Töfra Tumi Arnór

Hero Image

16.02.2024Hrefna G. Torfadóttir

Tumi var yndislegur hundur, rólegur og ljúfur og afskaplega kurteis.

Við misstum hann alltof snemma bara tæplega 7 ára. Það braust upp undirliggjandi sjúkdómur sem slökkti smám saman á öllu. Þetta tók aðeins hálfan mánuð og ekki hvarflaði að okkur fyrir en tvo síðustu dagana að ekki væri hægt að lækna hann. Sorgin við að missa hann var mikil og djúp.

Ég sakna hans enn mjög. Við eigum yndislegan Íslending sem við fengum þremur vikum eftir að Tumi dó en ég segi alltaf, það kemur aldrei neinn í staðinn fyrir annan og þó að annar yndislegur hundur sé kominn þá saknar maður hinna samt sem áður.

Tumi var eins og ég sagði hér á undan rólegur og ljúfur. Hann tók mikilu ástfóstri við barnabörnin, sérstaklega yngra barnið sem var bara tveggja ára þegar við fengum Tuma. Hann passaði það barn mjög vel og var alltaf nálægt honum eins og flestar myndir af þeim báðum sýna.

Tumi var langhlýðnastur af okkar hundum. Það var t.d. óhætt að hafa útidyrnar opnar og hann hreyfði sig ekki ef honum var sagð að vera kyrr. Hinir hundarnir hefðu rokið af stað, frelsinu fegnir. Þegar barnabörnin, sem búa í Svíþjóð, voru hjá okkur, þá útbjó ég horn í stofunni sem leik ,,herbergi“ handa þeim. Þegar þau voru með mikið af leikföngum á gólfinu og ekki var gott að hundur træðist yfir þau, þá lögðum við þunnan gólflista á gólfið fyrir framan leikherbergið og Tuma datt ekki í hug að troðast yfir. Hann lagðist gjarnan niður og beið eftir að honum yrði boðið inn.

Tumi var mikill bangsakall. Hann fór t.d. ekki út að pissa á kvöldin eftir að það var orðið dimmt nema að hafa allavega einn bangsa með sér. Honum þótti mjög vænt um bangsana sína, en samt ekki svo að hann reyndi ekki að ná tróðinu úr þeim. Þegar það gerðist þá sagði ég við hann ,,nú þurfum við að sauma“. Þá hljóp hann þangað sem saumavélin mín er og beið með áhyggjusvip eftir því að ég gerði við bangsann. Mikil var gleðin þegar bangsinn var heill orðinn.

423903747_1089507959046716_8687701835015720910_n.jpg

Tumi var mjög lofthræddur. Þegar hann var hvolpur þurfti að halda bæði undir afturfæturna og rassinn ef hann var tekinn upp. Samt naut hann þess að hvíla höfuðið á öxlinni á mér, svona rétt eins og lítið barn, og ég passaði vel að halda undir bæði afturfætur og rass.

Hann elskaði epli. Eitt sinn þegar ég var að taka mig til að fara í vinnunna, þá var skólataskan mín opin með epli efst sem ég ætlaði að hafa með mér í nesti. Tumi stökk til, tók eplið í kjaftinn og rauk út í garð með það mjög sæll.

Tumi var sá allra mesti sokkaþjófur sem ég hef kynnst. Hann var svo snöggur að hrifsa til sín sokka og hlaupa með þá út í garð. Einu sinni var hann kominn með 5 sokka sem hann hafði lagt frá sér í grasið. Ég lét hann sækja sokkana og hann kom með þá einn og einn í einu. Hann fékk auðvitað hrós fyrir það því ekki eru íslenskir hundar sækir/retriever. Við höfum ekki enn fundið alla sokkana sem hann fór með út í garð en teljum að hann hafi grafið þá niður við trén í beðinu á lóðarmörkunum og það er ekki auðvelt að komast í það beð.

Hann var alltaf mjög kurteis og þegar eitthvert okkar var að smyrja sé brauð með osti þá sat hann og beið án þess að það heyrðist múkk í honum því hann vissi að á endanum fengi hann lítinn ostbita. Tumi átti mjög góðan vin, labrador, sem var 5 mánuðum eldri en hann. Þeir léku sé mikið saman og þegar þeir kvöddust þá kysstust þeir.

Töfra Tumi Arnór f. 25.01.2010- d. 08.11.2016

Ræktendur Monika Karlsdóttir og Rúnar Tryggvason


SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

SAMFÉLAGSMIÐLAR->

HAFA SAMBAND->

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

Soknaraetlun