Hundakassi á Sellátrum

Hero Image

20.07.2024Evelyn Ýr

Ég rakst á þessa litlu og skemmtilegu frásögn frá Sellátrum, en það er Höskuldur Davíðsson sem á aftur heiðurinn af því að segja frá bernskuminningum sínum og færi ég honum bestu þakkir. Sögur eins og þessi gefa okkur smá innsýn í samofið líf manna og hunda á gamla tímanum.

Höskuldur skrifar 19.júlí 2024

"Það var sjósorfin möl úr fjörunni sem gólf í fremri gangi gamla húsins á Sellátrum.
Þar gátu hundarnir gert þarfir sínar ef útihurð var lokuð vegna veðurs eða af öðrum ástæðum að nóttu til.
Svo var bara þrifið að morgni og þótti heldur leiðinlegt starf fyrir stubbana.

Á þessari mynd úr albúminu hennar Guðnýjar systur minnar, höfum við Björgvin fóstbróðir minn, greinilega reddað þessu vandræða máli og búið til útisalerni fyrir hundana, svo að við slyppum við þrifin.

Okkur hefur láðst að tengja saman það að hundarnir gerðu þetta bara þegar þeir voru lokaðir inni.

Þetta hefur greinilega verið stór viðburður og ástæða til að fá lánaðan íslenska fánann, sem var helgigripur og ekki lagður að hégóma.

Á bænum var mikið talað um að hver og einn þyrfti að leggja sig fram til hins ýtrasta til að styðja við nýfengið sjálfstæði landsins og hefur okkur trúlega fundist við hafa gert okkar í því máli þarna.

Við minnumst hinsvegar ekkert á það að efnið var sjálfsagt fengið "lánað" úr framkvæmdum við byggingu rafstöðvar og verkfæri eftir okkur hist og her út um allt tún, komandi upp úr sinunni ónýt að vori, við lítinn fögnuð föður míns.
En stoltið og tilfinningin um að hafa gert gagn, yfirskyggði sjálfsagt atyrðin og skammirnar hjá stórsmiðunum.

Allavega hélst þörfin við líði, til að halda áfram að byggja eitthvað, hjá okkur báðum, alveg fram á elliár."


SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

SAMFÉLAGSMIÐLAR->

HAFA SAMBAND->

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

Soknaraetlun