16.07.2023Evelyn Ýr
Mark Watson er mörgum Íslendingum kunnugur.
Afrekum Watsons eru ekki gerð skil á í stuttum bloggpósti og hann mun fá meira pláss á vefsíðunni og á sýningunni von bráðar en ég ætla samt að draga saman nokkra punkta því nú styttist í Dag íslenska fjárhundsins þann 18. júlí, sem er fæðingardagur Mark Watsons.
Mark Watson var fæddur 18. júlí 1906 í Bretlandi. Fjölskylda hans var mjög auðug og átti búgarð í Skotlandi og sumarbústað í Austurríki. Hún bjó glæsilega í London.
Watson var vel menntaður og stundaði nám við bestu skóla Bretlands og einnig á meginlandinu. Hann talaði reiprennandi frönsku og góða þýsku.
Hann ferðaðist víða um heim og fékk áhuga á Íslandi strax í æsku. Honum dreymdi um ævintýri á Íslandi og kom í sína fyrstu ferð til Íslands sumarið 1937. Árið á eftir fór hann ríðandi um landið. Á þessum ferðum tók hann ljósmyndir og hreyfimyndir sem sýndar voru í London og á heimssýningunni í New York árið 1939.
Watson var Íslendingum örlátur. Hann gaf þjóðminjasafninu á annað hundrað vatnslitamyndir eftir Collingwood, breskann málara sem ferðaðist um Ísland í lok nítjándu aldar, auk annarra listaverka sem hann færði safninu að gjöf.
Sumarið 1938 kom hann í Glaumbæ í Skagafirði og tók ástfóstur við gamla bæinn. Watson vildi kaupa Glaumbæ, og endurreisa í upprunalegri mynd og gera að safni. En bærinn var ekki falur. Þegar hann var kominn heim ákvað hann að senda tvöhundruð sterlingspund til Íslands, svo hefja mætti viðgerðir á Glaumbæ.
Watson var mikill hundamaður og var einn fyrstur manna til að gera sér grein fyrir að íslenska fjárhundakynið var að deyja út. Hann ákvað því að bjarga kyninu. Hann lét safna saman hundum sem fundust með hið dæmigerða útlit íslenska fjárhundsins og keypti þá. Síðar voru þeir sendir til Kaliforníu þar sem hann bjó um árabil á búgarðinum Wensum kennel í Nicasio.
Árið 1957 gaf Mark Watson út bók um íslenska hundakynið. Bókin heitir The Icelandic dog 874 – 1956 og í henni telur Watson upp öll gögn sem hann fann um íslenska fjárhundinn.
Watson aðstoðaði Sigríði Pétursdóttir frá Ólafsvöllum (sem mun fá ýtarlegri umfjöllun á þessum vettfangi síðar) við að flytja íslenska fjárhundshvolpa úr hans ræktun frá Englandi til Íslands til að hefja mikilvægt ræktunarstarf. Sigríður Pétursdóttir stofnaði ásamt fleirum Hundaræktarfélag Íslands árið 1969. Markmið félagsins var verndun og ræktun íslenska fjárhundakynsins. Á stofnfundinum var samþykkt að sýna Íslandsvininum Mark Watson þá virðingu að gera hann að heiðursstofnfélaga, þar sem hann hefur haft frumkvæði að verndun íslenska fjárhundsins, auk þess sem hann skrifaði bók um hundategundina.
Í byrjun árs 1973 gaf Watson, Íslendingum dýraspítala með öllum búnaði.
Mark Watson lést á heimili sínu í London í mars 1979.
Áhugasömum er bent á smárit Byggðasafns Skagafjarðar Mark Watson og Glaumbær og greinina Mark Watson og dagur íslenska fjárhundsins eftir Þórhildi Bjartmarz til að fræðast meira um hann.
Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]