Íslands Garða Kara og Snögg

Hero Image

30.01.2024Brynhildur Inga Einarsdóttir

Eftir að síðasti golden retriever hundurinn minn dó var ég hundlaus í tæpt ár. Þá fannst börnunum mínum svo tómlegt að koma heim úr skólanum þó svo að ég væri heimavinnandi húsmóðir. Varð það því úr að ég ákvað að fá aftur hund. Ég skoðaði og kynnti mér nokkrar hunda tegundur en verandi með hundaofnæmi fannst mér líkamslyktin of sterk af þeim hundum sem ég skoðaði.

Ég pantaði því tíma hjá Helgu Finnsdóttur dýralækni og ráðfærði mig við hana og hún benti mér á að skoða íslenska fjárhundinn. Eina sem ég hafi heyrt um hann var að hann gelti mikið en hún sagði það vera kjaftæði því hann gelti ekki meira en aðrar tegundir. Það varð úr að ég fór og skoðaði got hjá Guðrúnu Guðjohnsen, Íslands Garða ræktun. Þegar ég sá hvolpana hjá henni varð ég ástfangin og fékk hjá henni mína fyrstu íslensku tík, Íslands Garða Köru.

Það kom mér á óvart hvað hún var klár í kollinum og var fljót að læra. Ég þjálfaði hana í hlutaleit og lærði hún að þekkja nöfnin á fullt af dóti sem hún átti. Ég fór oft og faldi hluti í fjallinu fyrir ofan þar sem ég bjó og það klikkaði aldrei að hún fyndi ekki það sem ég hafði falið.

Hún lék í einni barnamynd "Töfraskónum" og stóð sig vel og lærði sitt hlutverk.

Þegar hún eignaðist afkvæmi hélt ég eftir einni tík úr því goti, Reykjadals Snögg.

Kara2.png

Snögg og Kara

Ég þjálfaði einnig þá tík í að leyta af hlutum í fjallinu en hún var klók og endaði á því að hún beið bara eftir því að mamma hennar fyndi hlutina og hljóp til hennar og tók þá af henni og færði mér og fékk að sjálfsögðu hrós fyrir þó svo að hún hefði ekki sjálf fundið hlutinn.

Þannig háttaði til í fjallinu fyrir ofan þar sem ég bjó að tvær andartegundir verpu auk mófugla og sílamáfs. Það fór fyrir brjóstið á mér að horfa á sílamáfinn tína upp unga hinna fuglategundanna til þess að fæða sína unga með. Ég ákvað því eitt árið að sjá hvort ég gæti ekki kennt hundunum mínum að finna hreiður sílamáfsins svo ég gæti tekið eitt egg frá honum. Mér fannst óþarfi að hann kæmi upp öllum þessum ungum.

Kara og Snögg voru ekki lengi að þekkja muninn á hreiðrum fuglanna og litu ekki við öðrum hreiðrum en hreiðri sílamáfsins. Kara gerði það sem hún átti að gera s.s að biða við hreiðrið eftir að ég kæmi og tæki eggið. Snögg hinsvegar hafði ekki þolinmæði í að bíða eftir mér og tók sjálf eggið í kjaftinn og hljóp niður fjallið með það í kjaftinum og færði mér. Aldrei kom það fyrir að hún bryti egg á þessum hlaupum. Þessi leikur eða vinna stóð ekki yfir nema í einn mánuð á hverju sumri. Suma dagana var ég að koma heim með allt að 50 egg á dag.

Kara og Snögg.png

Eftir þetta fór ég með tíkurnar á sporanámskeið því það er hægt að "spora" allan ársins hring.

Íslenski fjárhundurinn er mjög fjölhæfur og er ákaflega skemmtilegt að kenna honum og vinna með honum hvort sem það er að smala kindum, hestum eða kúm eða í vinnu með nefið í að leyta að hlutum, spora eða kenna honum að leyta í rústum húsa eða í snjóflóðum.

Öll þessi vinna á að vera sem leikur fyrir hundinn, að hann hafi gaman af að vinna með okkur og þurfum við að vera dugleg að hrósa honum fyrir vel unnin störf.

Ég hef átt 13 íslenska fjárhunda og ég hætti aldrei að dáðst af því hvað þessi hundategund er dugleg og hvað hundanir hafa gaman af því að vinna með manni. Þeir eru geðgóðir og ánægðir að fá að taka þátt í okkar daglega lífi hvort sem það er í vinnu eða bara að slaka á fyrir framan sjónvarpið á kvöldin.

Íslands Garða Kara fæddist 05.03.1991 og dó 2004

Reykjadals Snögg fæddist 13.06.1994 og dó 2007


SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

SAMFÉLAGSMIÐLAR->

HAFA SAMBAND->

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

Soknaraetlun