Er íslenski fjárhundur vinnuhundur?

Hero Image

17.09.2023Evelyn Ýr

Ég var að velta fyrir mér hvað fólk notar íslenska fjárhunda mikið sem vinnuhunda. Ég setti spurninguna fram á facebooksíðu Deild Íslenska fjárhundsins um daginn og fékk rosalega mikil viðbrögð á stuttum tíma.

Það virðist að hundurinn er talsvert notaður í kringum sauðfé. Þeir taka virkan þátt í smalamennsku á haustin og spara þeir mönnum og hestum mörg hlaup í afréttum landsins. Það er bæði hægt að senda þá langt frá sér og láta þá gelta við hlið sér. 
Íslenski fjárhundurinn er rekstrahundur og heldur túnum sem og skógarreitum hreinum af sauðféi í ákveðnum radíus og er þar með ómetanlegur fyrir marga.

Hundurinn fær líka notkun í kringum hross. Sumir hundar sækja hesta úr haganum og reka þá til eiganda sinna.

Sagt var frá hundum sem veiða mýs á borð við ketti og er það vel þegið á sveitabæjum. 

Umræða átti sér stað um vinnueðli íslenska fjárhundsins sem er mjög frábrugðið smalaeðli í Bordercollie (BC) hundum. Á meðan BC hundar eru að safna féi með því að hlaupa í kring og þegja að jafnaði á meðan, er íslenski fjárhundurinn að nota geltið við vinnuna. Þetta eðli hefur hentað (og hentar ennþá) við íslenskar aðstæður og landslag. Eflaust vilja flestir sem eiga íslenskan fjárhund í borginni að hann gelti sem minnst og er hér að finna ákveðna togstreitu á milli eðli hundsins sem átti rétt á sér í þúsund ár og væntingar til hundsins í nútímasamfélagi. En enginn vill eiga gjammara - það eru allir sammála um og eru ræktendur íslenska fjárhundsins með óumdeilda ábyrgð þegar kemur að því að velja hunda til undaneldis.

Arnþrúður Heimisdóttir sem hefur ræktað íslenska fjárhunda síðan 1998 undir nafninu Fljóta-ræktun kom með mjög fróðlegt innlegg um kenningar sínar varðandi sögu og ræktun íslenskra hunda í gegnum árin. Ég fékk leyfi fyrir því að birta innslag hennar hér:

--

Til hvers höfðu Íslendingar hunda:

1. Til að forða pínulitlum krökkum, að forða þeim frá því að ganga af göflunum og sturlast úr hræðslu og einmannaleik, krakkar sem áttu að vera smalar á nóttu sem degi, dauðhrædd við sögur um að tröll og draugar og annað dræpu þau. Vera vinir þeirra (enda eru þeir kannski bestu hundar í heimi til að efla fólki traust og kjark, vinalegir og kjarkaðir). 

2. Til að reka kindur úr túnum, vera virtual fence, enda byggði fólk bæi sína í miðjum bestu túnunum, svo hengu hundarnir heima við bæ og ráku fé úr túnum allan sólarhringinn. 
Ég heyrði í útvarpsþætti um daginn, Illuga lesa upp úr ferðasögu útlendings frá því 18 hundruð og eitthvað, þar sem hann lýsir því hvernig allir bændur þá eiga ca. 5 hunda sem reka úr túnum og hreinsa út ráfandi fé og hesta (enda voru engar girðingar á þeim tíma). 
Ég las í Landbúnaðarsögunni að það var gríðarleg áhersla upp úr landnámi að girða og girða, með steingörðum, girða af afrétti og tún og alls kyns. Allir karlmenn voru skyldaðir samkvæmt lögum til að vinna við þetta einn mánuð á ári. Svo um árið 1200 var þetta tekið úr lögum, allt of mikil vinna. Mín kenning er að þá fóru menn að rækta þessa heimaríku hunda sem reka úr túnum, enda urðu flestir/allir steingarðarnir fljótlega ónothæfir. 

3. Til að smala í göngum og þessháttar, líka við vetrarbeit þegar fullorðnir menn héldu fé að útibeit á sinu í snjó og alls kyns slæmu árferði, líka hjálpa krökkunum/smölunum að reka hjörðina í burt og heim (annars vegar hjarðir af lömbum, hins vegar hjarðir af fé sem var mjólkað). En ég efast um að þeir hafi nokkurn tímann sótt fé eins og borderar, amk. hef ég ekki orðið vör við að neinn Íslendingur í dag geri það, en kannski getið þið bent á dæmi um annað. 

4. Að hjálpa fólki til að rata heim í fárviðrum, bæði fólki á ferðalögum sem lenti óvænt í fárviðri, og vetrarsmölum sem lentu í sama, með kindur. 

5. Að hjálpa fólki að finna fé sem hafði grafist í snjó í fárviðrum.

--

Ég þakka öllum sem tóku þátt í umræðunni sem var bæði fróðleg og þörf. Við megum aldrei gleyma fyrir hvað hundurinn var notaður í aldanna rás sem mótaði eðli hundsins sem við þekkum í dag. 

Ég persónulega vil sjá fleiri íslenska fjárhunda í sveitum landsins. Sem þjóðarhundur Íslendinga ætti hann að vera bæjarprýði á mörgum ef ekki öllum sveitabæjum. Að vera sveitahundur útilokar ekki að hundurinn geti líka staðið sig vel sem sýningarhundur. Það eru nokkur dæmi um íslenska fjárhunda sem hafa hlotið meistarastig og meistarartitla á sýningum HRFÍ sem standa sig einnig mjög vel í smölun og rekstri búpenings.

Verum stolt af þessum vinalega og duglega þjóðarhundi okkar og vinnum gegn fordómum að um gagnslausa gjammara sé að ræða. Sýnum ábyrgð í ræktun og berum virðingu fyrir eðli hundsins. Þjálfum hann vel og leyfum honum að vinna samkvæmt eðli ef tækifærið gefst!


SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

SAMFÉLAGSMIÐLAR->

HAFA SAMBAND->

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

Soknaraetlun