Framhaldandi vangaveltur um nafngiftina

Hero Image

23.03.2024Evelyn Ýr

Í framhaldinu af færslunni minni í gær ákvað ég að bera vangavelturnar mínar um nafngiftina undir eigendur og vini íslenska fjárhundsins. Ég spurði fólk álits á facebook um "Ef íslenski fjárhundurinn væri bara kallaður íslenski hundurinn, hvað væri öðruvísi?". Úr því varð mikil umræða sem mér finnst bæði þörf en einnig áhugaverð og ég þakka öllum þeim sem tjáðu sig um þetta málefni.

Það var tekið fram að íslenski fjárhundurinn er vinnuhundur, hann var að reka fé, nautgripi, eða hesta en hann er líka góður í mörgu öðru. Sumir kunna að veiða mýs, safna eggjum úr hreiðrum, rekja slóðir eða vinna sem björgunarhundar. 
Þar sem hlutverk íslenska fjárhundsins er svo fjölbreytt var varpað fram nöfnum eins og íslenski búhundurinn eða íslenski smalahundurinn, vakt- og varðhundur en þetta var meira sagt í gríni og til að skoða hvernig það mundi hljóma. Það vill enginn breyta nafninu, það er á hreinu og það er heldur ekki það sem ég vil eða kalla eftir. 

Á einhverjum tímapunkti var nafnið Íslenskur fjárhundur ákveðið eða skjalfest og ég heyrði að Búnaðarsambandið kom að þessari ákvörðun til að gera hann meira aðlaðandi sem sveitahund. Það var á þeim tímum sem skipulögð ræktun hófst og það þurfti að hafa mikið fyrir því að bjarga hundinum frá því að deyja út. 

En auðvitað ef við horfum á sögu hundsins og fyrir hvað hann var notaður í gegnum aldirnar þá var það eðlilega vinna í kringum sauðféð. Hanna Kristín sem ræktar íslenska fjárhunda á Reykjavöllum kom þessu vel að orði:

"... hann kom að mest gagni kringum féð. Fæstir áttu mikið af hrossum og þau voru bara úti. Lítið verið að brasa með þau dags daglega. Féð þurfti að reka þangað sem beitin var, koma því heim þegar veður urðu válynd, halda ánum í kvíum, reka það úr túnum á sumrin, sækja það upp í kletta og klungur þegar það hafði komið sér í sjálfheldu, leita að því þegar það hafði fennt og grafa oná það í snjónum. Mér finnst eðlilegt að þjóðarhundurinn sé kenndur við féð, sem hélt lífinu í þjóðinni. Hann átti svo mikinn þátt í vinnunni kringum féð."

Í gömlum íslenskum textum er oft talað um "fjárhunda". Í enskum textum er hinsvegar oftast talað um íslenska hunda og þegar ég var að leita í gömlum bókum í stafrænum bókasöfnum þar sem sagt er frá íslenskum hundum, þá fann ég varla bækur með leitaorðinu Icelandic sheep dog en ég fann bækur þegar ég sló inn Icelandic dog. 

Mark Watson nefndi bókina sína The Iceland dog 874-1956 og hann skrifar í formála bóksins: "As there is only one true type of dog in Iceland, would it not be easier to call him simply the Iceland dog, and at the same time let it be understood that he comes under the heading of a "working dog"? Many more authors refer to the Icelandic Dog rather than the Icelandic Sheepdog - occasionally the Danes mentioned the Islandske Spidshunde..."

Þessi umræða virðist ekki ný af nálinni eftir allt saman og mun örugglega ekki enda hér og nú og það er líka bara í góðu lagi.


SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

SAMFÉLAGSMIÐLAR->

HAFA SAMBAND->

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

Soknaraetlun