02.01.2025Evelyn Ýr
Síminn minn hringdi um 10:30 á gamlársdag.
„Ingibjörg fréttamaður hjá RÚV, góðan dag. Mig langar að athuga hvort þú sért tilbúin í stutt viðtal um frétt sem barst frá Bretlandi – að breska hundaræktarfélagið hafi viðurkennt íslenska fjárhundinn sem tegund og hvað það þýðir.“
Ég hélt það nú! Fyrir utan útskýringar á því hvað þessi viðurkenning þýðir fyrir tegundina vorum við að spjalla um verkefnið mitt og tilvonandi opnun sýningarinnar um sögu íslenska fjárhundsins hér á bæ.
Hversu dásamlegt að fá óvænt tækifæri til að kynna sýninguna á síðasta degi ársins fyrir landsmenn! Viðtalið var útvarpað í hádegisfréttum og einnig birtist frétt á ruv.is. Ég er ennþá alveg í skýjunum – ekki síst yfir því að RÚV leitaði til mín, var búið að frétta af mér og verkefninu. Það var dásamlegt að ljúka árinu með þessu viðtali!
Til útskýringar á fréttinni frá Bretlandi: íslenski fjárhundurinn var einu sinni viðurkennd tegund hjá breska hundaræktarfélaginu. Til að mynda var Vaskur frá Þorvaldsstöðum valinn BOB (Best of Breed) á Crufts-sýningunni árið 1960. Mark Watson flutti hann frá Íslandi til Kaliforníu og síðar til Englands. Aðeins viðurkenndar tegundir fá að taka þátt í hundasýningum.
Seinna voru of fáir einstaklingar skráðir í Bretlandi og tegundin missti viðurkenninguna. Núna hefur margra ára barátta eigenda og aðdáenda íslenska fjárhundsins skilað sér í nýrri viðurkenningu, og hægt verður að rækta og sýna íslenska fjárhundinn á ný í Bretlandi. Til hamingju!
Tenglasafn
Frétt á The Guardian 31.desember 2024
Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]