07.12.2024Evelyn Ýr
Það hljómar ekki endilega spennandi að lesa bók með titlinum Qualiscunque descriptio Islandiae úr 16. öld, en þvílík veisla er það, verð ég að viðurkenna. Þó hef ég ýtt svolítið á undan mér að byrja að lesa þessa bók sem ég pantaði í fornbókasölu fyrr í haust.
Bókin nefnist Íslandslýsing á íslensku og er talin vera eftir Odd Einarsson. Í formála bókarinnar (eftir Jakob Benediktsson) kemur fram að ritið hafi átt sér æði krókóttan feril og var ekki varðveitt í heilu lagi; lítið munaði að það glataðist með öllu. Uppskriftir ýmissa fræðimanna á 17. öld hafa sennilega orðið eld að bráð í Kaupmannahöfn árið 1728. En ein uppskrift bjargaðist til Hamborgar og varðveittist þar í ríkis- og háskólabókasafninu. Um það handrit var öllum ókunnugt fram á 20. öld, þegar bókavörður við safnið, Fritz Burg, veitti því eftirtekt og gaf það loks út á prent árið 1928. Burg var með sína eigin kenningu um að skólameistari í Skálholti, að nafni Sigurður Stefánsson, væri höfundur ritsins, en Jakob Benediktsson dregur fram ýmislegt sem bendir til þess að Oddur Einarsson sé höfundur. Má þar nefna mjög góða kunnáttu og ýtarlegar lýsingar á Norður- og Suðurlandi, sem að mati Jakobs hefði Sunnlendingur ekki getað haft.
En hver var Oddur Einarsson?
Oddur Einarsson (1559–1630) fæddist í Odda á Rangárvöllum og hlaut menntun sína í Hólaskóla, þar sem hann kynntist vel Norðurlandi og lífsskilyrðum þar. Síðar hélt hann til Kaupmannahafnar og Þýskalands, þar sem hann lagði stund á guðfræði og heimspeki. Árið 1589 var hann skipaður biskup í Skálholti og gegndi því embætti þar til andláts árið 1630.
Oddur var mjög lærður maður og skrifaði Íslandslýsingu á latínu árið 1593 til að verja Ísland gegn neikvæðum lýsingum erlendra fræðimanna, sem oft litu á landið sem afskekktan og hrjóstrugan stað.
Það er mjög gaman að lesa lýsingar hans, t.d. af eldsumbrotum, hitavatnssvæðum, snjóflóðum og náttúrufyrirbærum eins og norðurljósum. Áhugaverðar eru lýsingar hans á birkiskógum, rekaviði og eldiviði. Hann lýsir húsakosti manna á þessum tíma, sem er merkilegt heimild og sýnir vel hvernig íslenskir torfbæir þróuðust fram á 20. öld.
Hann segir frá dæmalausri grimmd og ránsfíkn refsins og ísbjörnum sem koma með rekís frá Grænlandi. Hann lýsir búpeningi og húsdýrum eins og hestum og er með góðan kafla um hunda:
"Af hundum er Ísland mjög auðugt. Sumir eru bæjarhundar, eins og lagaðir til að gæta húsa, aðrir fjárhundar og eru hinir áfjáðustu í að reka saman hjarðirnar, sem dreifðar eru allar götur um fjöll og dali, og enn aðrir eru eingöngu dekurhundar, sem sveitafólk kennir ýmsar listir. Loks eru svo veiðihundar, miklu stærri og vandir á allt annan hátt. Eru þeir notaðir til refaveiða, og leita þeir refinn uppi af furðulegri ratvísi, ekki einasta með því að sjá hann eða heyra í honum, heldur þefa þeir líka uppi spor óvinarins. Þegar honum er svo náð, bita þeir ýmist af honum hausinn, tæta hann sundur eða kyrkja án þess að skadda hann, eftir því hve ofsinn og æðið er mikið í þeim. Auk þess beita bændur ýmsum brögðum til að sitja fyrir refnum og hefna fyrir lymsku hans og búsifjar."
Þegar ég les þessar lýsingar, sé ég íslenska hundinn eins og við höfum hann í dag: blöndu af bestu eiginleikum þessara hunda. Þeir gæta húsa, reka saman hjarðir, eru dekraðir og hægt er að kenna þeim ýmsar listir. Þeir eru ratvísir og hafa frábært þefskyn.
Úr þremur mismunandi hundum, sem eru svo oft nefndir alveg fram á 18. öld (t.d. hjá Eggerti Ólafssyni og Bjarna Pálssyni 1752–1757), varð hundurinn sem við höfum í dag. Fyrir mér kemur þarna skýring á þeirri fjölhæfni sem íslenski hundurinn býr yfir í dag.
Mynd: Úr 16.aldar handrit í Árnasafni
Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]