30.01.2024Hrefna G. Torfadóttir
Við höfum verið með íslenska fjárhunda í 40 ár, þann fyrsta fengum við í nóvember 1983. Ég kann ótal sögur af öllum okkar hundum enda er þjóðarhundurinn algert gersemi. Mig langar að segja hér frá einum okkar hundi sem var einstaklega gáfaður. Þeir hafa reyndar allir verið mjög gáfaðir.
Þetta var að vori til í maí/júní og ég sat við skrifborðið mitt og var að fara yfir próf en það var einmitt prófatíð í MA. Ég verð vör við það að Bjartur, en svo hét hann, er alltaf öðru hvoru að fara út í garð (hann gat opnað dyrnar sjálfur) dvelja þar nokkra stund og svo kom hann og lét mig vita að hann væri kominn inn. Svona gekk þetta nokkra stund. Ég ákvað því að fylgjast með honum og stóð við gluggann til að sjá út. Þá sá ég að hann settist undir tré þar sem var hreiður og þegar hann var sestur þar flaug fuglinn af hreiðrinu í ætisleit. Bjartur sat þarna alveg kyrr þar til fuglinn kom til baka og þá kom hann inn. Svona gekk þetta. Það virtist sem annar fuglinn í parinu væri dauður og Bjartur því fenginn til aðstoðar.
Krakkarnir okkar voru ekki farin að heiman þegar við fengum Bjart og gjarnan var kallað ,,mamma" fram og til baka og það endaði með því að hann fór að segja ,,mamma" eða reyndar mama. Þegar krakkarnir voru farin að heiman hætti hann því þar til haustið áður en hann dó þá kom hann gjarnan inn úr garðinum lagði vangann við lærið á mér og sagði mama.
Já, hann Bjartur var fallegur (Stjörnu-Bjartur var ræktunarnafnið, hann var ættaður frá Garði í Kelduhverfi).
Ein saga af Bjarti í lokin . Þegar barnabörnin fæddust var greinilegt að hann hafði tekið að sér að vernda og hugsa um þau. Eitt sumar ákvað dóttir mín að tjalda úti í garði hjá okkur til að leyfa 5 ára dóttur sinni að sofa í tjaldi. Bjartur var yfir sig hneykslaður á þessu athæfi og lét vanþóknun sína í ljós, með hljóðum en ekki gelti. Þegar hann var búinn að ganga nokkra hringi í kringum tjaldið þá lagðist hann fyrir framan það, ekki vildi hann koma inn í það, og lá þar alla nóttina. Það var ekki viðlit að fá hann til að koma inn frá þessari varðstöðu. Nóttin var björt og mild og hann kom fyrst inn þegar þær voru vaknaðar um morguninn og komnar inn.
Bjartur 02.12.1993 - 22.12 2009
Ræktandi Jón Sigurðsson
Myndir: Fyrsta myndin, sem er af Bjarti og Perlu, var tekin í bakgarðinum hjá okkur á fyrri hluta árs 1995. Þá snjóaði svo mikið að einn skaflinn náði upp á þak. Bjartur lék sér að því að labba upp eftir skaflinum og upp á þak til að skoða heiminn. 😃
Á hinni myndinni er hann að naga lítið og mjótt bein en það voru einu beinin sem hann vildi.
Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]