09.12.2024Evelyn Ýr
Svokallaðir hundafár eða hundapestir hafa oft gengið á Íslandi og var oft um bráðdrepandi sjúkdóma að ræða.
Í heimildum er getið um faraldra á hundum á fyrri öldum.
Árið 1591 er talað um dauða nauta, hunda og refa um allt land og sagt að sýkin hafi borist til landsins með enskum hundi fyrir vestan.
Árið 1727 og 1728 er talað um hundapest á Snæfellsnesi, jafnframt varð kvikfénaður bráðdauður.
Á árunum 1731-33 er talað um pest í nautum, hestum, hundum og refum. Í ferðabók Eggerts og Bjarna stendur um pestina 1731 á Suðurlandi: „Þeir (hundar og refir) urðu ringlaðir, en ekki óðir. Refir ráfuðu heim undir bæi og voru þar drepnir.“
Árið 1786 gekk mikil hundapest á Íslandi.
Árið 1827 gekk drepsótt á hundum og urðu þeir svo dýrmætir eftir það, að sumir bændur gáfu þrjár ær fyrir hund.
Árið 1855 gekk hundapest yfir mikinn hluta landsins og gjöreyddi heil héruð að hundum, svo varla var hægt að reka saman búpeninginn. Það var sagt að fárið væri svo næmt, að ef ósjúkur rakki þefaði af manni frá bæ, þar sem fárið var komið, þá veiktist hann óðar. Voru menn víða í mestu vandræðum af hundaleysi, svo jafnvel var boðin kýr eða hestur fyrir hund. „Um hávetur, í mars og apríl, fóru 30 manns úr ýmsum héruðum nyrðra, Bárðardal, Eyjafirði og Skagafirði, suður fjöll, Sprengisand, Eyfirðingaveg og Kjöl, til að kaupa hunda í Árness- og Rangárvallasýslum. Tíðarfar var þá gott, svo fjallaferðirnar gengu vel.“
Árið 1870 gekk skæð hundapest norðanlands, drap fjölda hunda og gerði sum heimili hundlaus. Var sagt að pestin hefði komið með enskum hundi, sem fylgdi enskum ferðamanni. Hún dreifði sig síðan um Vesturland og Suðurland.
1871 skrifar Snorri Jónsson, dýralæknir í Heilbrigðistíðindi:
"Hundurinn er eitt þeirra dýra, sem sjaldan er skortur á, hjer á Íslandi, en menn gá fyrst verulega að, hversu mikið gagn hann gjörir, þegar hann vantar. Þegar hundaveikin geisaði hjer um landið fyrir 16 árum, fengu margir að kenna á, hversu óbærilegt það er fyrir alla, sem hafa fje að birða, að vera hundlausir. Nú í ár lítur út fyrir, að margir muni fá hið sama að reyna; því eptir að hundveikinni að mestu var lokið hjer á Suðurlandi, hefur frjetzt, að hún sje byrjuð bæði á Norðurlandi og Austfjörðum, og sje þegar orðin þar allskæð. Það mun því eigi þykja úr vegi, að hjer sje farið fáeinum orðum um veiki þessa, og drepið á hið helzta, sem gjört verður til að draga úr henni."
Hann skrifar enn fremur að þessi veikindi líkist Febris catarrhalis epizootica canum, sem þekkist erlendis, nema að erlendis leggst þessi veiki aðeins á hunda sem eru yngri en eins árs. Hér á landi er hún hins vegar jafnskæð hundum á öllum aldri.
Pestin lýsir sér á þann hátt: "Veikin byrjar vanalega með hósta og hrygglu.
Trýnið er þurrt og heitt. Úr nösunum og af augunum rennur í byrjun veikinnar tært vatn, sem bráðum verður graptrarkennt. Þetta getur nú gengið nokkra daga, án þess hundurinn virðist að vera mjög veikur; en nú fer honum smá-hnignandi; hann verður máttlaus, skjögrar á fótunum, fær krampateygjur og drepst eptir hálfsmánaðar-tíma eða fyr. Opt fylgir veiki þessari megn höfuðverkur, svo hundurinn verður sem óður, hleypur fram og aptur, snýst í hring og vill jafnvel stundum bíta allt það, sem fyrir honum verður. Máttleysið er ætið mest í apturparti hundsins, og það er eigi sjaldgæft, að aflleysi þetta við helzt eptir að hundurinn að öðru leyti er orðinn albata. Eins ber það líka opt við, að hundurinn verður líkt sem hálftruflaður eptir veikina, ef höfuðverkurinn hefur verið mjög megn. Sjónleysi eða sjóndepra fylgir líka þráfaldlega veiki þessari."
Snorri heldur áfram að hvetja fólk til að hugsa vel um hundana sína, koma í veg fyrir að þeir hafi samgöngu við heilbrigða hunda, láta þá ekki liggja úti á næturnar og gefa þeim nægilega næringarríka fæðu, sérstaklega kjötmeti. Hann gefur einnig leiðbeiningar um alls konar meðul sem hægt er að nota til að meðhöndla veika hunda.
Árin 1888, 1892-93 og 1900 gengu pestir yfir ýmsa landshluta, þar sem fjöldi hunda sýktist og drapst.
Heimild: Lýsing Íslands eftir Þorvald Thoroddsen. Fjórða bindi. Fyrsta hefti. 1920.
Mynd: Hallgrímur Árni Gunnlaugsson f.25.10.1867, beykir Raufarhöfn, ríðandi. 1911. Ljósmyndari Bárður Sigurðsson.
Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]