Fornleifarannsóknir

Hero Image

22.11.2024Evelyn Ýr

Eftir að hafa skrifað póstinn um Hunda á landnámsöld langaði mig að skoða fornleifarannsóknirnar betur til að dýpka þekkingu mína og fá meiri innsýn.

Lítið er vitað um útlit hunda á landnámsöld, en vitað er að þeir komu með landnámsmönnum til Íslands á 9. öld.

Við vitum einnig að hundar sinntu ýmsum verkefnum og voru því misjafnir að gerð. Sumir fylgdu höfðingjum í blíðu og stríðu, eins og Sámur Gunnars á Hlíðarenda, sem talið er að hafi verið írskur úlfhundur sem var veiðihundur. Smáhundar voru aftur á móti þekktir sem gæludýr yfirstétta og presta.

Flestir landnámsmenn voru bændur. Búfénaður þeirra gekk að hluta til sjálfala og hélt sig ekki í hópum, enda áttu dýrin enga náttúrulega óvini og dreifðust víða. Hundar voru því notaðir til að smala búfénaðinum saman og reka hann heim að bænum. Hvorki úlfhundar né smáhundar voru hentugir til slíkra verka í þessu viðfeðma landi. Það voru hins vegar fjárhundar sem urðu ómissandi félagar bænda.

Fornleifarannsóknir hafa varpað ljósi á þær tegundir hunda sem voru til á fyrstu áratugum byggðar á Íslandi, sem og á tengslin milli hunda og fólks á þessum tíma. Hundabein hafa fundist í 32 kumlum frá víkingaöld.

Rannsóknir á dýrabeinum á Íslandi hófust á 19. öld. Til dæmis fannst kuml frá víkingaöld við Hafurbjarnastaði árið 1868, þar sem grafið voru upp bein af hesti og hundi.

"Hundar á Víkingaöld voru ólíkari innbyrðis en íslenska kynið í dag og voru stundum einnig grafnir með fólki. Sjaldgæfara var að drepa og grafa hunda og var sá siður ekki jafn fastmótaður og hrossdrápin. Hundarnir deildu alltaf gröf með manneskju en stundum var einungis hluti skrokks þeirra grafinn. Ummerki á beinum sumra hundanna benda til að þeir hafi notið atlætis í lifanda lífi sem styrkir þá túlkun að þeir hafi verið grafnir með eiganda sínum." (Rúnar Leifsson. Ritual Animal Killing and Burial Customs. 2018).

Við rannsóknir á hundabeinum hefur í nokkrum tilfellum komið í ljós gömul, gróin beinbrot, og stundum vantar tennur. Talið er að hundarnir hafi verið grafnir í þessu ástandi. Slík meiðsli gætu verið ummerki um ofbeldi eða misþyrmingar, sem sjaldan finnast í tengslum við búfénað. Hins vegar hefur samband fólks og hunda alltaf einkennst af sterkum tilfinningatengslum. Hundar voru mun nær eigendum sínum en önnur dýr og gegndu oft hlutverki félaga og vinveittra samferðamanna. (Rúnar Leifsson)

Það er einnig áhugavert að lesa um hvernig hundar voru staðsettir í gröfum manna. Ólíkt hestum fylgdu þeir alltaf mönnum og voru aldrei grafnir einir sér. Staðsetning hundanna gefur sterklega til kynna náin tengsl milli manns og dýrs.

Oftast hafði hundslík verið lagt við fætur hins látna. Þetta gæti hafa líkt eftir hundi sem krýpur og hvílir við eiganda sinn, rétt eins og hann gerði í lifanda lífi. Í tveimur tilvikum voru tengslin milli manns og hunds enn nánari. Í Gautlöndum í Suður-Þingeyjarsýslu var maður grafinn liggjandi á hlið í svokallaðri „fósturstellingu“, þar sem hundurinn hafði verið lagður undir annað hné hans. Svipuð staðsetning á hundi er líkleg í gröf á Dalvík (Brimnes) í Eyjafirði. Þar álykta fornleifafræðingar að hinn látni hafi verið grafinn í sitjandi stöðu, með hundinn hvílandi milli fóta hans eða hennar.

Ekki er ljóst hvernig hundar voru felldir í tengslum við grafarsiðir í flestum tilvikum. Þetta er að hluta til vegna lélegrar varðveislu og stundum vegna þess að sýnum var valið af handahófi við uppgröft, en hugsanlega einnig vegna þess að sumar aðferðir til að drepa skildu ekki eftir ummerki á beinum. Einu skráðu ummerkin hingað til benda til að það hafi verið gert með barefli.

Fyrir utan doktorsritgerð Rúnars Leifssonar, sem ég hef að mestu leyti notað til að vinna þennan póst, er bók Kristjáns Eldjárns Kuml og haugfé frá 1956 ómetanleg heimild fyrir áhugasama um fornleifarannsóknir á kumlum og gröfum á 20. öld.

Einnig er ritið Margt býr í moldinni frá Byggðasafni Skagfirðinga, sem fjallar um rannsóknir í skagfirsku minjaumhverfi á árunum 2000–2005, mjög áhugavert og miðlar fróðleik til almennings á aðgengilegan hátt.

Í rannsóknum í Skagafirði fundust hundabein bæði á Kolkuósi og í Keldudal.

Kolkuós var ein helsta verslunarhöfn landsins frá landnámi fram á 16. öld og er staðsett skammt frá Hólastað, sem varð biskupsstóll árið 1106. Þar fundust meðal annars hundabein úr maltnesku smáhundi sem var þekkt gæludýr yfirstétta Evrópu á miðöldum. Þetta er í fyrsta sinn sem leifar slíks hunds finnast á Íslandi.

Í Keldudal fundust fyrir tilviljun kumlateigur og leifar kristins grafreits. Hundabein voru í tveimur kumlanna. Í öðru kumlinu voru bein úr íslenskum hundi, en í hinu bein úr svokölluðum höfðingjahundi eða „Greyhound“. Stórir hundar eru þekktir úr fornsögum, eins og áður nefndur Sámur Gunnars á Hlíðarenda. Slíkir hundar voru ekki í almannaeigu, og þessi fundur, líkt og smáhundabeinin í Kolkuósi, bendir til þess að hundar hafi verið fluttir inn sem stöðutákn höfðingja héraðsins. (Úr bókinni Margt býr í moldinni).

Mynd: hægri herðablað úr hundi, fundið í Vatnsdal. Úr: (Rúnar Leifsson. Ritual Animal Killing and Burial Customs. 2018).


SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

SAMFÉLAGSMIÐLAR->

HAFA SAMBAND->

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

Soknaraetlun