30.01.2024Brynhildur Inga Einarsdóttir
Eitt vorið þegar féð var borið og komið út á tún eða fjallið fór ég með Reykjadals Móra til að líta til með fénu. Þar sem við gengum um túnið stoppaði Móri snögglega og þefaði af smá holu í túninu. Ég kallaði til hans að halda áfram en hann neitaði svo ég sneri við til að kanna hvað vakti áhuga hans. Ég sá ekkert nema þessa litlu holu og datt helst í hug að þar væri mús svo ég sagði honum að halda áfram en ennþá neitaði hann.
Þar sem ég þekkti minn hund mjög vel hlustaði ég á hann og reyndi að rýna niður um holuna en sá ekkert né heyrði. Ég veifaði því til mannsins míns og bað hann um að koma með vasaljós og skóflu. Þegar ég var búin að stækka holuna í grasinu og lýsa niður um hana sá ég ennþá ekkert en Móri var mjög áhugasamur svo ég lagðist á jörðina og teygði mig eins og ég gat í holuna og kom þá við eitthvað mjúkt svo ég greip í það og kippti því út um opið.
Þarna var þá eitt af lömbunum (tveggja daga) skítugt og hrætt. Ég flýtti mér að lesa af merkinu og svipast um eftir mömmunni sem var þá á leiðinni upp í fjall með hitt lambið sitt. Ég flýtti mér í humátt á eftir henni. Hún stoppaði loks þegar hún heyrði jarmið í lambinu og kom til mín. Mikið sem lambið var orðið þyrst því það ætlaði bara ekki að hætta að drekka ilvolga mjólkina hjá mömmu sinni.
Ef ekki hefði verið fyrir hann Móra minn þennan dag hefði lambið dáið þarna í holunni. Við ættum alltaf að hlusta á hundana okkar því þeir vita sínu viti og eru með alveg frábært lyktarskyn.
Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]