16.03.2025Evelyn Ýr
Árið 1969 var Hundaræktarfélag Íslands (HRFÍ) stofnað á Hótel Sögu í Reykjavík af 29 áhugamönnum um ræktun íslenska fjárhundsins. Eitt af markmiðum félagsins var að vernda og rækta tegundina.
Þann 25. ágúst 1973 hélt HRFÍ fyrstu hundasýningu á Íslandi, sem fór fram í Hveragerði. Jean Lanning frá Englandi var dómari á sýningunni og fékk sérstaka undanþágu til að dæma, þar sem sýningin var ekki alþjóðlega viðurkennd – HRFÍ var þá enn ekki skráð sem ræktunarfélag erlendis.
Alls voru 60 hundar skráðir til sýningar. Stærsti hópurinn var íslenskir fjárhundar (23 talsins), en einnig voru sýndir Poodle-hundar (13), Collie-hundar (9) og aðrir hundar af ýmsum tegundum.
Meðal gesta á sýningunni var Mark Watson.
Þorsteinn Thorsteinsson, hundaræktandi og dómari, tók viðtal við Jean Lanning árið 2011, þar sem hún rifjaði upp þessa fyrstu sýningu á Íslandi og kynni sín við Mark Watson. Mig langar að endurbirta hluta úr grein Þorsteins hér og hef fengið leyfi til þess hjá honum. Greinina í heild sinni er hægt að lesa í Hundalífspósti.
"Fyrsta hundasýningin hér á landi var haldin á vegum Hundaræktarfélags Íslands í Eden í Hveragerði í ágúst 1973 en taka skal fram að þetta var óformleg sýning og engin meistarastig í boði. Dómari þessarar sýningar var engin önnur en Jean Lanning en að hennar mati er árangurinn síðan undraverður. „Ef ég man rétt þá var sýningin haldin í stórri glerbyggingu. Ég var send til Íslands í boði hins háttvirta MARK WATSON, serviturs og auðugs Englendings sem dáði Ísland og ÍSLENSKA FJÁRHUNDINN og ég held að landið ykkar hafi veitt honum FÁLKAORÐUNA“.
Jean starfrækti annasamt hundahótel og þar kynntist hún fyrst íslenska fjárhundinum. „Stundum dvaldi ljúf lítil gælutík sem hét Kim hjá okkur. Ég held það hafi verið á sjötta eða sjöunda áratugnum, en fína nafnið hennar var HREFNA OF WENSUM. Fjölskyldan varð að láta hana frá sér og við tókum hana að okkur. Þetta var indæll hundur og okkur þótti vænt um hana. Hún var sigursæl á MEISTARASTIGSSÝNINGUM í fjölbreyttum Y-flokki, þ.e. óskilgreindum flokki“.
„Mark Watson kom til okkar dag einn en hann var þá nýkominn frá Íslandi og hafði áhyggjur af því að tegundin myndi deyja út í landinu ykkar. Á þeim tíma ræktaði Sigríður Pétursdóttir kynið á bóndabænum sínum en þurfti á nýju blóði að halda. Mark bað okkur að rækta frá Kim og annari tík sem bjó í Southampton. Báðar þessar paranir voru mjög skyldleikaræktaðar en Mark gat þá loks gefið Sigríði tvo hvolpa. Hann keypti einnig par af henni sem hann gaf mér. Við ræktuðum tegundina áfram um tíma en ég var ekki nægjanlega ánægð með mjúka feldinn sem nýju hundarnir frá Íslandi komu með. Hundarnir frá Mark Watson höfðu grófari feld sem ég kaus heldur. Ég veit hinsvegar að ræktunarmarkmið íslenska hundsins leyfir tvær feldgerðir. Þegar ég hef dæmt þá á Íslandi var ég mjög ánægð með ræktunarmarkmiðið. Tegundin á mikið að þakka MARK WATSON og Sigríði Pétursdóttur“.
Hún heldur áfram að tala um Watson og íslenska fjárhundinn: „Mér skilst að hann hafi farið með fyrstu hundana sína til Kaliforníu en þegar hann snéri aftur til Englands hafði stofninn minnkað nokkuð þar sem hann missti marga hunda af völdum vírus sem kallaðist þá HARD PAD. Hann missti að lokum áhuga á hundarækt of flutti til London þar sem hann átti FÍNA ANTÍKBÚÐ á Old Brompton Road. Ég sagði að hann hafi verið servitur ENSKUR aðalsmaður, ég held hann hafi verið sonur einhvers ættgöfugs lávarðar“.
Jean upplýsir að aðrir hafi ekki ræktað íslenska fjárhundinn í Bretlandi og kynið hafi því miður dáið út þar. Ástæðurnar hafi bæði verið ónógur áhugi og lítill ræktunarstofn. „Við ræktuðum fallega tík (hún sést á mörgum póstkortum í dag) sem bjó hjá góðri fjölskyldu í Guildford. Þau ætluðu að rækta frá henni en því miður þá dó hún í umferðarslysi. Kannski einhver muni flytja þá [íslenska fjárhundinn] til Englands, það væri indælt ef það myndi gerast“.
Mér þykir merkilegt að hér séu einu upplýsingar sem ég hef hingað til fundið um hvolpana sem Sigríður Pétursdóttir fékk frá Mark Watson.
Einnig finnst mér frábært að tegundin sé núna loksins viðurkennd í Bretlandi, eins og ég hef áður skrifað um. Það tók mörg ár, þrátt fyrir að íslenski fjárhundurinn hafi verið eftirsóttur í Bretlandi á miðöldum og þrátt fyrir tilraunir Mark Watsons á 20. öld til að rækta og sýna íslenska fjárhunda þar í landi.
Að lokum vil ég bæta við tveimur greinum um Jean Lanning og hundasýningu á Íslandi árið 1983.
Sími: +354 893 3817
[email protected]