07.06.2024Evelyn Ýr
Það hefur lengi verið ákveðið að byggja hús undir sýninguna. Í vetur festum við kaup á fallegu timburhúsi í einingum sem kom heim í hlað í byrjun maí og bíður uppsetningar. Ferlið til að sækja um byggingaleyfið hefur verið langt og strangt og að mínu mati allt of flókið og alls ekki gegnsætt. En loksins náðum við leyfinu og öllu tilheyrandi og það eina sem var eftir var að fá byggingafulltrúan heim til að stika fyrir grunninn. Svo skall óveðrið á í byrjun þessarar viku, það snjóaði alveg óhemju mikið og við bændur höfðum um nóg að snúast við að bjarga búfénaðinum. Við vorum heppin að hafa ekki tekið grunninn áður því hann væri örugglega fullur af snjó núna.
Þannig að við verðum að vera þolinmóð áfram, leyfa jarðveginum að þorna og jafna sig og halda áfram. Það lítur út fyrir að opnun sýningarinnar muni dragast aðeins lengur en ég er vongóð um að hún verði opnuð í síðasta lagi í haust.
Á myndinni sést byggingarefnið á fyrsta degi óveðursins.
Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]