Í árslok

Hero Image

30.12.2024Evelyn Ýr

Í lok árs er gott að horfa til baka og gera upp árið.

Við náðum því miður ekki að opna sýninguna á þessu ári, þar sem byggingarframkvæmdir töfðust vegna flókins umsóknarferlis og slæms veðurfars. Ég var kannski of bjartsýn í ársbyrjun, en það er bjartsýni sem drífur okkur áfram – ekki satt?

Ég hafði því meiri tíma til að undirbúa sýninguna, sem kom sér vel, því verkefnið er stærra en ég hafði gert mér í hugarlund í upphafi.

Mig langar að stikla á stóru yfir það helsta sem gert var í undirbúningi sýningarinnar.

Í janúar var sérstakt svæði opnað á vefsíðunni þar sem sögur um hunda voru færðar inn. Hægt er að bæta við sögum hvenær sem er, og endilega sendið mér sögur ef þið viljið segja frá hundum – ykkar eigin eða öðrum. Einnig sögur sem þið hafið heyrt eða lesið. Það skemmir ekki að láta myndir fylgja með ef þær eru til.

Í febrúar fengum við til okkar kvikmyndafólk til að taka upp efni (myndir og myndbönd) fyrir sýninguna. Fyrir þessa vinnu fengum við styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra.

Í vor fjárfestum við í fallegu húsi (tilsniðið en ósamsett) og hafist var handa við undirbúning fyrir grunninn. 

Mest vinnan í sumar fór í byggingarframkvæmdir, og myndir af ferlinu er hægt að sjá á Facebook-síðu verkefnisins.

Í júlí mætti ég á viðburð í Glaumbæ á Degi Íslenska fjárhundsins og var beðin um að kynna verkefnið fyrir gestum. Samstarfið við Byggðasafn Skagfirðinga er mér mjög kært og hlakka ég til áframhaldandi samvinnu.

Í haust keypti ég nokkrar gamlar myndir, aðallega koparstungumyndir af íslenskum fjárhundum. Ég fann þessar gersemar í antíkverslunum í Evrópu og Bandaríkjunum og þær verða til sýnis á sýningunni.

Ég sótti um fleiri styrki til að ljúka undirbúningi og uppsetningu og fékk jákvæð svör bæði frá Menningar- og viðskiptaráðuneytinu og Menningarsjóði Kaupfélags Skagfirðinga. Ég er mjög þakklát fyrir þennan stuðning.

Haustið var einnig nýtt til áframhaldandi lesturs, rannsóknarvinnu og textaskrifa. Nú tel ég mig vera tilbúna til að taka lokaskrefið og ég vona að geta opnað sýninguna í apríl eða maí.

Rétt fyrir jól vorum við með opið torfhús og fengu gestirnir tækifæri til að kíkja líka í nýja húsið, þó það sé ekki alveg fullklárað. Við settum upp ýmislegt til að gefa innsýn í það sem koma skal í sýningunni, og kvikmyndarefnið sem tekið var upp í febrúar var sýnt í fyrsta skipti, sem vakti mikla lukku hjá gestum okkar.

Nú kveð ég þetta ár með miklu þakklæti til allra sem hafa stutt mig í þessu verkefni, unnið fyrir mig, sýnt mér stuðning, hvatt mig áfram, gefið mér klapp á bakið, sent mér bækur, sögur, myndir eða annað áhugavert efni.

Síðast en ekki síst þakka ég fjölskyldunni minni fyrir að sýna mér þolinmæði og trú á hugmyndum mínum sem ég verð sjaldan þreytt á að þróa og framkvæma.

Ég læt þessari færslu fylgja mynd sem tekin var í Glaumbæ í febrúar þegar við tókum þar upp efni.

Takk fyrir samfylgdina og ég óska ykkur öllum gleðilegs og friðsæls nýs árs.


SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

SAMFÉLAGSMIÐLAR->

HAFA SAMBAND->

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

Soknaraetlun