29.01.2024Evelyn Ýr
Hann var 8 vikna hvolpur þegar við sóttum hann á Goðdölum í byrjun september 1996. Hvorki hann né foreldrar hans voru með ættbók en víst var að amma hans var hreinræktuð íslensk tík. Þó að það verði ekki sannað hér eftir hversu hreinræktaður hann Kátur minn var, þá bar hann margt með sér af einkennum íslenska fjárhundsins. Hann var þrílitur, snögghærður, með hringað skott og eyrun hans voru upprétt. Týri hafði hann á skottsendanum og var hann með brúna bletti yfir augunum sem gerði það að verkum að þó að hann lá sofandi fyrir framan húsið þá leit það úr fjarlægð út eins og hann væri með augun opin. Ég vissi lítið um íslenska fjárhunda á þeim tíma en skoðaði oft bókina hans Gísla Pálssonar og myndirnar í henni og bar útlit hundanna saman við útlit Káts.
Kátur var yndislegur karakter, síglaður og eins og hugur manns. Rólegur að eðlisfari en mjög þolinn smalahundur. Hann rak féið úr túni og hélt hrossunum frá húsinu en á þeim tíma var ekki allt girt af eins og er í dag. Þegar hann var skilinn eftir til að passa bæ og bú þá tók hann þessu hlutverki mjög alvarlega og stökk upp þegar hann sá okkur koma heim og hljóp geltandi um húsið til að sýna okkur hvað hann hefur verið duglegur að halda svæðinu hreinu og skeppnulausu.
Kátur var alltaf með okkur, fylgdi okkur 18 sinnum yfir Kjöl, 200 km vegalengd í hverri ferð og þrjár jökulá sem við þurftum að ríða yfir í hverri ferð; Blanda, Ströngukvísl og Svartákvísl. Einu sinni var Blanda mjög straumhörð og frekar erfitt að komast yfir. Kátur synti alltaf mjög vel en þennan dag lenti hann undir hrossunum á leiðinni yfir. Hann var lengi á bólakafi og þegar hann var loksins kominn upp þá reif áin hann með sér nokkuð langa leið en honum tókst fyrir rest að komast yfir og upp á bakkann. Hann hristi vatnið af sér og hélt af stað. Hafði einhver áhyggjur? Kátur gekk alltaf úr skugga um að allir væru með, hljóp fram og tilbaka og gáði hvort talan af fólkinu stefndi. Þegar við stoppuðum á áningastöðum sem hann þekkti eins vel og hrossin, lá hann niður um leið, hringaði sig saman og svaf. Þegar kallað var “á bak” yfir hópinn stökk hann upp og gelti. Loksins var farið af stað aftur, hann gat varla beðið, var svo spenntur. Þetta voru yndislegar stundir sem við áttum saman á fjöllunum.
1998 fórum við í helgarferð á Vestfirðina og auðvitað fékk Kátur að vera með okkur. Hann svaf með okkur eina nótt í gamla Tercelin við vegakantinn á Þorskafjarðarheiðinni og eina nótt í tjaldi í Breiðavík. Við heimsóttum Dynjanda, listasafn Samúels Jónssonar og Látrabjarg og tókum svo ferjuna yfir Breiðafjörðinn. Ógleymanleg ferð sem Kátur bætti svo sannarlega með sinni góðu viðveru.
Kátur var mjög húsbóndahollur og bóndinn og hann pössuðu vel upp á hvorn annann. Einu sinni fóru þeir félagar snemma á fætur til að gá að hrossunum úti í sumarhaga. Ég vissi um þeirra áætlun en mín var ekki þörf og ég fékk að sofa út. Bóndin lagði á blessóttan klár sem við vorum nýbúin að kaupa fyrir hestaleiguna. Hann var mjúkur og þægur en það sem við vissum ekki ennþá var að það var ómögulegt að ríða honum einum. Bóndinn var kominn upp bratta brekku sem liggur ofan við tún og heimahaga þegar klárinn tók á rás og rauk niður brekkuna. Það veit enginn hvað nákvæmlega skeði en klárnum tókst að losa sig við knapann sem varð eftir í brekkunni - meðvitundarlaus. Ég var komin fram í eldhús með kaffibolla í hendi þegar Kátur stökk inn um opna bakdyr og reyndi að tjá mér eitthvað á sínu máli. Hann var mjög órólegur, fór aftur út og horfði á mig í gegnum eldhúsgluggan. Ég fylgdi honum út og spurði hvað væri um að vera og hann horfði í austanátt. Þá loksins sá ég bóndann staulast hægt niður brekkuna. Ég tók bílinn til að keyra á móti honum eins langt og hægt var til að sækja hann. Hann var feginn að setjast inn í hann, mjög aumur í öllum skrokknum og illa marinn í langan tíma á eftir. Þarna hafði Kátur haft miklar áhyggjur og dró mig út úr húsinu til að koma bóndanum til aðstoðar.
Kátur var góður vinur og félagi og það var mikil sorg þegar hann lenti undir bíl á vordögum 2004 og slasaðist svo illa að ekki var hægt að bjarga honum. En minningarnar lifa með okkur!
Kátur júlí 1996-maí 2004
Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]