Perla frá Möðruvöllum

Hero Image

30.01.2024Hrefna G. Torfadóttir

Perla var fyrsti hundurinn sem við eignuðumst. Hún var mikil karakter eins og íslenskir hundar eru gjarnan. Yngri dóttir okkar var þá þriggja og hálfs og urðu þær allra bestu vinkonur. Svo góðar að dóttir mín gaf henni eitt af snuðunumm sínum. Sátu þær oft á gólfinu, hlið við hlið, báðar með snuð.

Yngsta barnið fæddist svo þegar hún var tveggja ára og ákvað hún frá því fyrsta að hann væri hvolpurinn hennar. Ég kom einu sinni að þeim þar sem þau sátu bæði í bælinu hennar, sneru beint á móti hvort öðru, og nöguðu sitthvorn endann á gervibeini með dágóðum hnút á hvorum enda.

Hún sá líka til þess að hann væri alltaf hreinn og fínn því það kom stundum uppúr honum, eins og gerist með smábörn, og var hún miklu fjótari til en ég að þrífa hann í framan og fötin hans líka.

Perla var mjög fín með sig og mikil dama. Ég fór einu sinni að vetri til með hana á hundanámskeið /skóla sem haldið var alfarið úti. Henni þótti þetta mjög gaman og minnti mig alltaf á daginn sem skólinn var. Það hafði verið þó nokkur snjór og svo kom allt í einu hláka eins og gerist og gengur. Við vorum komnar á staðinn og gengu eigendur og hundar nokkra stóra hringi í slabbinu. Svo átti á láta hundana setjast. Perla horfði á mig, svo á slabbið og aftur á mig með hneykslunarsvip, ,,ætlast þú til að ég setjist í þetta hér?“

Eitt sinn sem oftar fór maðurinn minn með Perlu upp fyrir bæinn til að leyfa henni að hlaupa. Það var norðan hríð og allst ekki skemmtilegt veður en íslenski hundurinn þolir það alveg. Stuttu eftir að þau fóru heyri ég að gelt er við útidyrnar hjá okkur. Þar er þá daman komin. Maðurinn minn kom svo nokkru seinna búinn að leita mikið að henni (í þá daga átti fólk ekki gsm síma). Þegar hann hleypti henni úr bílnum þá tók hún blátt strik í burtu og greinilega beint heim, fína daman.

Perla svaf alltaf til fóta hjá tveimur af krökkunum okkar til skiptis alla nóttina. Svo þegar henni varð allt of heitt þá lá hún á ganginum á milli herbergjanna þeirra.

Þegar við fengum Bjart var hún 9 ára og var ekki mjög hrifin í byrjun. Fyrsta daginn mátti hann alls ekki fara inn í herbergi hjá yngsta barninu, næsta dag mátti hann fara inn í herbergið en ekki nálægt rúminu hans eftir það þá var þetta allt í lagi

Hún tók svo Bjart að sér og ákvað greinilega að hann væri hvolpurinn hennar. Hún ól hann algerlega upp, kenndi honum það sem mátti og mátti ekki og skammaði hann ef hann gerði eitthvað af sér.

Með þeim mynduðust svo miklir kærleikar að unun var að sjá.

Ein saga af Perlu í lokin. Ég var ný búin að smyrja brauð með reyktum laxi handa fjölskyldunni og var að setja fatið með brauðinu á borðið þegar Bjartur kemur, teygir sig upp á eldhúsbekkinn (hann var svo langur) og stelur afganginum af laxinum. Perla kemur þá á fullu, skammar hann þvílíkum skömmum þannig að hann sleppir laxastykkinu. Húm rífur þá stykkið og étur það sjálf, hún var nefnilega mjög matgráðug.

Perla f. 23.09.1983 – d. 20.11.1987

Ættuð frá pressetrinu á Möðruvöllum í Hörgárdal. Ræktandi sr. Pétur Þórarinsson og konan hans Ingibjörg S. Siglaugsdóttir.


SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

SAMFÉLAGSMIÐLAR->

HAFA SAMBAND->

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

Soknaraetlun