20.11.2024Evelyn Ýr
Það er orðið vetrarlegt úti og nú gefst tími til að vinna markvisst að lokasprettinum fyrir sýninguna. Húsið er nú orðið einangrað að innan, en samt er ýmislegt eftir að gera.
Ég held áfram að lesa og grúska, en nýlega fór ég í ferð til útlanda og nýtti tækifærið til að heimsækja nokkur söfn. Það er alltaf gaman og fróðlegt að skoða uppsetningu safna og úrvinnslu efnis sem er til sýnis – sem er yfirleitt aðeins brot af því sem er "á bak við" safnið.
Ég sendi inn styrkumsókn í haust og vona að ég fái jákvætt svar. Ég hef áður sagt að án styrkjanna sem ég hef fengið hefði ekki verið hægt að koma þessu öllu í framkvæmd. Sama hvernig fer, þá hefur rannsóknarvinnan undanfarin tvö ár verið afar áhugaverð og fróðleg. Það gladdi mig mjög að sjá pistil á Facebook um daginn eftir þjóðþekktan rithöfund og sögumann, þar sem efsta heimild var bloggpóstur frá mér á þessari síðu um uppruna íslenska fjárhundsins. Það sýnir mér að ég er að gera eitthvað eftirtektarvert hér.
Ég stefni á að vera með opinn dag núna í aðventu til að kynna verkefnið og fyrstu sýnilegu safngripi fyrir nærumhverfið mitt.
Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]