Stokk-Sels Kolur II

Hero Image

03.03.2024Hrefna G. Torfadóttir

Kolur okkar er yndislegur hundur, blíður og ljúfur, kurteis, ákveðinn og mjög duglegur og sérlega klár. Við fengum Kol 27. nóvember, þremur vikum um eftir að við misstum Tuma skyndilega. Það má með sanni segja að þessi yndislegi hvolpur hafi bjargað jólunum því öll fjölskyldan var enn í sorg eftir að við misstum Tuma svona skyndilega.

Þegar við fengum Kol þá hringdi ég í barnabörnin í Svíþjóð á Skype til að sýna þeim hvolpinn. Þau voru ekki síður en aðrir í fjölskyldunni sorgmædd yfir Tuma. Þegar þau svara á Skype (mamma þeirra vissi afhverju ég var að hringja og sagði þeim að svara) segja þau: ,,O amma, hver á þennan hvolp?“ Ég segi: ,,Við eigum hann“. Svo spyrja þau hvað hann heiti og ég segi þeim að ég viti það ekki, þau verði að finna nafn á hann. Þau segjast þá muni hringja eftir smástund.

Það voru ekki liðnar nema rúmlega fimm mínútur þegar þau hringdu til baka á Skype og sögðu: ,,Hann á að heita Kolur“. Það fannst mér alveg frábært nafn.

Kolur heitir svo Stokksels-Kolur II. hjá Hundaræktarfélaginu, því þegar ég sagði ræktandanum hvaða nafn væri ákveðið á hann þá sagði hún að hann ætti eldri bróður sem héti Kolur og því yrði hann Kolur II. Það var ekkert mál okkar vegna en hjá okkur er hann bara Kolur.

Kolur sýndi það mjög fljótt hversu ótrúlega duglegur og ákveðinn hann er. Þegar hann var um 11 vikna var hann úti í garði að kanna heiminn eins og venjulega en kemur hlaupandi inn og ég sé að hann er með eitthvað uppí sér. Áður en ég gat náð því gleypir hann það sem mér sýnist vera steinn.

Þetta var um kvöldmat á sunnudegi. Ég hringi strax í dýralækninn okkar, hana Elfu Ágústsdóttur sem er algjör snillingur, og það vildi svo heppilega til að hún ásamt öðrum dýralækni sem Tryggvi heitir, var stödd á Dýraspítalanum. Hún segir mér að koma strax með Kol sem ég gerði. Hún ákveður að taka röntgenmynd af honum til að sjá hvort óhætt væri að gefa honum uppsölulyf. Það reyndist ekki hægt því það voru tveir aðrir steinar í maganum áhonum og báðir voru þeir minni en sá sem ég hafði séð en með þunnar brúnir sem hefðu getað skorið meltinarveginn í sundur hefðu þeir komist þangað. Hann var því skorinn upp og steinarnir fjarlægðir.

Dugnaður og ákveðni komu strax í ljós því hann ætlaði að hlaupa morguninn eftir aðgerðina og allan tímann sem hann var að ná sér eftir aðgerðina sýndi þetta litla kríli ótrúlegt langlundargeð og dugnað.

Við þurftum að hafa hann í samfellu til að hann færi ekki í saumana á maganum á sér (sjá mynd). Ég keypti tvær samfellur til að eiga til skiptanna og þvoði í höndunum um leið og hann var búinn að pissa í gegnum aðra samfelluna og setti á ofn til að þurrka. Hann hafði sérstaka mottu til að pissa á því það var ekki hægt að vera að klæða hann úr samfellu í hvert sinn sem hann þurfti að pissa. Hann gat hinsvegar skitið þó hann væri í samfellunni.

Það kom fljótt í ljós að hann vildi ekki vera blautur og ég sá hann hlaupa að ofninum og sækja sér samfellu. Ég hélt að þetta væri tilviljun en í hvert sinn sem hann var orðinn blautur þá sótti hann sér þurra samfellu.

428473311_24937812995862711_9053319667857625574_n.jpg

Kolur er mjög vanafastur. Ég hafði t.d. sett púða í stóran hornsófa sem við eigum, þrjá púða í hvort hornið. Nokkru seinna hugsaði ég mér að það væri kannski fallegra að hafa tvo í hvoru horni og svo tvo í miðjunni sem ég gerði. Kolur tók sig þá til og tók annan púðann úr miðjunni og setti í annað hornið og svo tók hann hinn púðann og setti í hitt hornið. Þetta gerði hann í hvert sinn sem ég reyndi að breyta þessu, svo ég gafst auðvitað upp og leyfði honum að ráða þessu..

Hann er einstaklega ljúfur og blíður. Ég var t.d. mjög slæm í skrokknum og skakklappaðist fram í eldhús til að elda matinn eitt kvöldið, þá kemur þessi elska með bein og leggur við fætur mér til að gefa mér.

Alltaf þegar ég kom heim úr vinnunni hjúfraði hann sig að mér, eins og ég hefði verið lengi í burtu.

Við hjónin fengum slæmt Covid sl haust og vorum jákvæð í tvær vikur. Við höfðum engan til að fara út með Kol þessar tvær vikur en aldrei rellaði hann eða kvartaði. Mér finnst hann alveg einstakur að gera sér gein fyrir því að við værum svo veik að við gætum ekki farið út með hann og þá vildi hann greinilega ekki vera að rella í okkur.

430154915_252943344450620_7381704319583572838_n.jpg

Kolur er mjög tónelskur. Ég á afmæli í desember og fékk sendan, stuttu eftir við fengum Kol, jóladisk frá Svíþjóð í afmælisgjöf.

Kolur þurfti náttúrlega að sofna nokkrum sinnum yfir daginn þegar hann var lítill hvolpur. Ég setti hann þá í búrið hans og spilaði diskinn og hann sofnaði. Enn þann dag í dag vill hann hlusta á þennan jóladisk því hann leggst fyrir framan græjunar í stofunni og bíður eftir að ég setji diskinn á.

Það er því spilaður jóladiskur á okkar heimili sumar, vetur, vor og haust.

Það er svo gaman að fylgjast með litlum hvolpum rannsaka heiminn. Þeir þurfa að sofa mjög mikið og sofna á ótrúlegustu stöðum. Hér fylgja með tvær myndir af Kol þegar hann steinsofnaði í ,,könnunarleiðangri“, annars vegar sofnaði hann með höfuðið ofan á hjólastellinu á skrifborðsstól.

429806531_306229775805577_957619657028252990_n.jpg

Og hins vegar er þessi mynd sem er eiginlega ennþá krúttlegra, hann sofnaði við að reyna að príla upp á körfu með teppum.

429768697_387621333871536_6964003328992547801_n.jpg

Mér finnst hann hafa ótrúlegan orðskilning. Hann virðist skilja allt sem maður segir og það er enginn vandi að kenna honum skilja ný orð.

Í febrúar 2020 þegar framhaldsskólum var lokað vegna Covid, kenndi ég í gegnum Zoom og svo Teams.

Ég vildi náttúrlega ekki að Kolur væri að gelta á eitthvað þegar ég var að kenna svo ég hafði hann hjá mér í herberginu þar sem tölvan mín var. Ég kenndi honum að við værum að fara að vinna þegar við fórum þarna inn og ég lokaði dyrunum.

Á morgnana eftir morgunverð sagði ég alltaf við hann: ,,Jæja, nú förum við að vinna“. Þá hljóp hann að dyrunum að herberginu þar sem tölvan mín var. Við vorum sem sagt að fara að vinna. Hann lá upp í rúmi sem þar er með bein að naga og vatn í dalli á gólfinu. Það var alveg sama hversu lengi ég var að kenna það heyrðist ekki í honum. Nemendur mínir kölluðu hann aðstoðarkennarann og hálf öfunduðu hann á því að mega liggja uppi í rúmi. Þegar stúdentsefnin komu að kveðja um vorið færðu þau ,,aðstoðarkennaranum“ líka gjöf sem hann kunni vel að meta.

Á þessum Covid tíma var ég eitt sinn með nemanda í viðtali. Nemandinn var vestur á fjörðum og við töluðum saman í gengum Teams. Hennar hundur, ástralskur fjárhundur, lá uppi í gluggakistu rétt hjá henni. Þá fer hennar hundur allt í einu að gelta á fullu. Pósturinn er að koma, sagði hún. Þegar Kolur heyrði geltið í hennar hundi fór hann auðvitað að gelta líka. Þannig geltu þeir hvor á annan, landshluta á milli. Annar á vestfjörðum hinn á Akureyri.

Kolur er líka afskaplega kurteis. Þegar við erum t.d. að smyrja brauð með osti situr hann og bíður, án þess að það heyrist í honum, því hann veit að á endanum fær hann ostbita þó hann þurfi að bíða lengi.

Hann kann líka að segja mama, alveg eins og Bjartur. Það er svo fyndið að ef hann er að biðja um að fara út í garð og finnst ég vera heldur sein til, þá röflar hann aðeins á lágu nótunum og svo kemur mama. Semsagt, mamma, ætlarðu ekki að hleypa mér út.

Hann er líka ákveðinn og ævintýragjarn. Sumarið 2022 komu dóttir okkar og fjölskylda frá Svíþjóð í ágúst því það átti að ferma annað barnabarnið.

Það var skiljanlega mikið að gera. Kvöldið fyrir ferminguna voru allir á fleygiferð út og inn og einhver hafði ekki lokað útihurðinni nægilega vel á eftir sér.

Þegar ljóst var að Kolur var horfinn hljóp öll fjölskyldan um hverfið til að leita að honum. Eftir dágóða stund kemur tengdasonur okkar heim að húsinu til að fara í hina áttina til að leita að honum. Stendur þá ekki Kolur við útidyrnar og kemur svo til hans með svip sem sagði: ,,Á ekkert að hleypa mér inn“?

Feginleikinn var mikill hjá öllum þegar hann var kominn heim.

Ég óska þess að okkur hjónum, og reyndar allri fjölskyldunni, veitist sú gæfa að hafa hann hjá okkur mörg, mörg ár til viðbótar.

Stokk-Sels Kolur II.

Fæddur 18. september 2016. Ræktandi: Ragnhildur Sigurðardóttir


SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

SAMFÉLAGSMIÐLAR->

HAFA SAMBAND->

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

Soknaraetlun