Það helsta í mars

Hero Image

24.03.2025Evelyn Ýr

Marsmánuðurinn hefur verið frekar viðburðaríkur og gaman að segja frá því hér.

Húsið sem mun hýsa sýninguna er næstum því tilbúið og við getum farið að huga að uppsetningu. Ég hef klárað alla texta fyrir veggspjöldin sem eru núna hjá hönnuði og fara svo í prentun.

Þetta var stórt og umfangsmikið verkefni en spjöldin verða væntanlega átta talsins. Ég ætlaði mér ekki að hafa of mikinn texta en eftir tveggja og hálfs árs vinnu er ég búin að taka saman svo mikið efni að mér fannst ekki skynsamlegt að stytta það of mikið, sérstaklega þar sem ég er búin að raða því vel upp. Það sem birtist á spjöldunum verður þó aðeins brot af því sem ég hef skrifað. Ég stefni einnig að því að skipuleggja efnið hér á síðunni betur til að auðvelda aðgengið svo efnið á sýningunni og á síðunni tali betur saman.

Ég var spurð um daginn hvort þetta muni heita „Sýning um Íslenska fjárhundinn“ eða „Sögusetrið Íslenska fjárhundsins“. Eftir að hafa velt þessu mikið fyrir mér hallast ég að því að „Sögusetrið“ henti betur, þar sem þetta verður ótímabundin sýning.

Í byrjun mánaðarins fékk ég heimsókn frá Darren Adam, fréttamanni hjá RÚV English radio, og hann tók viðtal við mig um íslenska fjárhundinn og verkefnið mitt. Hægt er að hlusta á viðtalið hér.

Þann 8. mars héldum við lítinn viðburð sem við kölluðum „Hvolpaknús með þjóðarhundinum“. Connie frá Breiðanesræktun kom til okkar með hvolpana sína sem eru undan Sóma mínum og tíkinni Breiðanes Björt, sem prýðir desembermánuðinn í dagatali DÍF 2025. Við fengum góða gesti og nutu bæði ungir og eldri þess að knúsa hvolpana. Mikið var spjallað um hunda og hundaræktun. Tveir fallegir rakkar úr þessu sjö hvolpa goti eru ennþá að leita að framtíðarheimili þegar þetta er skrifað, og ég vona að þeir finni fjölskyldur sínar sem fyrst. Hafir þú áhuga, endilega hafðu samband við mig!

Næstum óvænt varð einn hvolpur eftir hjá mér þennan dag en ég hafði lengi látið mig dreyma um að eignast hvolp undan Sóma. Þannig kom hún Fönn inn í líf okkar og myndin hér að ofan er af henni. Nú er fjör á bænum og gaman að fylgjast með henni vaxa og dafna. Hún er einstaklega mannelsk, blíð og gáfuð. Það er betra að fylgjast vel með því sem hún lærir og tileinkar sér. Sem betur fer eru Sómi og Hraundís afar stilltir hundar sem hún getur lært margt af. Fönn sýnir mikinn áhuga á hrossunum sem við sinnum daglega og heilsar einnig upp á hrútana sem hýstir eru í hesthúsinu þessa dagana. Nú nálgast sauðburður og þá kemur upp í hugann þessi orð séra Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili úr bókinni „Íslenzkir þjóðhættir“: „Hundur verður beztur sem alinn er á þorra eða góu, því að þá er hann mátulega gamall að venja hann við lambfé á vorin.“

Síðastliðinn föstudag tók Fönn í fyrsta sinn á móti hópi ferðamanna og stóð hún sig með miklum sóma. Þegar ég sýndi ferðamönnum torfhúsið leiddi Hraundís hana upp á torfhúsþakið þar sem hún sat í fyrsta skipti.

Þið getið fylgst með daglegu lífi þjóðarhundateymisins á Lýtingsstöðum á Instagram undir #fjarhundur.

Að lokum er gaman að segja frá því að síðastliðinn föstudag var frumsýnd stuttmynd sem tekin var upp í janúar. Í henni segi ég mína sögu hér á Íslandi og fjalla um tengsl mín við dýrin. Hundarnir (sem voru þá aðeins tveir) koma einnig aðeins við sögu. Hér er hægt að horfa á myndina.

Meira er ekki í fréttum í bili.


SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

HAFA SAMBAND

Sími: +354 893 3817
[email protected]

HEIMILISFANG

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
561 Varmahlíð
Ísland

SoknaraetlunStjórnarráðRoyal Canin