Olaus Magnus 1555

Hero Image

15.10.2024Evelyn Ýr

Ég ákvað að skyggnast aðeins lengra aftur í tímann.

Í þeim stuttu ágripum af sögu íslenska fjárhundsins sem hægt er að finna, er Olaus Magnus oft nefndur. Yfirleitt er þetta orðað svona: "Árið 1555 skrifaði Olaus Magnus að íslenskir hundar væru vinsælir hjá prestum og aðalskonum. Hann lýsir hundinum jafnframt sem ljósum eða hvítum og með þykkan feld."

Ég reyndi að finna meira, mögulega frumtextann, því mér finnst betra að skoða heimildina sjálfa til að fá heildarmyndina betur, en það tókst ekki. Kannski ekki furðulegt, þar sem þessi lýsing er úr verki hans Historia de gentibus septentrionalibus (Saga norrænna þjóða), sem var skrifað á latínu. Verkið var gefið út í Róm árið 1555 og er talið eitt merkasta rit um menningu og líf norrænna þjóða á 16. öld.

En hver var Olaus Magnus?

Olaus Magnus (1490–1557) var sænskur biskup, landkönnuður og rithöfundur, þekktastur fyrir verk sitt "Historia de gentibus septentrionalibus". Hann fæddist í Linköping í Svíþjóð og var menntaður bæði í Svíþjóð og í Þýskalandi. Hann ferðaðist víða um Norðurlönd og safnaði upplýsingum um þjóðir og menningu norðursins.

Olaus var mikill talsmaður kaþólsku kirkjunnar og bjó við útlegð í Róm eftir siðaskiptin í Svíþjóð. Hann helgaði líf sitt því að skrifa og varðveita sögu og menningu Norðurlanda. Bæði verk hans og teikningar eru ennþá virt í dag fyrir að lýsa bæði menningu og náttúru Norðurlanda með stórfenglegum hætti.

"Historia de gentibus septentrionalibus" fjallar sérstaklega um Norðurlönd, þar á meðal Ísland, Svíþjóð, Noreg og Finnland, auk þess sem það tekur til ýmissa atriða úr daglegu lífi fólks, svo sem veiðar, sjómennsku, búskap og jafnvel galdrar. Olaus Magnus leggur áherslu á hina erfiðu veðráttu og harða lífsskilyrði, en hann lýsir líka óvenjulegum siðum, trúarbrögðum og skrítnum sögupersónum úr munnmælasögum. Verkið er skreytt mörgum myndum.

Olaus Magnus teiknaði einnig stórmerkilega kort, Carta Marina. Þetta er eitt elsta kortið sem sýnir norðlægar slóðir með nákvæmum hætti. 

Carta Marina er ekki aðeins landfræðilegt kort, heldur einnig mikilvæg heimild um hugmyndir miðalda um heiminn og sér í lagi um Norðurlönd. Á kortinu eru til dæmis myndir af skrímslum í Norðurhöfum, sem á þeim tíma voru talin raunverulegar verur af sjómönnum og ferðamönnum. Þetta kort hefur haft mikla þýðingu fyrir sögulegan skilning á Norðurlöndum og var mikil framför í samanburði við fyrri kortagerð. 

Carta Marina er bæði listaverk og fræðirit, og það gefur innsýn í veröld norrænna þjóða á 16. öld.

Áhugasömum er bent á eftirfarandi vefsíður til að lesa meira um Olaus og skoða myndskreytingar: 

"Historia de gentibus septentrionalibus"

Olaus Magnus - History of the Nordic Peoples (from 1555) - Illustrations with Comments

Carta Marina


SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

SAMFÉLAGSMIÐLAR->

HAFA SAMBAND->

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

Soknaraetlun