Sullaveiki og hreinsun hunda

Hero Image

11.10.2023Evelyn Ýr

Sullaveiki hrjáði Íslendinga í margar aldir og var um tíma einn af mannskæðustu sjúkdómum landsins. 

Það er alkunnugt, að Ísland hefur lengi verið talið versta sullaveikisbælið í Norðurálfu og þó víðar væri leitað - skrifar Guðmundur Magnússon í Yfirlit yfir sögu sullaveikinar á Íslandi, Reykjavík 1913.

Talið er að sullaveikin hafi upphaflega borist til landsins með sýktum hundum sem fluttir voru inn frá Vesturlöndum, einkum frá Þýskalandi. Elstu fornbókaheimildir geta þess að um 1200 hafi sjúkdómsmynd sullaveiki þekkst bæði í mönnum og skepnum.

Sjúkdómsvaldur er lirfustig nokkurra undirtegunda Echinococcus bandorms sem nota millihýsil (grasætur; kindur og kýr), sem innbyrðir egg bandormsins, og smitast svo yfir í lokahýsil (hundar) þegar sá étur líffæri millihýsilsins sem er sýkt með bandormsbelgjum fullum af lirfum. Heimild: visindavefur.is

Danski læknirinn Harald Krabbe kom til landsins árið 1863 og dvaldi á Íslandi við rannsóknir á bandormum í hundum ásamt Jóns Finsen, héraðslæknis á
Akureyri. Komust þeir að því að 28% íslenskra hunda væru sýktir. Á þessum tíma voru Íslendingar um 70 þúsund talsins en áætlaður hundafjöldi var á sama tíma 15 – 20 þúsund, eða einn hundur á hverja 3-4 íbúa. Ályktaði Krabbe að útbreiðsla og algengi sullaveikinnar á Íslandi skýrðist einkum af því að hér voru, miðað við höfðatölu, mun fleiri hundar en annars staðar (Guðmundur Magnússon, 1913).

Sullaveikin gat dregið fólk og skepnur til bana og áætlað var að fimmti hver Íslendingur var smitaður af sulli. Taldi Krabbe að besta leiðin væri að fækka hundum og fræða íslenska alþýðu um eðli sullaveikinnar og leiðir til varnar smithættu. Fylgdi þessum niðurstöðum Tilskipun um hundahald 1869 til að fækka hundum og Lög um hundaskatt 1890 en það dugði ekki til að bæta ástandið. Það var til siðs á mörgum bæjum að hundum var leyft að sleikja aska fólksins, komast í sláturúrgangi, valsa um tún og hlöður, liggja í fóðurheyi sauðfjár um nætur og lepja neysluvatn úr ílátum manna.

Upp úr aldamótum komu hundalækningar til sögu. Hundar voru safnaðir saman til hreinsunar á ákveðnum dögum og þeim gefið ormalyf. Hundahreinsun fór fram í húsi eða kofa, þar sem gólf og veggir voru steinsteyptir eða úr öðru þéttu efni, sem auðvelt var að hreinsa. Svelta þurfti hundana í sólarhring fyrir inngjöfina. Það þurfti að passa að hundarnir ældu ekki eftir inngjöfina annars þurfti að endurtaka hana og þegar þeir voru búnir að hreinsa sig með miklum niðurgangi á meðan þeir voru bundnir í kofanum í allt að sex klukkutímum þurfti að baða hundanna í sérstöku hreinsuefni áður en þeir fengu að fara heim til sín. Þessari aðferð var beitt lengi í sumum sveitarfélögum, sjá grein í Dýraverndaranum frá 1. febrúar 1978. Myndin er tekin úr þeirri grein.

En hundahreinsunin eins harkaleg og hún var, varð til þess að sullaveikinni var útrýmt á Íslandi á 20. öld og finnst því veikin ekki lengur á Íslandi. Í dag þarf að framkvæma hundahreinsun með ormalyfi vegna vöðvasullsbandormsins en sem betur fer eru aðferðirnar öðruvísi en áður fyrr. Sjá nánar á vef MAST.


SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

SAMFÉLAGSMIÐLAR->

HAFA SAMBAND->

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

Soknaraetlun