Hero Image

Íslenski Fjárhundurinn

Uppgötvaðu sögu íslenska fjárhundsins og endurræktun hans sem þjóðarhund Íslands. Fylgdu okkur fram að opnun sýningarinnar tileinkaða þessara einstöku tegund. Hjálpaðu til við að dreifa boðskapnum um þessa merku tegund og taktu þátt í að styrkja nærveru hennar á alþjóðavettvangi.

BLOG



Íslenzkir þjóðhættir

Íslenzkir þjóðhættir

Bókin "Íslenzkir þjóðhættir" eftir Séra Jónas Jónasson frá Hrafnagili er ein af merkustu bókum íslenskrar menningar og þjóðfræði. Hún er einstök lýsing á daglegu lífi og venjum Íslendinga á 19. öld. Jónas Jónasson (1856–1918) var íslenskur prestur, kennari og fræðimaður og var þekktastur fyrir þessa bók, sem kom út árið 1934, sextán árum eftir andlát hans. Bókin varðveitir dýrmætar heimildir um íslenskt þjóðlíf, sem örugglega hefðu glatast með nútímavæðingu, og er talin ein af grundvallarritum íslenskrar þjóðfræði. Fyrir utan það er hún skemmtileg lesning, enda er hún skrifuð þannig að hún höfðar ekki bara til þjóðfræðinga heldur líka til almennings. Í bókinni er ýtarlegur kafli um hunda (blaðsíðu 177-181), og frásögnin er að sumu leyti frábrugðin því sem við finnum í öðrum ritum. Jónas skrifar um nauðsyn þess fyrir bændur og smala að eiga hunda. Hann skrifar að Íslendingar hafi lengi verið þekktir fyrir að hafa dálæti á hundum, láta þá sofa hjá sér og þrífa fyrir sig matarílátin. Hann nefnir að á Grenjaðarstað í Þingeyjarsýslu hafi verið tólf hundar, en það var ekki algengt. Víða var þó hægt að sjá að minnsta kosti sex hunda, þar sem mikið af fjáreign og búskap var að finna. Jónas dregur fram ýmsa þjóðtrú í sambandi við hunda, sem mig langar að setja hér upp: "Hundur verður beztur sem alinn er á þorra eða góu því að þá er hann mátulega gamall að venja hann við lambfé á vorin." "Alla varuð verður við að hafa, þegar hvolpar eru valdir til lífs; fyrst er það, að þeir séu ekki gotnir sjáandi, því að ef svo er, á að drepa þá hið bráðasta. Annars hverfa þeir í jörð niður, þegar þeir eru þriggja nátta, en koma upp aftur á sama stað að þrem árum liðnum, en þá eru þeir orðnir svo voðaleg ófreskja, að hver sú skepna deyr, sem verður fyrir augum þeirra. Ef svo illa fer, verður að stilla svo til, að ókind þessi sjái fyrst sjálfa sig í spegli, er hún kemur upp, því að það er hennar bráður bani." "En svo er annað, - að geta átt það vist, að hundurinn, sem alinn er, verði vænn. Til þess segja sumir, að taka skuli þann hvolpinn, er fyrst fæðist, en sumir segja, og það eru fleiri, að taka skuli hvolpana frá tíkinni, er hún er búin að gjóta, og bera þá burt frá henni, svo að hún sjái, hún tekur þá svo aftur og færir þá í bæli sitt; sá hvolpurinn, sem hún tekur fyrst, verður vænstur, og skal hann upp ala." "Þar sem smalamennska fór fram í bröttum fjöllum, sældust margir til að hafa hunda hvíta eða sem ljósleitasta, því þeir sjást bezt, þegar langt þarf að senda." "Jafnan hefir verið við brugðið tryggð hunda, en þó hafa sumir smalar verið svo óheppnir, að hundar eru ófúsir að fylgja þeim. En til þess að tryggja sér hund þarf ekki annað en gefa honum bita og núa bitanum í svita sinn. Þá fylgir hundurinn manni fúslega og verður honum tryggur." "Sumum hundum hætti við að vera grimmir og bíta í afturfæturnar á fénu og enda rífa það til skemmda. Ef ekki var hægt að venja þá af því öðruvísi, var vant að brjóta úr þeim vígtennurnar með naglbit; gátu þeir úr því ekki bitið fé til skemmda." "Hundar eru skyggnir og sjá fylgjur manna og aðrar vofur; þegar hundar taka til að ólmast og gelta á kvöldin frammi í bænum eða úti við, kemur það af því, að þeir sjá fylgjur eða eitthvað óhreint á seyði. Þegar einhver óhug setur að þeim af einhverju óhreinu, sem er á flökti í kring um þá, setjast þeir niður og spágola eða spangóla, sem kallað er. Svo vita þeir og á annan hátt, þegar gesta er von." "Hundaskinn er til margra hluta nytsamlegt, t.d. eru vettlingar úr hundaskinni óvenju hlýir, og eins þeir sokkar og vettlingar, er hundshár er haft saman við ull í. Hundafeiti er allra áburða bezt á gigt, mar, tognun og önnur meiðsli, og trúa margir því enn í dag." Sem betur fer útskýrir Jónas ekki verkun á hundaskinn og framleiðslu hundafeitunnar, því það gæti verið erfið lesning nú til dags. Í framhaldi af yfirferð bókarinnar langar mig að benda á [spurningaskrá um hunda inni á Sarpi](https://www.sarpur.is/Spurningaskra.aspx?ID=531295&page=0&pageSize=192), sem er menningarsögulegt gagnasafn. Í svörunum er komið inn á margt sem Jónas nefnir í "Íslenzkir þjóðhættir," og það er afar áhugavert að lesa sig í gegnum svörin. Mynd: Djúpadal, 1930. Höfundur óþekktur.

Lýsing Íslands 1920

Lýsing Íslands 1920

Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig Mark Watson fór að því að safna saman allar heimildir um íslenska hunda í bókinni sinni. Hvernig fann hann þær bækur sem hann vitnar í? Fór hann á milli landa og bókasafna, lét hann þýða þær? Það hefði tekið hann mörg ár, en mér finnst það ekki alveg passa við allt sem maðurinn gerði og stóð fyrir. En loksins fann ég skýringu í bókinni **Lýsing Íslands** eftir Þorvald Thoroddsen, fjórða bindi, fyrsta hefti, prentað árið 1920. Þessi bók er ein af þeim síðustu sem ég ætlaði að taka fyrir í mínum rannsóknum, og ég var svo heppin að finna hana í fornbókasölu, þar sem þetta bindi er ekki til í rafrænu formi. **Lýsing Íslands** er ítarlegt verk í fjórum bindum eftir Þorvald Thoroddsen. Fyrsta bindið kom út árið 1881 og síðasta bindið árið 1920. Þetta rit var afrakstur margra ára rannsókna Þorvalds, oft við krefjandi aðstæður. Þorvaldur Thoroddsen (1855–1921) var íslenskur jarð- og landfræðingur og er talinn einn af merkustu vísindamönnum Íslands á sinni tíð. Hann ferðaðist víða um landið til að safna gögnum. _Lýsing Íslands_ hefur haldið gildi sínu og er enn talið mikilvægt heimildarrit um íslenska náttúrufar, jarð- og landafræði. Fjórða bindið fjallar mjög ítarlega um landbúnað á Íslandi, og fyrsta heftið fer yfir húsdýr, garðrækt og akuryrkju. Þorvaldur skrifar nokkrar blaðsíður um hunda og fer meðal annars ítarlega yfir sögu hunda á Íslandi. Hann nefnir landnámstíð, hungursneyðin 990 og tillögu Arnórs Kerlingarnefs, Sám Gunnars á Hlíðarenda, hunda í Sturlungu og öðrum sögum. Hann fjallar einnig um útflutning íslenskra hunda á miðöldum og vinsældir þeirra meðal enskra kvenna. Merkilegt þykir mér eftirfarandi gagnrýni Þorvalds á lygasögur sem komu á kreik á 15. öld í tengslum við útflutning íslenskra hunda til Englands: "Út úr þessari hundasölu spanst sú lygasaga sem einna fyrst kemur í ljós hjá Martein Behaim 1492, sem segir um Íslendinga: 'Þeir eru vanir að selja hunda sína dýrt, en börn sín gefa þeir kaupmönnum fyrir ekkert, svo hin önnur hafi fæði.' Þetta er svo ótal sinnum endurtekið hjá útlendum landfræðishöfundum. Olaus Magnus segir 1555, að á Íslandi séu hvítir hundar, loðnir og hárin eins og ull, og hafi höfðingsfrúr og prestar þá sér til gamans. Blefken segir að hundar þessir séu eyrnalausir og rófulausir. Þetta er þó eflaust vitleysa. Það er varla ástæða til að efast um að hinir smáu, hvítu íslensku loðhundar hafi verið til, en þeir virðast fyrir löngu horfnir; kynferðið hefur ef til vill dáið út í einhverri hundapestinni." Um hina vanalegu íslensku hunda skrifar Þorvaldur: „...þeir eru af hundakynkvísl þeirri sem kallaðir eru ‘Spids’-hundar, líkir hundum norðan til í Noregi og á Lapplandi, enda eru þeir þaðan upprunalega ættaðir. Þeir eru fremur litlir, hvatir og skynugir, með stutt, en hvast trýni, upprétt, hvöss eyru og hringaða loðna rófu. Þeir hafa ýmsan lit, en munu þó einna oftast vera mórauðir, allmargir líka flekkóttir.“ Þorvaldur gagnrýnir Íslendinga harðlega fyrir illa meðferð þeirra á hundum. Eiginleikum íslenska hundakynsins sé enginn sómi sýndur, hundarnir séu látnir fjölga eftir tilviljun og margir þeirra þurfa að þola píslir af hungri og kulda. Honum sýnist þessi meðferð stafa „mest af kæruleysi og hirðuleysi manna. Hundarnir hafa verið fyrirlitnir og álitnir einskis virði. Þó er góður og vel vaninn hundur eitt hið mesta búmannsþing og getur verið sannur dýrgripur á sveitaheimili.“ Þorvaldur dregur fram kosti íslenska hundsins, sem mætti bæta með ræktun, kynbótum og uppeldi. Hann segir þá vera afbragðs fjár- og smalahunda, sem geta einnig verið góðir varðhundar, skothundar og ferðahundar, til dæmis til að reka hesta og þræða vegi í dimmviðrum. Þefvísi hunda hefur oft komið að góðum notum við að finna fennt fé. Um samvistir manna og hunda skrifar Þorvaldur: „Hvergi hafa á Íslandi verið sérstök hús, kofar eða krár fyrir hunda, eins og alstaðar er tízka í öðrum löndum. Það hefur verið algengt að siga hundum út á kvöldin, þegar veður var þannig að 'hundi var útsigandi,' eins og orðtækið segir, og loka þá úti. Þeir hafa svo orðið að láta fyrirberast utanhúss, hvernig sem veðrið var, hringað sig í gluggatoftum, heyholum eða öðrum smugum. Aftur á móti hefur sums staðar verið of mikið dálæti á þeim, eða þeir hafa, af hugsunarleysi, haft of náið samneyti við börn og fullorðið fólk, sofið í baðstofum, sleikt matarílát o.s.frv. Eins og kunnugt er fá hundar bandorma úr sullum úr sauðkindum sem þeir éta, en egg bandormanna komast svo í mat manna og eru orsök sullaveikinnar, sem hefur verið svo algeng á Íslandi og gjört svo mikið mein.“ Þorvaldur fer síðan nánar yfir sullaveikina, hundaskatt og sjúkdóma í hundum. Lýsingar Þorvalds í þessari bók eru ómetanleg heimild um hunda og hundahald á þessum tíma, og það er dýrmætt að þessar upplýsingar hafi varðveist á þennan hátt. Fyrir Mark Watson hefur þessi bók líklega lagt grunn að rannsóknum hans og skrifum. Mynd: Bruno Schweizer

Hundafár

Hundafár

Svo­kallaðir hundafár eða hundapestir hafa oft gengið á Íslandi og var oft um bráðdrepandi sjúkdóma að ræða. Í heimildum er getið um faraldra á hundum á fyrri öldum. Árið **1591** er talað um dauða nauta, hunda og refa um allt land og sagt að sýkin hafi borist til landsins með enskum hundi fyrir vestan. Árið **1727 og 1728** er talað um hundapest á Snæfellsnesi, jafnframt varð kvikfénaður bráðdauður. Á árunum **1731-33** er talað um pest í nautum, hestum, hundum og refum. Í ferðabók Eggerts og Bjarna stendur um pestina 1731 á Suðurlandi: „Þeir (hundar og refir) urðu ringlaðir, en ekki óðir. Refir ráfuðu heim undir bæi og voru þar drepnir.“ Árið **1786** gekk mikil hundapest á Íslandi. Árið **1827** gekk drepsótt á hundum og urðu þeir svo dýrmætir eftir það, að sumir bændur gáfu þrjár ær fyrir hund. Árið **1855** gekk hundapest yfir mikinn hluta landsins og gjöreyddi heil héruð að hundum, svo varla var hægt að reka saman búpeninginn. Það var sagt að fárið væri svo næmt, að ef ósjúkur rakki þefaði af manni frá bæ, þar sem fárið var komið, þá veiktist hann óðar. Voru menn víða í mestu vandræðum af hundaleysi, svo jafnvel var boðin kýr eða hestur fyrir hund. _„Um hávetur, í mars og apríl, fóru 30 manns úr ýmsum héruðum nyrðra, Bárðardal, Eyjafirði og Skagafirði, suður fjöll, Sprengisand, Eyfirðingaveg og Kjöl, til að kaupa hunda í Árness- og Rangárvallasýslum. Tíðarfar var þá gott, svo fjallaferðirnar gengu vel.“_ Árið **1870** gekk skæð hundapest norðanlands, drap fjölda hunda og gerði sum heimili hundlaus. Var sagt að pestin hefði komið með enskum hundi, sem fylgdi enskum ferðamanni. Hún dreifði sig síðan um Vesturland og Suðurland. **1871** skrifar Snorri Jónsson, dýralæknir í [Heilbrigðistíðindi](https://timarit.is/page/2043924#page/n5/mode/2up): "Hundurinn er eitt þeirra dýra, sem sjaldan er skortur á, hjer á Íslandi, en menn gá fyrst verulega að, hversu mikið gagn hann gjörir, þegar hann vantar. Þegar hundaveikin geisaði hjer um landið fyrir 16 árum, fengu margir að kenna á, hversu óbærilegt það er fyrir alla, sem hafa fje að birða, að vera hundlausir. Nú í ár lítur út fyrir, að margir muni fá hið sama að reyna; því eptir að hundveikinni að mestu var lokið hjer á Suðurlandi, hefur frjetzt, að hún sje byrjuð bæði á Norðurlandi og Austfjörðum, og sje þegar orðin þar allskæð. Það mun því eigi þykja úr vegi, að hjer sje farið fáeinum orðum um veiki þessa, og drepið á hið helzta, sem gjört verður til að draga úr henni." Hann skrifar enn fremur að þessi veikindi líkist _Febris catarrhalis epizootica canum_, sem þekkist erlendis, nema að erlendis leggst þessi veiki aðeins á hunda sem eru yngri en eins árs. Hér á landi er hún hins vegar jafnskæð hundum á öllum aldri. Pestin lýsir sér á þann hátt: "Veikin byrjar vanalega með hósta og hrygglu. Trýnið er þurrt og heitt. Úr nösunum og af augunum rennur í byrjun veikinnar tært vatn, sem bráðum verður graptrarkennt. Þetta getur nú gengið nokkra daga, án þess hundurinn virðist að vera mjög veikur; en nú fer honum smá-hnignandi; hann verður máttlaus, skjögrar á fótunum, fær krampateygjur og drepst eptir hálfsmánaðar-tíma eða fyr. Opt fylgir veiki þessari megn höfuðverkur, svo hundurinn verður sem óður, hleypur fram og aptur, snýst í hring og vill jafnvel stundum bíta allt það, sem fyrir honum verður. Máttleysið er ætið mest í apturparti hundsins, og það er eigi sjaldgæft, að aflleysi þetta við helzt eptir að hundurinn að öðru leyti er orðinn albata. Eins ber það líka opt við, að hundurinn verður líkt sem hálftruflaður eptir veikina, ef höfuðverkurinn hefur verið mjög megn. Sjónleysi eða sjóndepra fylgir líka þráfaldlega veiki þessari." Snorri heldur áfram að hvetja fólk til að hugsa vel um hundana sína, koma í veg fyrir að þeir hafi samgöngu við heilbrigða hunda, láta þá ekki liggja úti á næturnar og gefa þeim nægilega næringarríka fæðu, sérstaklega kjötmeti. Hann gefur einnig leiðbeiningar um alls konar meðul sem hægt er að nota til að meðhöndla veika hunda. Árin **1888, 1892-93** og **1900** gengu pestir yfir ýmsa landshluta, þar sem fjöldi hunda sýktist og drapst. Heimild: Lýsing Íslands eftir Þorvald Thoroddsen. Fjórða bindi. Fyrsta hefti. 1920. Mynd: Hallgrímur Árni Gunnlaugsson f.25.10.1867, beykir Raufarhöfn, ríðandi. 1911. Ljósmyndari Bárður Sigurðsson.

Sjá meira

SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

SAMFÉLAGSMIÐLAR->

HAFA SAMBAND->

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

Soknaraetlun