska hundaræktarfélaginu. Til að mynda var Vaskur frá Þorvaldsstöðum valinn BOB (Best of Breed) á Crufts-sýningunni árið 1960. Mark Watson flutti hann frá Íslandi til Kaliforníu og síðar til Englands. Aðeins viðurkenndar tegundir fá að taka þátt í hundasýningum. Seinna voru of fáir einstaklingar skráðir í Bretlandi og tegundin missti viðurkenninguna. Núna hefur margra ára barátta eigenda og aðdáenda íslenska fjárhundsins skilað sér í nýrri viðurkenningu, og hægt verður að rækta og sýna íslenska fjárhundinn á ný í Bretlandi. Til hamingju! **Ath: leiðrétting á þessu í næsta blogposti!** **Tenglasafn** [Frétt á The Guardian 31.desember 2024](https://www.theguardian.com/lifeandstyle/2024/dec/31/icelandic-sheepdog-breed-mentioned-shakespeare-pedigree) [Frétt á RÚV 31.desember 2024](https://www.ruv.is/frettir/erlent/2024-12-31-islenski-fjarhundurinn-vidurkenndur-sem-tegund-432022) [Viðtalið í hádegisfréttum á RÚV 31.desember 2024](https://www.ruv.is/utvarp/spila/hadegisfrettir/25243/a16khr/islenski-fjarhundurinn-vottadur-af-breska-hundaraek) [Póstur um Vask frá Þorvaldsstöðum, fyrirmynd í merki HRFÍ](https://www.fjarhundur.is/is/blog/vaskur-fra-thorvaldsstodum-fyrirmynd-merkisins-hrfi)

Í árslok

Í árslok

Í lok árs er gott að horfa til baka og gera upp árið. Við náðum því miður ekki að opna sýninguna á þessu ári, þar sem byggingarframkvæmdir töfðust vegna flókins umsóknarferlis og slæms veðurfars. Ég var kannski of bjartsýn í ársbyrjun, en það er bjartsýni sem drífur okkur áfram – ekki satt? Ég hafði því meiri tíma til að undirbúa sýninguna, sem kom sér vel, því verkefnið er stærra en ég hafði gert mér í hugarlund í upphafi. Mig langar að stikla á stóru yfir það helsta sem gert var í undirbúningi sýningarinnar. Í janúar var sérstakt svæði opnað á vefsíðunni þar sem sögur um hunda voru færðar inn. Hægt er að bæta við sögum hvenær sem er, og endilega sendið mér sögur ef þið viljið segja frá hundum – ykkar eigin eða öðrum. Einnig sögur sem þið hafið heyrt eða lesið. Það skemmir ekki að láta myndir fylgja með ef þær eru til. Í febrúar fengum við til okkar kvikmyndafólk til að taka upp efni (myndir og myndbönd) fyrir sýninguna. Fyrir þessa vinnu fengum við styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra. Í vor fjárfestum við í fallegu húsi (tilsniðið en ósamsett) og hafist var handa við undirbúning fyrir grunninn.  Mest vinnan í sumar fór í byggingarframkvæmdir, og myndir af ferlinu er hægt að sjá á Facebook-síðu verkefnisins. Í júlí mætti ég á viðburð í Glaumbæ á Degi Íslenska fjárhundsins og var beðin um að kynna verkefnið fyrir gestum. Samstarfið við Byggðasafn Skagfirðinga er mér mjög kært og hlakka ég til áframhaldandi samvinnu. Í haust keypti ég nokkrar gamlar myndir, aðallega koparstungumyndir af íslenskum fjárhundum. Ég fann þessar gersemar í antíkverslunum í Evrópu og Bandaríkjunum og þær verða til sýnis á sýningunni. Ég sótti um fleiri styrki til að ljúka undirbúningi og uppsetningu og fékk jákvæð svör bæði frá Menningar- og viðskiptaráðuneytinu og Menningarsjóði Kaupfélags Skagfirðinga. Ég er mjög þakklát fyrir þennan stuðning. Haustið var einnig nýtt til áframhaldandi lesturs, rannsóknarvinnu og textaskrifa. Nú tel ég mig vera tilbúna til að taka lokaskrefið og ég vona að geta opnað sýninguna í apríl eða maí. Rétt fyrir jól vorum við með opið torfhús og fengu gestirnir tækifæri til að kíkja líka í nýja húsið, þó það sé ekki alveg fullklárað. Við settum upp ýmislegt til að gefa innsýn í það sem koma skal í sýningunni, og kvikmyndarefnið sem tekið var upp í febrúar var sýnt í fyrsta skipti, sem vakti mikla lukku hjá gestum okkar. Nú kveð ég þetta ár með miklu þakklæti til allra sem hafa stutt mig í þessu verkefni, unnið fyrir mig, sýnt mér stuðning, hvatt mig áfram, gefið mér klapp á bakið, sent mér bækur, sögur, myndir eða annað áhugavert efni. Síðast en ekki síst þakka ég fjölskyldunni minni fyrir að sýna mér þolinmæði og trú á hugmyndum mínum sem ég verð sjaldan þreytt á að þróa og framkvæma. Ég læt þessari færslu fylgja mynd sem tekin var í Glaumbæ í febrúar þegar við tókum þar upp efni. Takk fyrir samfylgdina og ég óska ykkur öllum gleðilegs og friðsæls nýs árs.

Sjá meira

SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

SAMFÉLAGSMIÐLAR->

HAFA SAMBAND->

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

Soknaraetlun