09.12.2024Evelyn Ýr
Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig Mark Watson fór að því að safna saman allar heimildir um íslenska hunda í bókinni sinni. Hvernig fann hann þær bækur sem hann vitnar í? Fór hann á milli landa og bókasafna, lét hann þýða þær? Það hefði tekið hann mörg ár, en mér finnst það ekki alveg passa við allt sem maðurinn gerði og stóð fyrir. En loksins fann ég skýringu í bókinni Lýsing Íslands eftir Þorvald Thoroddsen, fjórða bindi, fyrsta hefti, prentað árið 1920.
Þessi bók er ein af þeim síðustu sem ég ætlaði að taka fyrir í mínum rannsóknum, og ég var svo heppin að finna hana í fornbókasölu, þar sem þetta bindi er ekki til í rafrænu formi.
Lýsing Íslands er ítarlegt verk í fjórum bindum eftir Þorvald Thoroddsen. Fyrsta bindið kom út árið 1881 og síðasta bindið árið 1920. Þetta rit var afrakstur margra ára rannsókna Þorvalds, oft við krefjandi aðstæður.
Þorvaldur Thoroddsen (1855–1921) var íslenskur jarð- og landfræðingur og er talinn einn af merkustu vísindamönnum Íslands á sinni tíð. Hann ferðaðist víða um landið til að safna gögnum. Lýsing Íslands hefur haldið gildi sínu og er enn talið mikilvægt heimildarrit um íslenska náttúrufar, jarð- og landafræði.
Fjórða bindið fjallar mjög ítarlega um landbúnað á Íslandi, og fyrsta heftið fer yfir húsdýr, garðrækt og akuryrkju.
Þorvaldur skrifar nokkrar blaðsíður um hunda og fer meðal annars ítarlega yfir sögu hunda á Íslandi. Hann nefnir landnámstíð, hungursneyðin 990 og tillögu Arnórs Kerlingarnefs, Sám Gunnars á Hlíðarenda, hunda í Sturlungu og öðrum sögum. Hann fjallar einnig um útflutning íslenskra hunda á miðöldum og vinsældir þeirra meðal enskra kvenna.
Merkilegt þykir mér eftirfarandi gagnrýni Þorvalds á lygasögur sem komu á kreik á 15. öld í tengslum við útflutning íslenskra hunda til Englands:
"Út úr þessari hundasölu spanst sú lygasaga sem einna fyrst kemur í ljós hjá Martein Behaim 1492, sem segir um Íslendinga: 'Þeir eru vanir að selja hunda sína dýrt, en börn sín gefa þeir kaupmönnum fyrir ekkert, svo hin önnur hafi fæði.' Þetta er svo ótal sinnum endurtekið hjá útlendum landfræðishöfundum. Olaus Magnus segir 1555, að á Íslandi séu hvítir hundar, loðnir og hárin eins og ull, og hafi höfðingsfrúr og prestar þá sér til gamans. Blefken segir að hundar þessir séu eyrnalausir og rófulausir. Þetta er þó eflaust vitleysa. Það er varla ástæða til að efast um að hinir smáu, hvítu íslensku loðhundar hafi verið til, en þeir virðast fyrir löngu horfnir; kynferðið hefur ef til vill dáið út í einhverri hundapestinni."
Um hina vanalegu íslensku hunda skrifar Þorvaldur: „...þeir eru af hundakynkvísl þeirri sem kallaðir eru ‘Spids’-hundar, líkir hundum norðan til í Noregi og á Lapplandi, enda eru þeir þaðan upprunalega ættaðir. Þeir eru fremur litlir, hvatir og skynugir, með stutt, en hvast trýni, upprétt, hvöss eyru og hringaða loðna rófu. Þeir hafa ýmsan lit, en munu þó einna oftast vera mórauðir, allmargir líka flekkóttir.“
Þorvaldur gagnrýnir Íslendinga harðlega fyrir illa meðferð þeirra á hundum. Eiginleikum íslenska hundakynsins sé enginn sómi sýndur, hundarnir séu látnir fjölga eftir tilviljun og margir þeirra þurfa að þola píslir af hungri og kulda. Honum sýnist þessi meðferð stafa „mest af kæruleysi og hirðuleysi manna. Hundarnir hafa verið fyrirlitnir og álitnir einskis virði. Þó er góður og vel vaninn hundur eitt hið mesta búmannsþing og getur verið sannur dýrgripur á sveitaheimili.“
Þorvaldur dregur fram kosti íslenska hundsins, sem mætti bæta með ræktun, kynbótum og uppeldi. Hann segir þá vera afbragðs fjár- og smalahunda, sem geta einnig verið góðir varðhundar, skothundar og ferðahundar, til dæmis til að reka hesta og þræða vegi í dimmviðrum. Þefvísi hunda hefur oft komið að góðum notum við að finna fennt fé.
Um samvistir manna og hunda skrifar Þorvaldur: „Hvergi hafa á Íslandi verið sérstök hús, kofar eða krár fyrir hunda, eins og alstaðar er tízka í öðrum löndum. Það hefur verið algengt að siga hundum út á kvöldin, þegar veður var þannig að 'hundi var útsigandi,' eins og orðtækið segir, og loka þá úti. Þeir hafa svo orðið að láta fyrirberast utanhúss, hvernig sem veðrið var, hringað sig í gluggatoftum, heyholum eða öðrum smugum. Aftur á móti hefur sums staðar verið of mikið dálæti á þeim, eða þeir hafa, af hugsunarleysi, haft of náið samneyti við börn og fullorðið fólk, sofið í baðstofum, sleikt matarílát o.s.frv. Eins og kunnugt er fá hundar bandorma úr sullum úr sauðkindum sem þeir éta, en egg bandormanna komast svo í mat manna og eru orsök sullaveikinnar, sem hefur verið svo algeng á Íslandi og gjört svo mikið mein.“
Þorvaldur fer síðan nánar yfir sullaveikina, hundaskatt og sjúkdóma í hundum.
Lýsingar Þorvalds í þessari bók eru ómetanleg heimild um hunda og hundahald á þessum tíma, og það er dýrmætt að þessar upplýsingar hafi varðveist á þennan hátt. Fyrir Mark Watson hefur þessi bók líklega lagt grunn að rannsóknum hans og skrifum.
Mynd: Bruno Schweizer
Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]