Merkishundar

Hero Image

08.10.2023Evelyn Ýr

Í grúskinu mínu um sögu íslenska fjárhundsins hef ég rekist á margar áhugaverðir frásagnir um hunda og fólk. Ég er að reyna að fá einskonar strúktur í allt efnið sem ég er búin að lesa og safna til að koma því svo á framfæri á þessari síðu og einnig í sýningunni. Til þess er ég að lesa margt oftar en einu sinni til að átta mig betur á öllum samhengjum.

Til dæmis datt ég núna áðan aftur í grein um Kát frá Keldum en þar stendur:

"Kátur frá Keldum Ól. 11-68 andaðist 22. des. 1978. Þessi merkishundur, sem flestir eða allir Ólafsvallahundar rekja ætt sína til, var fæddur á Keldum í október 1959 og var því á tuttuguasta aldursári er hann lést. Hann var fyrstu ár ævi sinnar á Írafelli í Kjós, en kom til Sigríðar og Kjartans á Ólafsvöllum árið 1964 og var þar síðan til dauðadags. Kátur frá Keldum var mikill eftirlætishundur á þessu stóra heimili og naut þar ýmissa forréttinda, en þar var jafnan margt hunda. Síðustu tvö árin var honum nokkuð farið að hraka, sjón og heyrn biluð og hann var orðinn giktveikur. Kátur var mjög fallegur hundur þegar hann var upp á sitt besta. Rauðgulur, með hvítan blett í hnakka, hvítar lappir og ljós í rófu. Hann var stór og myndarlegur, e.t.v. ívið of langur ef nokkuð var, byggingin annars prýðileg. Geðslag var sérstaklega gott og um gáfur hans efaðist enginn, sem til þekkti. Af honum er kominn mikill ættbogi. Foreldrar Káts voru Klói frá Sellátrum og Pollý frá Keldum, en til þeirra merkishunda eiga allir núlifandi íslenskir hundar ætt sína að rekja. G.S."

Myndin af Kát sem fylgir greininni minnti mig á myndina sem ég notaði í blogg-póstinum um Strút, Kol og Mark Watson. Sú mynd er af Koli, pabba Strúts.

Ég fór að leita í efninu sem Salín sendi mér um Strút og þar er meðal annars afrit af ættbók Strúts. Þar sá ég að Kolur, pabbi Strúts er ekki undan Kát heldur er mamma Strúts undan Kát frá Keldum. Sú tík hét Píla frá Ólafsvöllum og mamma hennar hét Táta. Við nánari skoðun kemur í ljós að Táta, Kátur og mamma Kols, sem hét Skotta frá Sætúni, voru alsystkini. Ég mæli með að skoða myndina hér fyrir ofan. Foreldrar þeirra voru, eins og fram kemur, Klói frá Sellátrum og Pollý frá Keldum. Klói átti fjögur afkvæmi með Pollý en Pollý átti samkvæmt gagnagrunni DÍF líka Snotru. Snotra var undan Trygg en hann var undan alsystkynunum Kát og Skottu. Snotra er ekki skráð í gagnagrunni ISIC frá því sem ég best veit.
Þarna sést vel áskorunin á þeim tímum í því að framrækta íslenskan fjárhund úr mjög litlum hundastofn og hreint út sagt ótrúlegt afrek að þetta tókst.

Ég ákvað að láta ættbók Strúts (með þakklæti til Salínar) fylgja þessum pósti en myndir af Klóa og Pollý er hægt að finna í gagnagrunni ISIC.


SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

SAMFÉLAGSMIÐLAR->

HAFA SAMBAND->

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

Soknaraetlun