Íslenski hundurinn í Bretlandi

Hero Image

21.01.2025Evelyn Ýr

Eins og fram kom í síðustu bloggfærslunni minni hefur breska hundaræktarfélagið, The Kennel Club, nýlega viðurkennt íslenska fjárhundinn sem tegund.

Ég skrifaði einnig um Vask frá Þorvaldsstöðum, sem stóð sig einstaklega vel á Crufts-sýningunni árið 1960. Ég var viss um að tegundin hefði verið viðurkennd á þeim tíma fyrst Vaskur fékk að taka þátt í sýningunni.

Mér fannst samt sem áður að ég þyrfti að kafa dýpra í málið. Það skiptir máli að upplýsingarnar séu réttar, sérstaklega þegar maður miðlar sögu og staðreyndum um þessa merkilegu tegund. Ég vildi vera viss um að ég væri ekki að breiða út rangar upplýsingar um íslenska fjárhundinn og hans sögu í Bretlandi.

Ég las greinar, bækur og önnur heimildaskjöl sem ég hafði undir höndum, en að lokum hafði ég samband við The Kennel Club til að fá skýringar á því hvernig staðan var í raun á þessum tíma. Það tók ekki nema hálfan sólarhring að fá mjög ítarlegt svar frá starfsmanni bókasafns breska hundaræktarfélagsins, sem ég er afar þakklát fyrir og ætla að birta að hluta hér.

The Kennel Club er elsta hundaræktarfélag í heimi, stofnað árið 1873. Íslenski fjárhundurinn mun brátt verða nýjasta viðurkennda hundategundin í Bretlandi. Hins vegar hafa nokkrir íslenskir fjárhundar verið skráðir áður.

Hundurinn Chuck var skráður sem íslenskur kollí (í Bretlandi eru fjárhundar kallaðir collie) í október 1905. Þetta var í skráningarflokki „Any Other Variety Foreign or Colonial Dog“, sem þýðir ekki að tegundin hafi verið viðurkennd í þeim skilningi sem við þekkjum í dag. Þetta var einfaldlega flokkur sem náði yfir allt sem fólk vildi skrá, og engin staðfestingarferli voru til staðar.

Skráning í flokknum „Any Other Variety“ var aflögð árið 1970. Í þessari skrá má finna einstaka eða fáeina hunda af ýmsum tegundum sem aldrei var ræktað úr. Þetta á við um Chuck og hina fáu íslensku fjárhunda sem voru skráðir á sama hátt á seinni tímum.

Chuck var skráður í tímaritinu Kennel Gazette (sjá mynd hér að ofan) í nóvember 1905, sem hundur með „óþekkta ætt“. Eigandi hans var Mr. E. Swain, og dagsetningin 2. október fylgir skráningunni. Óljóst er hvort þetta sé fæðingardagur Chucks eða dagurinn sem Mr. Swain eignaðist hann. Yfirleitt táknar þessi dagsetning fæðingardag, en það vekur spurningar hvernig Mr. Swain gæti ekki vitað um a.m.k. annan foreldri hundsins ef hann hefði fæðst mánuðinum áður. Chuck var ekki skráður sem innfluttur hundur, þrátt fyrir að hann hafi líklega þurft að vera það.

Í tillögu Guðna Ágústssonar um skipulega ræktun íslenska fjárhundsins frá 1993 stendur:

"Árið 1905 var íslenskur hundur „Chuck“ ættbókarfærður í The English Kennel Club og um leið var kynið viðurkennt sem slíkt í Englandi og gefin út ræktunarmarkmið sem þýtt var úr dönsku. Íslenskir hundar hafa örsjaldan komið þar fram á sýningum en þó var Vaskur frá Þorvaldsstöðum bestur í sínum flokki og keppti um titilinn „Besti hundurinn á sýningu á Crufts“ árið 1960, þá sjö ára gamall."

Það er ýmislegt í þessu sem er einfaldlega ekki rétt, og mig langar að leiðrétta það hér og nú, þó ég geti ekki breytt þessari tillögu.

Chuck var ekki ættbókarfærður, en hann var skráður í flokkinn „Any Other Variety Foreign or Colonial Dog“.

Kynið var ekki viðurkennt sem slíkt í Englandi; það gerðist ekki fyrr en 120 árum síðar.

The Kennel Club gaf ekki út ræktunarmarkmið árið 1905, en í bókinni Dogs of All Nations eftir Count Henry De Bylandt birtist ræktunarmarkmið fyrir íslenska hundinn á fjórum tungumálum (frönsku, ensku, þýsku og hollensku). Líklega var þetta markmið þýtt úr dönsku, en það er ekki alveg ljóst hvaðan Bylandt fékk það þegar hann gaf bókina út árið 1897.

Vaskur frá Þorvaldsstöðum keppti ekki um titilinn „Besti hundurinn á sýningu“ árið 1960, þar sem hann keppti í flokknum „Any Variety Not Classified at this Show“ og stóð þar efstur. Það gaf honum þó ekki rétt til að keppa um „Best in Show“, þar sem flokkurinn „Any Variety“ var blandaður flokkur frekar en tegundasértækur flokkur.

Nokkrum árum eftir að Chuck var skráður, birtast tveir íslenskir fjárhundar á hundasýningum í Bretlandi, einnig í flokknum „Any Other Variety“, árið 1923 á Birmingham National og 1925 á Kensington Canine Society.

Þessir hundar voru í eigu Gwendoline Wingfield Digby, sem var mjög þekkt ræktandi á þeim tíma og sérhæfði sig í annarri Spitz-tegund, Keeshond. Hún flutti báða hundana beint frá Íslandi.

Þeir fengu talsverða athygli í fjölmiðlum sem nýjung, enda höfðu íslenskir fjárhundar aldrei sést áður á breskum hundasýningum. Í bókinni The Iceland Dog eftir Mark Watson er mynd úr blaðinu Our Dogs sem sýnir skráningu þessara hunda:

  • Mrs. G. Wingfield Digby. Langa of the Borgafiord
    (Icelandic Sheep Dog) b. júní 1921. Br. Mr. E. Einarsson. Pedigree unknown.
  • Mrs. G. Wingfield Digby. Hvita of the Borgafiord
    (Icelandic Sheep Dog) b. júlí 1922. Br. Mr. A. Sigurðsson. Pedigree unknown.

Í bók Watsons er einnig grein þar sem Digby skrifar um íslenska hunda:

" In Iceland we found a dog of different type to any we had seen before, which was very interesting, as I had not seen it mentioned in the few textbooks I had been able to get hold of, although I have since read and seen pictures in travel books of exactly this type. Also the dogs must have been peculiar to their country for a great number of years, as they are mentioned in Shakespeare.
They are small- at least, they seem very small for a aheep dog, although, of course, everything up there is emaller than the rest of Europe - exceedently alert, active, and very fast, well built, with curly tail, broad chest, fine drawn legs and muzzle, prick ears, and a stong coat, which always should look very shiny and well kept. The dog does that for himself. If they come in dirty they clean themselves in about ten minutes. In Iceland I have seen men work these dogs over the river at a great distance from themselves by waving their arms. We noticed they were absolutely devoted to their masters and some of them simply could not bear us - strange sort of people they had never seen before-ooming anywhere near their belongings. When their masters sat down the dogs immediately came and sat down and leant against them. A curious fact is that they are never allowed in the house in Iceland. I suppose simply because the lack of accommodation is so acute there, but I find them to be quite the best
of house dogs. They will learn anything, as they are so anxious to please, perfectly devoted and good watch dogs, and they are very strong and healthy. The colours are black and white. Black should predominate, or brown and black, l also saw them over there of a beautiful golden or chocolate color, with yellow eyes, but certainly the greater number I saw were black ones with white
on them." 

Það var fróðlegt að hafa fengið þessar upplýsingar, og ég vona að viðurkenning íslenska fjárhundsins verði til þess að hann fái verðskuldaða aðdáun og aukna útbreiðslu í Bretlandi á komandi árum, því hann hann hefur átt sinn sess þar í gegnum aldirnar eins og Skakespeare sannaði.


SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

SAMFÉLAGSMIÐLAR->

HAFA SAMBAND->

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

Soknaraetlun