21.03.2024Evelyn Ýr
Tíminn flýgur áfram og verkefnin breytast með hækkandi sól. En ennþá er smá tími til þess að grúska í bókum og greinum.
Ég datt inn á þessa frásögn sem passar svo vel við veðrið í kvöld (stórhríð í vændum):
"Víða eru til skráðar sögur um samskipti manns og hunds. Hundurinn hefur frá landnámstíð verið Íslendingum, ásamt hestinum þarfasti þjónninn. Hann fór á undan húsbónda sínum þegar ekki sá út úr augum fyrir blindhríð og skilaði honum heim að bæjardyrum." Sarpur/Þjóðhættir. Karlkyns, fd. 1905
Svo voru það tvær bækur eftir Stefán Aðalsteinsson sem ég var að fletta í gegn. Stefán Aðalsteinsson (1928-2009) var íslenskur rithöfundur og doktor í búfjárfræðum. Hann lauk doktorsprófi með ritgerð um erfðir sauðfjárlita. Rannsóknir hans um íslenskt búfé og meðal annars um uppruna húsdýra eru enn í dag mikilvægar og eru þær mjög áhugavert lesefni.
Í bókinni Sauðkindin, landið og þjóðin, Rvk. 1981 fann ég stuttan texta úr ritgerð í Búnaðarritinu frá 1891 (Hermann Jónasson):
"Það er frámunalegt að hugsa til þess, að í fjalllendi, þar sem sauðfjárrækt er helsta atvinnugreinin, skuli meiri hluti hunda vera lítt nýtir og óvandir; og að varla skuli hittast menn, er hafa lag eða öllu heldur vilja til að venja þá. ... Þá er að athuga, hvort hægt sé að venja íslenska hunda svo, að þeir verði eins vænir og útlenski hundar. Þessu er erfitt að svara; því að þótt stórkostlegt sé til að hugsa, þá veit ég ekki dæmi til, að nokkru sinni hafi verið reynt með fullri alúð og lægni að venja íslenskan hund. Það er að segja, með árvekni, sem við það er lögð í útlöndum."
Það er alltaf gaman að velta fyrir sér vinnueðli íslenska fjárhundsins og eiginlega finnst mér alveg óþarfi að bera eðli hans alltaf saman við eðli Border collie hunda eða að ætla íslenska hundinum að vinna eins og "útlenskir hundar". Þeir eru bara öðruvísi og það er bara í góðu lagi. Ég hef verið að velta svolítið fyrir mér undanfarið að nafngiftin "Íslenskur fjárhundur" var kannski ekki mjög skynsamlegt. Ef hann væri bara kallaður íslenski hundurinn, hvað væri öðruvísi? Mundum við sleppa við endalausa samanburði við aðrar fjárhundategundir? Væri minna af fordómum gagnvart honum? Værum við stoltari af þjóðarhundinum okkar?
Mynd: Stefán Aðalsteinsson
Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]