Glói Grænlandsfari

Hero Image

19.09.2024Evelyn Ýr

Formáli

Hér koma nokkrir kaflar úr bókinni Um þvert Grænland eftir Vigfús Sigurðsson Grænlandsfara, um leiðangurinn sem hann tók þátt í til Grænlands árin 1912–1913. Í leiðangrinum voru meðal annars danski skipstjórinn J.P. Koch og þýski vísindamaðurinn Alfred Wegener.

Úrvalið sem hér birtist eru frásagnir um Glóa, íslenska hundinn, sem ásamt 16 íslenskum hestum tók þátt á leiðangrinum. Þessir kaflar fjalla um ævintýri og örlög Glóa og gefa innsýn í þá þrautsegju í hinum erfiðu og ófyrirsjáanlegu aðstæðum sem leiðangursmennirnir mættu.

Sumum köflum fylgja dagsetningar eins og þær koma fram í bókinni. Ég mæli eindregið með lesningu bókar Vigfúsar. Vigfús Sigurðsson Grænlandsfari, 1948; f. 16. júlí 1875, d. 26. maí 1950.

Það sem er mjög merkilegt við þessa sögu er að það eru til fullt af myndum úr leiðangrinum og af Glóa, og myndirnar færa okkur þessa sorglegu sögu enn nær.

Myndirnar eru fengnar frá ljósmyndasafninu í Arctic Institute og eru þær flestar eftir Alfred Wegener. Auk þess eru myndir úr dagbók Wegeners um síðustu daga leiðangursins.

Alfred Wegener, þýski veðurfræðingurinn og jarðvísindamaðurinn, fæddist 1. nóvember 1880 í Berlín og lést líklega í nóvember 1930 á fjórðu Grænlandsleiðangri sínum. Nákvæm dánardagsetning hans er óviss, þar sem lík hans fannst ekki fyrr en nokkrum mánuðum síðar. Wegener er þekktastur fyrir kenningu sína um landrekið, sem hann kynnti fyrst árið 1912.

Ferðin til Grænlands

"Að kvöldi hins 6. júlí var allt tilbúið. Hestarnir komnir á skip og búið um þá á þilfarinu. Við höfðum fengið nýjan ferðafélaga, lítinn gulan hund, með hvíta bringu, sem gekk undir nafninu Glói. Ekki leit út fyrir að hann væri nokkur fyrirmynd hunda að viti, en það skipti minnstu máli, hann átti aðeins að vera til þess að auka á félagsskapinn."

Juli 1012.jpg

Á Grænlandi

"Frá Danmerkurhöfn fórum við fyrst til Stormhöfða, og á þeirri leið varð fyrir okkur fyrsta sauðnautið, er við sáum. Það var tarfur og skutum við hann, tókum með okkur af honum annað lærið, aðallega handa Glóa. Lærið vóg um 40 kílógrömm."

sauðnautur.jpg

"Meðan við unnum að þessum ferjuútbúnaði niðri við ána, höfðum við heyrt í Glóa gelt og læti uppi á melbakkanum fyrir ofan okkur. Við gáfum okkur ekki tíma til þess að aðgæta, hverju það sætti, en nú gekk ég þangað áður en ég fór heim til tjaldsins. Sat hann þar þá hróðugur og hallaði undir flatt yfir tóu-hvolpi, sem hann hafði lagt að velli. Horfði hann með mikill ánægju á er ég tók hann upp og bar hann með mér heim til tjaldsins. Auðvitað varð að taka ljósmynd af öllu saman, þegar að tjaldinu kom."

vigfús 08-12.jpg

"Að afhallanda nóni var allt komið yfir og rákum við þá hestana á sund í ána. Glói kaus heldur að synda en trúa ferjunni fyrir sér, því að þegar Wegener tók hann með sér á ferjuna, steypti hann sér í ána og synti til sama lands. Sat hann gólandi á eystri bakkanum, þar til við höfðum látið upp á hestana og hann sá fararsnið á okkur. Þá kom hann af sjálfsdáðum yfir."

RS120719_20955_scr.jpg

"Svo tjölduðum við og fórum að elda okkur mat, en varla var suðan komin upp í pottinum, þegar við sáum út úr tjaldinu, að sauðnautin voru komin í miðjan hestahópinn. En hestarnir þoldu ekki návist nautanna og fældust sinn í hverja áttina. Ættum við að hafa frið, sáum við að nauðsynlegt var að verða lausir við sauðnautin, koma þeim í burtu. Okkur fannst bæði synd og skömm að drepa þau, ef annars var kostur, þar sem við höfðum svo lítil not af ketinu af þeim. Þó að gott væri að elda sér nýja ketsúpu við og við, tók svo langan tíma að elda hana, að okkur fannst það ekki svara kostnaði, og enn átti Glói mikið eftir af lærinu, sem við tókum af nautinu, er við skutum við Stormvíkina. Merkilegt var, að það var óskemmt enn, ekki svo mikið sem ýldulykt af því, og höfðum við þó verið að þvælast með það í poka ofan í milli klyfja á hestunum í 18–19 daga. Það var sönnun þess, að rotnunargerillinn var ekki til hér norður í óbyggðum Grænlands. Sjálfsagt var, að reyna að reka nautin burtu, en mynd varð þó að taka af þeim áður, og þeirra erinda fórum við til móts við þau, annar með ljósmyndavél, hinn með byssu. Þegar við áttum eftir svo sem 12–15 metra að þeim, sneru þau sér á móti okkur og miðaði þá annar myndavélinni, en hinn byssunni. Sauðnautin skoðuðu okkur mjög grandgæfilega, litu svo hvort til annars , svo á okkur aftur, eins og þau væru ekki viss um, hvað gera skyldi. Þá horfðu þau enn stundarkorn hvort á annað, sneru sér svo á hæl og lögðu á flótta. Við fórum á eftir þeim um einn kílómetra, en þá datt okkur allt í einu í hug, að við gætum látið Glóa reka þau lengra. Hann varð glaður við að fá eitthvað að gera og stökk með miklu gelti og látum á eftir þeim. Sýnilega vildi hann láta sem mest bera á sér. En þegar hann var kominn fast að þeim, sneru þau sér á móti honum, létu heyra frá sér mjög digurbarkalegt baul og var það meira en nóg fyrir Glóa. Hann lét fætur forða sér í áttina til okkar og komu nautin á eftir honum. Við sáum þá, að sjálfir yrðum við að reka nautin, ef duga skyldi."

"Eftir miðdegisverð grófum við í eina kofatóft Eskimóa og fundum þar bæði mannabein og hunda. Var því sýnilegt, að íbúarnir höfðu dáið inni í kofanum, líklega etið fyrst hundana og dáið svo síðast úr hungri. Annars fundum við þar ekkert fémætt."

eskimohuette.jpg

"Dálítill gróður var hér, leguvíðir, rjúpnalauf og gras, enda voru hér hin mestu ókjör af hérum, svo að frá sama stað mátti telja 40–50 héra. En líkt var um vináttu Glóa og héranna eins og vináttu hans og tóanna. Hvorugt gat hann séð án þess að reyna sig við þau. Við hérana var sá leikur strax svo ójafn, að Glói hefði eins vel getað staðið kyrr, eins og að vera að hlaupa sig móðan og þreyttan eftir þeim. Strax og hlaupin byrjuðu, vissi hann ekki, hvaða héra hann hafði verið að elta, því að ótal aðrir voru komnir inn í leikinn fyrr en hann varði. Hann hætti því óvenju fljótt þeim eltingarleik, vonlaus um að ná nokkurum héranna, og labbaði sneyptur á eftir hestunum. Þegar við svo, til þess að stríða honum, kölluðum til hans: „Glói, þú gætir héranna“, reisti hann bara eyrun, en hreyfði sig hvergi og varð svo hálfu sneypulegri á eftir. Aldrei fannst honum hann verða eins illa úti og þarna."

Godthab juli 12.jpg

"Þegar við settumst niður, hafði ég lagt frá mér vettlingana mína og svipuna, en þó ekki lengra að baki mér en sem svaraði þremur eða fjórum metrum. Nú heyrði ég, að eitthvað var dregið eftir melnum að baki mér og leit því við. Sé ég þá, að þar stendur blá tóa, hafði hún tekið svipuna og dregið hana á eftir sér á ólinni. Hún var ekki fjær mér en svo, að ég gat nærri seilzt til svipuskaftsins. Hún stóð þarna hin rólegasta og horfði á mig, rétt eins og við hefðum umgengizt hvort annað um langt skeið; að minnsta kosti fannst henni, að hún hefði fullan rétt til svipunnar. Við horfðumst í augu einar tvær mínútur eða svo, og hvorugt hreyfði sig úr stað. Meðan á þessu stóð, lá Glói við hliðina á Wegener og svaf. Hann hafði ekki getað á heilum sér tekið síðan um nóttina, er honum fannst hann verða svo illa undir í eltingarleiknum við hérana. Ekki veit ég, á hvern hátt hann fékk veður af tóunni, en nokkuð var það, að hann stökk á fætur, og í sömu svipan logaði upp í honum gamla hatrið til tóunnar. Hann ætlaði að henda sér á hana í fyrsta stökki, en tæfa varð honum sniðugri; hún sleppti svipuólinni og hljóp í kring um okkur, og eftir því sem Glói elti hana með meiri ákafa og grimmd, stækkaði hún hringinn og hljóp í fleiri og krappari krókum. Að síðustu barst leikurinn upp í fjallið fyrir ofan okkur og þar elti hann hana kring um stóran klett. Við hættum að veita þeim eftirtekt, náðum í hestana, komum fyrir á þeim dótinu, sem við höfðum meðferðis, og lögðum af stað. Glói náði okkur eftir hálftíma."

"Þessa nótt höfðum við gott næði til að sofa, því að Glói, sem venjulega lá á heyböggunum og hélt vörð, lá nú rólegur fram til kl. 7 um morguninn, en þá stekkur hann upp með gelti miklu. Óvinirnir, sem hann var að verjast, voru þrjú sauðnaut, tvö fullorðin og einn kálfur. Stóðu þau 12–15 metra frá tjalddyrunum og skoðuðu þennan nýkomna gest, sem lét svo illa, en þegar ég birtist í tjalddyrunum, berfættur og á nærklæðunum, var þeim nóg boðið og lögðu á flótta. En þetta kom sér vel, við hefðum sjálfsagt sofið yfir okkur annars, og nú var kominn fótaferðartími."

"Við tókum nokkurar myndir og fórum að því búnu niður af jöklinum, riðum ána á sama stað og héldum svo suðaustur í landið, þar til að fyrir okkur varð dálítil graslægð, þolanlegur hagi fyrir hestana. Þar tjölduðum við og settumst að næturlangt, röbbuðum og glöddum okkur við þá heimskulegu hugsun, að við værum þó fyrstir manna, sem komið hefði íslenzkum hestum upp á hájökla Grænlands. Út frá þessu sofnuðum við og vöknuðum fyrst við hávaða og gelt í Glóa, er hann var að elta héra, sem hér voru svo að tugum skipti."

RS126136_43542_scr.jpg

"Á heimleiðinni daginn eftir varð fyrir okkur eitt einstakt sauðnaut. Vaknaði þá aftur hjá okkur löngunin í nýtt ket, svo að Larsen var sendur til þess að skjóta tarfinn og lagði hann fljótlega að velli. Hugðum við gott til fengsins, en þegar við fórum að flá dýrið, brá okkur heldur í brún, því að það var tannlaust af elli og lyktaði mjög af moskus. Við tókum þó með okkur það mesta af vöðvunum, bæði úr læri og bógum, ennfremur hjartað, hitt skildum við eftir handa tóunni. Kapt. Koch hafði eldamennsku á hendi þann daginn og steikti buff af ketinu, er til tjaldstaðar kom. En þegar steikin kom á diskana reyndist hún svo bragðslæm, að enginn okkar gat borðað hana. Meira að segja Glói, sem var þó ekki vanur kræsingum, forsmáði hana líka. Okkur varð þá uxakjötið ekki til meiri ánægju en þetta."

RS126131_43537_scr.jpg

"Seinna um daginn, er við sátum að kaffi inni í tjaldinu, heyrðum við, að Glói gelti mjög gestalega og mundi það vera meira en almennur gestur, því að síðan við slógum hestana af, höfðum við fengið heimsóknir daglega. Við hrossskrokkana voru venjulega 10–20 tóur í einu. Reyndi þó Glói að verja þá eins og hann gat, en það hrökk ekki til. En í þetta sinn var auðheyrt, að gesturinn var af öðru tagi. Við þorðum því ekki annað en líta eftir, hvað um væri að vera, og jafnskjótt sem hinn fyrsti kom höfðinu út úr tjalddyrunum, heyrðu hinir hann segja: Hvítabjörn er kominn! Það var því fljótt farið að líta eftir byssunum, svo að bangsi greyið fékk varla tíma til að skoða sig um. Um kvöldið var hjartað og fleira af birninum á steikarpönnunni og reyndist hinn ljúffengasti réttur."

"Allt hljóp með óhemju hraða gegn um huga okkar, en ekkert gat náð að festast svo, að við gætum gert okkur grein fyrir því, sem var að gerast. Aðeins vissum við það að við vorum hér staddir mitt í jökulhlaupi. Hvort það hafði nokkur alvarleg áhrif á líf okkar og líðan, það kom okkur ekki einu sinni til hugar. Nú var jökullinn að mestu kominn í ró, aðeins stöku stykki voru enn að detta niður og gera smávegis hávaða. Það var aðeins til þess að kveikja hjá okkur þá hugsun, hvort jökullinn tæki til aftur með sömu ósköpum sem fyrr, en við vonuðum að svo yrði ekki. Við bárum saman ráð okkar. Wegener vildi flytja tjaldið, en hvert? Engin leið var að flytja það yfir sprunguna fyrr en hún væri brúuð aftur, og í nótt var það ekki hægt. „Ég legg það til,“ sagði kapt. Koch, „að við förum inn í tjaldið, hitum okkur kaffi og drekkum það.“ „Þá vil ég fyrst líta eftir hestunum,“ sagði ég. „En hvar er Glói?“ spurði Larsen. Annars lagði hann ekkert til málanna, var bara þögull og rólegur, eins og þessi læti hefðu öll farið fram hjá honum, án þess að raska geðró hans hið minnsta. Við kölluðum á Glóa, en hann kom ekki. Hann var þó vanur að halda sig nærri okkur. Við kölluðum aftur. Nú heyrðum við hann skrækja einhvers staðar niðri í jöklinum, en hvar vissum við ekki og í myrkrinu var ekki hægt að leita hans. Það varð að bíða birtunnar, ef hann yrði þá ekki dauður. Við Larsen gengum til hesthússins, en hinir inn í tjaldið. Hestarnir stóðu allir í hnapp í einu horninu, svo þétt saman sem síld í tunnu, og Daman var svo róleg og hljóð sem henni sæmdi frekar sem konu fyrir sínum dyrum. Þeir voru auðsjáanlega hræddir, en leið annars ekkert illa. Meðfram suðvesturvegg hesthússins að utan hafði opnazt stór sprunga og ísveggur hesthússins fallið niður í hana, en af matarkössunum okkar sjö, sem var hlaðið efst í vegginn, lágu sex í stallinum hjá hestunum, en einn inni á gólfinu hjá þeim. Hér var því ekkert að gera. Við fórum því inn í tjaldið til hinna og höfðu þeir þá kveikt á prímusnum, svo að kaffið kom fljótlega til þess að taka úr okkur hrollinn. Þá fórum við niður í svefnpokana og sváfum þar til birtingar, nema hvað Larsen fór nokkrum sinnum út til að kalla á Glóa. Fannst honum í hvert sinn sem að Glói fjarlægðist meir og meir, og síðast heyrðist ekkert til hans. En þegar bjart var orðið og við komnir út úr tjaldinu, var það Glói, sem lá á sínum vana stað við tjalddyrnar. Við höfðum því heimt Glóa okkar aftur."

RS126185_43591_scr(1).jpg

"Við höfðum vegið upp allt hestfóðrið, sem við áttum. Það var 45 pokar af fóðurbæti, 49 kg. hver, eða samtals 2205 kg. Af heyi (töðu) áttum við eftir 78 bagga, sem vógu samtals 3238 kg. Það var því óhjákvæmilegt að fækka hestunum og setja ekki á nema 5, því að sú fóðuráætlun, sem gerð hafði verið í upphafi, gat ekki staðizt. 2 kg. taða og 2 kg. fóðurbætir var ófullnægjandi. Við höfðum einnig orðið fyrir tjóni, þar sem björninn át fóðurbætinn, eins og áður er getið. Nú bættist það við að eftir að við fluttumst í húsið, og farangur okkar lá niðri við jökulbrún, hafði tóan rifið nokkra fóðurbætispokana og étið úr þeim, og býst ég þó við, að meira hafi farið til spillis en það, sem hún át. Nú var hún daglegur gestur heima við húsið og reyndi að finna hvaðeina það, sem henni fannst ætilegt. Við reyndum að verja henni aðgang að fóðurbætispokunum með því að stafla þeim upp undir annari húshliðinni og heyböggum bæði utan um og ofan á, fergja svo allt með steinolíubrúsum. Þetta kom þó ekki að fullum notum, því að hún gróf sig gegnum snjóinn undir heyböggunum. Nú áttum við líka fjóra skrokka af hestaketi í svo sem 100 metra fjarlægð frá húsinu og þá höfðum við hugsað okkur sem viðbótar fóðurbæti handa hestunum. Í það gengu þær líka, þótt Glói, hundurinn okkar, væri að reyna að verja það á daginn. Var sá leikur ójafn, þær margar og hann einn, og svo kaus hann heldur að halda sig í hlýjunni inni hjá okkur en úti í kuldanum."

RS120812_21046_scr.jpg

"Eins og ég hefi áður getið, áttum við ket af fjórum hestum liggjandi á jöklinum skammt frá húsinu. Höfðum við hugsað okkur það sem uppbótarfóður handa hestunum. En eftir að myrkrið féll á, varð tóan svo ásækin í það, að við sáum fram á, að það mundi verða að engu, ef við gætum ekki bjargað því í hús. Ég skal geta þess, svo að lesandinn geri sér einhverja hugmynd um tóufjöldann, að Larsen fór stundum út með kúluriffil og skaut út í myrkrið, í áttina til ketskrokkanna, og alls mun hann hafa skotið fjórar tóur, þó að ekkert væri hægt að miða, því að í mesta lagi sá maður fjóra eða fimm metra frá sér. Við tókum því fyrir að gera snjóhús fyrir framan dyrnar á íbúðarhúsinu og skiptum því í tvennt með langvegg í miðju. Var annar hluti þess gangur inn í íbúðarhúsið, en hinn geymsla fyrir ketið og fleira, og hengdum við strigastykki fyrir dyrnar í hurðarstað. Innst inni fyrir gafli snjógangsins komum við fyrir kassa í snjóveggnum, bjuggum þar um Glóa með heyi og skinnum og skyldi hann halda þar vörð um nætur. Á daginn var hann inni hjá okkur. Eitt af því, sem við létum inn í snjóhúsið með ketinu, var síðasta tóan, sem orðið hafði fyrir kúlu frá Larsen. Annan morguninn eftir að því verki var lokið, fann einhver okkar, þegar hann fór út (við gengum alltaf með vasaljós á myrka tímanum) tóuskott á ganginum og þegar að var gætt, kom í ljós, að tóur höfðu komizt inn í ketgeymsluna og nagað skottið af, þrátt fyrir strigastykkið í dyrunum og Glóa sem vör. Áður höfðum við að vísu tekið eftir því, að þegar um eina tóu var að ræða, gerði hann sig stóran, væri um margar að ræða, hafði hann sig lítt í frammi. Við höfðum líka einu sinni orðið að bjarga honum úr hættulegri viðureign. Ein tóan hafði náð með kjaftinum utan um trýnið á Glóa og sleppti ekki takinu fyrr en Larsen barði hana í hausinn með byssuskeftinu. Auðvitað varð það hennar bani."

Jólin og nýárið

Það verður nú lítið hátíðlegt yfir þessum hugleiðingum hjá mér og verður lesandinn að fyrirgefa, hvað þær verða fátæklegar. Undirbúningur að tilbreytni til hátíðarbrigða var sá, að við bræddum svo mikinn ís, að við gátum þvegið milliskyrtur okkar, sem voru úr dökkbláu vaðmáli, og höfðum við verið í þeim síðan við fórum í Vatnajökulsferðina frá Akureyri um miðjan júní. Við gerðum þó venjulega lítið að þvotti. Venjan var, að vera þrjá mánuði í nærfötunum, henda þeim svo og fara í önnur ný. Nú var að þessu leyti gerð undantekning, með því að þvo milliskyrturnar. Einnig þvoðum við okkur sjálfum um andlit og hendur, sem við höfðum ekki gert síðan í október um haustið. Hestunum var gefið meira hey en vant var, sama var um fóðurbætinn, og við bræddum handa þeim ís, svo að þeir gæti fengið vatn að drekka, en af þeirri vinnu höfðum við litla ánægju, því að þeir litu ekki við vatninu okkar, kusu heldur ís, eins og vant var. Við hefðum því vel getað sparað okkur þá vinnu. Glói fékk líka sína jólaglaðningu, góðan mat og svo mikinn, að hann gekk frá leifðu.

RS120830_21063_scr.jpg

13., 14. og 15. apríl

Stórhríð, vindhraði um 8 vindstig, frost 25–21 stig. Við höfðum því verið sérlega heppnir að vera komnir heim, það hefði verið leiðinlegt að liggja í tjaldi svo langan tíma. Kapt. Koch hefir teiknað kort yfir ferð okkar til þessa og skrifað ágrip af ferðasögu. Næstu daga, þegar veður leyfir, þarf að fara með það til Hindrunarhöfða og láta það í vörðu, sem við Larsen höfðum hlaðið og þá látið í lýsingu af ferð okkar og áætluðu ferðalagi. Sú áætlun hafði öll breytzt við það, að við komumst ekki til Dronning Louvises lands um haustið. Við vildum því skilja þar eftir sanna og rétta lýsingu af ferð okkar, áður en við legðum á jökulinn. Því að hvað gat komið fyrir á 1200 km. langri leið? Við gátum horfið og það án slóðar. En við gerum alltaf ráð fyrir því bezta, þegar ferðin yfir jökulinn berst í tal. Daginn eftir er dágott veður, en horfur ískyggilegar. Wegener og Larsen fara til Hindrunarhöfða með kortið og ferðalýsinguna, en við kapt. Koch förum til Lindhardseyjar til mælinga. Við gengum allir á skíðum, því að nú var kominn mikill snjór. Við kapt. Koch höfðum svo hraðan á, sem við gátum, því að veðurhorfur voru mjög slæmar. Vorum við komnir heim kl. eitt e. h., en kl. tvö var komin stórhríð. Kapt. Koch var því mjög órólegur vegna þeirra Wegeners og Larsens, stóð úti og horfði í sortann, en rétt á eftir kom Glói fram úr bylnum og þeir strax á eftir. Með kvöldinu hamaðist veðrið enn meira og varð einhver versta hríð, sem við höfum fengið til þessa. 17., 18. og 19. apríl. Enn hríð, en hægur. Að kvöldi hins 19. gefið síðasta heyið og síðasti fóðurbætirinn, og við borðuðum það síðasta, sem til var af mat."

"Þegar við vöknuðum morguninn eftir, var blindþoka og hríð, en nokkuru síðar hvessti af norðvestri og birti þá í þokuna, en ferðaveður var ekki vegna storms og hríðar. Kl. 6 um kvöldið var þó komið svo gott veður, að við töldum fært að sækja Gefjunartinds-forðabúrið. En það stóðst á endum, að þegar við komum að því, skall óveðrið á aftur. Við höfðum því hraðar hendur á að láta á sleðana, og auðvitað urðum við að treysta á, að við gætum haldið slóðinni til baka. Við héldum því svo fast áfram sem mögulegt var, en veðrið herti líka, svo að maður sá varla niður fyrir fætur sér. Loks misstum við af slóðinni, en þá mun varla hafa verið meira en einn kílómetri eftir að tjaldinu, þegar svo var komið. Við festum þá lestina saman og kapt. Koch tók við henni og teymdi minn hest; ég gekk laus á undan, en hinir áttu að gæta þess, að enginn hestanna slitnaði aftan úr. Ég varð því einungis að fara eftir vindstöðunni. Við héldum svo áfram. Kapt. Koch var á hælum mér. Að stundu liðinni fannst mér eftir snjólaginu og áætlaðri vegarlengd, að ég hlyti að vera í námunda við tjaldið, en ekkert sá ég fyrir iðunni. Glói var horfinn mér. Ég kallaði, og kom hann strax, en beint undan veðri. Ég gekk svo fáein skref í áttina, sem hann kom úr, og stóð þá við tjaldið. Þar með var okkur borgið, mönnum og hestum, því að í veðrinu, sem var, hefði enginn okkar lifað eitt dægur, hvað þá lengur. Við komum hestunum í hús og þeir fengu fóður. Að því búnu skriðum við í tjaldið, fengum okkur eitthvað í svanginn og fórum svo í pokana."

RS126295_43708_scr.jpg

24. maí.

"Við liggjum um kyrrt til þess að hvíla hestana. Mæld lengd gefur 34°10 mín. v. l. Við höfum því farið 89 km. fjóra síðustu dagana. Hæð yfir sjó 2550 m. Hestarnir og Glói slæmir í augum af snjóbirtu; ég held, að það sé þó meira af hinum sífellda stormi og renning, sem lemur mann og skefur í framan. Snjóbirtan á kannske þar sinn þátt. Snjótittlingurinn fylgist enn með okkur. Komi það fyrir, að við vöknum og lygnt sé og sólskin, situr hann á tjaldmæninum og syngur. Í dag er renningslítið, en frost 29 stig."

RS120859_21092_scr(1).jpg

29. maí.

"Haldið áfram í 6 klukkustundir, eins og áður, að því breyttu þó, að nú var Kári aftur hafður á undan og fékk nú í fyrsta sinn létt á sínum sleða um nokkur kílógrömm. Á morgun verður hægt að létta á hans sleða um 50 kg. Eftir þetta 6 tíma ferðalag var setzt að, grafið hesthús að vanda og tjaldað. Hæðarmismunur virðist fara stöðugt minnkandi, því að síðustu daga höfum við aðeins hækkað um fáa metra. Snjórinn liggur jafnari yfir og er lausari, í dag í miðjan legg á hestunum og því þyngra færi. Gamli snjórinn er líka lausari og virðist lagskiptur. Þá er verra að ákveða það, því að skelin, sem áður var á milli laganna, er nú alveg horfin. Það er líkast því, að sólin hafi hér engin áhrif á yfirborð jökulsins, svo að skelin geti myndazt. Í dag hefir borið mikið á því, að það væri eins og loft á milli laganna í snjónum, svo að hann fellur niður, er við höldum áfram, og heyrist þá þytur eða dunur í fönninni, sem getur varað 5 sekúndur eða lengur. Við þetta er Glói mjög hræddur og vill því helzt vera uppi á einhverjum sleðanum. Þegar við rekum hann niður, gengur hann á eftir síðasta sleðanum og hallar höfði, svo að annað eyrað veit beint niður. Snjótittlingurinn fylgir okkur eftir og nú höfum við komizt að því, á hverju hann lifir. Við sjáum hann vera að kroppa í hestadritinu kringum tjaldstaðinn. Veður gott, logn, þoka við sjóndeildarhring, frost 26 stig."

Juni 1913.jpg

30. maí.

"Liggjum um kyrrt og hvílum hestana. Lítil vinna. Grafnar nokkurar holur niður í jökulinn, til þess að reyna að ákveða þykkt snjólaganna, en vegna þess að skelina vantar, komumst við ekki að neinni niðurstöðu. Eldum okkur aukalega hafragraut og látum smér í hann. Það eru hin mestu lífsgæði, sem hægt er að veita sér, hér á þessum stað, þegar maður verður annars að lifa við vissan skammt daglega, sem aðeins hefir inni að halda svo margar hitaeiningar, að við getum haldið kröftum og vinnuþreki. Í nótt varð Glói tjaldrækur; hann hagaði sér svo óskynsamlega inni í tjaldinu, að hér á eftir verður hann að hírast úti í kuldanum, veslings greyið. Síðan við höfðum hvíldardag síðast, fyrir 5 dögum, höfum við farið 92 kílómetra og erum á 37. gráðu vestlægrar lengdar. Veðrið hægur vindur af vestri, aðeins renningsskrið með köflum, frost 25,8 stig."

koch mit Glói(1).jpg

13. júní.

"Í morgun fórum við úr tjaldstað kl. 4,30 f. h., héldum áfram með venjulegum hætti í 8 klukkutíma og komumst 20 km. Kári virðist enn vera með sama þreki, en auðvitað reyndum við að draga með honum eftir beztu getu. Veðrið var ekki gott, suðvestanvindur 6 vindstig, renningur og hríðarfjúk, frost 30°. Við sáum tóuslóð nýgengna, hafði tóan komið frá vestri og hlaupið til austurs. Má það merkilegt heita, í 385 kílómetra fjarlægð frá auðu landi. Glói, sem nú um langan tíma hefir ekki þorað annað en vera í slóðinni á eftir okkur, af hræðslu við þytinn, sem alltaf heyrist neðan úr snjónum, er við höldum áfram, vaknaði nú við og hljóp á tóuslóðina, en auðvitað til vesturs, í þá átt, sem tóan hafði komið úr. Hann var brátt úr augsýn og kom ekki til okkar aftur fyrr en eftir fjóra klukkutíma."

Vigfús, Gráni, Glói.jpg

17. júní.

"Liggjum um kyrrt vegna suðvestan storms og hríðar, frost 22,4°, ekki um annað að ræða en að halda sig í pokunum mestan hluta dagsins. Það er eflaust meira um að vera heima á Íslandi, á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar. Veslings Glói liggur í skjóli undir tjaldhliðinni og ber sig illa. Sama dag kl. 6 e. h. Nú höfum við séð aumur á Glóa greyinu og hleypt honum inn í tjaldið. Hann fékk meira að segja 1/8 kg. af ketsúkkulaði, er hann kom inn; nú liggur hann milli Wegeners og Larsens, til fóta þeirra, og nýtur hlýjunnar."

24. júní.

Við liggjum um kyrrt til þess að hvíla Kára, ef það kynni að hjálpa. Í nótt vöknuðum við við það, að Glói var með gelt og hávaða úti, svo að Larsen leit út. Þar voru þá tveir hrafnar gestkomandi, en flugu strax til suðvesturs, í áttina til lands. Veðrið var gott, vindandvari af suðaustri, frost 5,5 stig."

3. júlí.

"Lögðum af stað hálfri stundu eftir miðnætti. Var þá glaða sólskin, en fjögra stiga frost, sleða- og skíðafæri ágætt. Kári var enn sem fyrr ofan á ækinu. Í sjálfu sér var ferðalag okkar í dag mjög ógætilegt. Á leið okkar urðu margar brekkur niður í móti og án þess að vita, hvað við tæki fyrir neðan brekkuna, settust félagar mínir á sleðann hjá Kára, en ég renndi mér á skíðunum. Við munum því hafa farið um 40 km. kl. 12 á hádegi, er fyrir okkur varð sprunga, full af vatni, sem beljaði fram í nokkurum halla. Hve djúp hún var, gátum við ekki séð fyrir vatninu, en á því svæði, sem við fórum með henni, mun hún hafa verið 6–8 metrar á breidd. Það var því enginn vegur fyrir okkur að komast yfir hana. Við tjölduðum og settumst að. Við gerðum okkur vonir um að með kvöldinu mundi frysta og vantið þá lækka í sprungunni, því að á einum stað sáum við stall í vesturbarmi hennar, sem sleðinn okkar, er var fjórir metrar á lengd, mundi ná yfir á, ef vatnið lækkaði svo mikið að stallurinn kæmi upp úr. Veðrið var dásamlega gott, sólskin og hiti, vindurinn suðlægari en verið hafði að undanförnu, stóð ekki eins beint af hájöklinum og áður. Það var því líkast sem við hefðum dottið niður úr vetri hájökulsins í blíðu og sólskin sumarsins. Við notuðum því hitann frá sólinni og breiddum til þerris svefnpoka okkar og það annað, sem þurrka þurfti, sem var nú raunar lítið annað en það, er við gengum í daglega; hinu höfðum við kastað. Handa Kára höfðum við aðeins litla næringu tvisvar–þrisvar sinnum og mat handa okkur álíka oft. Brauð og hveitikex höfðum við ekki bragðað í nokkura daga, Kári hafði setið að því. Og Glói greyið hafði lengi haft lítið, hann sem hafði verið svo feitur, er við lögðum á jökulinn, að hann átti erfitt með gang og var víst hinn eini, sem gat talizt í sæmilegum holdum."

"Að hálftíma liðnum komum við að ánni. Sama sagan og áður endurtók sig, við fórum úr fötunum, óðum ána og komum loks að forðabúrinu. Þá voru liðnar 37 klukkustundir síðan við fórum þaðan. Til matar höfðum við haft 1/8 úr kg. af súkkulaði og hálft þriðja hávelluegg á mann, engan svefn, en eftir lauslegri mælingu á kortinu gengið um 90 km. Nú var komið dágott veður, rofaði til sólar, en okkur fannst kalt. Við rifum upp forðabúrið, náðum í prímusinn, létum á hann steinolíu og gengum frá honum milli þriggja steina. Rifum upp hálfkassa af tekexi, tæmdum hann og ætluðum að nota hann fyrir pott. Þar var líka pakki með haframéli og ætluðum við að elda okkur hafragraut. Kassin lak í einu horninu og grauturinn ætlaði að brenna við, þó að við hrærðum í með prímusfæti. Við hættum því eldamennskunni, létum mjólk í, höfðum kexkökur fyrir skeið og borðuðum með beztu lyst. Mér fannst þetta dásamlegur matur. Svo tókum við ansjósudós, átum úr henni síldina og hituðum svo í henni kaffi svo oft, að hvor okkar fengi nægju sína. Svo tókum við sinn vindilinn hvor, gengum að stórum steini, settumst niður og ætluðum að njóta vindlanna þarna, í skjóli og móti sól. En við duttum út af sofandi áður en þeir voru reyktir. Ég hrökk upp við það, að eitthvað ískalt kom við andlit mér. Það var Glói, en hann átti að vera með félögum okkar inni á jöklinum. Ég vakti kapt. Koch og sagði honum, að þeir mundu vera á leiðinni niður af jöklinum, annars væri Glói ekki hér. Við risum því upp, en vorum nú hálfu stirðari en áður og fæturnir enn aumari. Við gátum því varla borið þá fyrir okkur. Sofið höfðum við í tvo klukkutíma. Við bröltum af stað. Það var ekki gangur, ég veit ekki hverju það hefir verið líkast, og með mörgum hvíldum komumst við svo langt, að við sáum tjaldið. Wegener var úti og sá okkur. Hann stakk höfðinu inn í tjalddyrnar eitt andartak, gekk svo þar að, sem broddstafur stóð í fönninni og kom á móti okkur. Hann rétti mér stafinn, en tók undir höndina á kapt. Koch og studdi hann heim að tjaldinu. Klukkan var 12 á hádegi 6. júlí. Þeir voru að koma á fætur. Við drukkum með þeim kaffi, skriðum svo niður í poka þeirra, sem enn voru volgir, og steinsofnuðum.

Að 8 stundum liðnum vöktu þeir okkur, buðu okkur mat og spurðu, hvort við hefðum ekki sofið nóg. Við þáðum matinn, en vildum sofa lengur. Fjórum stundum síðar vöktu þeir okkur aftur og þá fyrst heyrðum við fréttir af þeim. Þær voru í fám orðum þessar: Kára höfðu þeir skotið strax, flutt svo tjaldið fyrir einn jökulhrygg, svo að við sæjum hann ekki dauðan við tjalddyrnar, er við kæmum aftur. Allan tímann, sem regnið dundi á okkur, hafði verið hjá þeim krapahríð og stundum hríð með frosti. Kl. 9. um morguninn, er við komum, hafði Glói horfið, og töldu þeir þá víst, að við værum í nánd. Við felldum tjaldið, komum dótinu fyrir á sleðanum og lögðum af stað niður jöklinum. Við kapt. Koch vorum stokkbólgnir á fótunum og hæla-aumir. Klukkan 12 á hádegi hinn 7. júlí vorum við komnir með allt okkar hafurtask niður af jöklinum. Nú tjölduðum við fyrsta sinni á auðri jörð, eftir 87 daga veru á jöklinum og eftir að hafa farið um hann 1200 kílómetra vegarlengd. Þennan dag var hríðarslitringur, en þó festi ekki snjó. Er við höfðum tjaldað og eldað okkur mat, fórum við niður að vatninu, klipptum hverir öðrum hár og skegg og þvoðum okkur um andlit og hendur, en það höfðum við ekki gert síðan á aðfangadagskvöld jóla."

"Þarna á nesinu neyttum við hinnar síðustu máltíðar, sem við áttum. Það var ein skonrokskaka á hvern okkar og ein peladós af niðursoðinni mjólk. Hana þynntum við út með köldu vatni, svo að hver fengi sem næst einn pela. Eld var ekki hægt að kveikja, krapaelgurinn lá yfir öllu og gerði allt vott. Að þessari máltíð lokinni, lögðum við enn af stað og ætluðum að reyna að fylgja firðinum. Það reyndist ekki hægt, því að björg gengu í sjó fram. Við reyndum að leggja á brattann og komumst sem næst í 600 metra hæð. Er þangað var komið, var hríð með þéttingsvindi, svo að við sáum lítið. Við fundum þar fyrir okkur klettabelti, sem slútti fram. Þar var nóg af lausagrjóti. Við tókum það ráð, að hlaða þarna vel hnéhátt byrgi og notuðum hamravegginn sem eina hliðina. Byrgið var ekki stærra en svo, að við gátum legið réttir og þétt saman, hver við annars hlið. Lyngi tróðum við í stærstu glufurnar og sleðaseglið notuðum við fyrir þak. Í þessu skýli dvöldumst við 24 klukkustundir. Allan þann tíma geisaði óveðrið. Glói lá ofan á fótunum á Wegener. Ef einhver var þreyttur að liggja á sömu hlið og vildi skipta um, urðu allir að gera það.

Screenshot 2024-09-19 at 21.28.36.pngScreenshot 2024-09-19 at 21.28.56.pngScreenshot 2024-09-19 at 21.26.35.png

Að morgni hins 15. júlí slotaði óveðrinu. Lá þá fets þykk fönn yfir öllu. Þó var enn þoka í lofti og sá lítið frá sér. Við lögðum þó af stað. Allir vorum við máttlitlir og niðurdregnir. Við höfðum aðeins gengið 5–6 mínútur, er kapt. Koch sortnaði fyrir augum og féll niður í fönnina. Hann tapaði þó ekki að fullu meðvitund. Við reistum hann upp, svo að hann sæti, gáfum honum kamfórudropa, sem við höfðum meðferðis, og reyndum að tala við hann. Kamfórudroparnir hresstu hann svo, að hann gat staðið upp. Við gengum aftur til grjótbyrgisins og töluðum um, hvað nú væri til ráða. Kapt.Koch taldi það eitt til ráða að reyna að komast aftur niður á nestána, þar sem við höfðum borðað síðustu máltíðina, hlaða þar vörðu, láta dagbækurnar okkar í vörðuna "og gefa svo guði dýrðina", eins og hann orðaði það. Þetta vildi enginn okkar samþykkja. Okkur vantaði mat, en hvar var hann að fá? Hart var að hugsa sér það að slátra Glóa. Hann hafði, þetta grey, fylgt okkur trúlega frá fyrstu tíð. En hann yrði samt að bjarga okkur frá hungurdauða. Við áttum eftir 8 skot. Við höfðum víða séð rjúpur á leið okkar til þessa, þær mundum við einnig sjá í dag. Þær gætum við skotið og étið hráar, og Pröven hlytum við að sjá á þessum degi. Wegener byrjaði að reyna að kveikja upp eld með lynginu úr byrginu. Larsen fór með klettaveggnum; hann hafði oft áður funduð vallarsúrur með bjargveggjunum. Þessi slútti svo mikið fram, að snjórinn lá á stöku stað ekki alveg upp að honum. Larsen hélt, að hann kynni að finna eitthvað, sem minnti á grænmeti, Kapt.Koch lagðist fyrir í byrginu. En ég varð að sjá fyrir Glóa, þó að hart væri.

Við brytjuðum ketið í smábita og létum það, sem Larsen hafði safnað og við kölluðum grænmeti, með því í pottinn. Lokinu af pottinum höfðum við tapað, svo að hann var opinn. Lyngið vildi illa loga. Enn var eftir í steinolíuflöskunni og var því skvett við og við í eldinn, og að síðustu kom að því, að hægt var að njóta réttarins. Mér fannst hann góður, enda gerir sulturinn allt sætt. Verst þótti mér reykjarbragðið. Allt hafði þetta tekið um þrjár klukkustundir.

Screenshot 2024-09-19 at 21.26.57.png

"Á meðan hafði þokunni létt, svo að við sáum til sólar. Wegener stóð upp við bjargvegginn meðan hann mataðist, en horfði um leið fram á fjörðinn. Við hinir sátum á byrgisveggnum. Allt í einu segir Wegener, og það óvenju hátt: "Hvað er þetta þarna úti á firðinum? Er það ísjaki eða er það bátur með seglum?" Við spruttum upp og horfðum í þá átt, sem Wegener benti, og allir sögðu: "Það er bátur! Honum verðum við að ná!""

RS120872_21105_scr.jpg

"Eftir þriggja tíma róður komum við til Pröven. Það var hinn 15.júlí, kl.6 að kvöldi. Okkur var þar vel tekið af nýlendastjóranum, Lembcke-Otto. Auðvitað þurfti að fara fram dálítil kómedía, áður en okkur var hleypt upp á bryggjuna, því að Grænland var lokað land og er það víst enn. Sljöl okkar voru ööll í lagi. Öðruvísi stóð á með Glóa greyið, en nú var hann dauður, svo að það þurfti ekki að framkvæma neina athöfn í sambandi við hann á bryggjunni."

RS120874_21107_scr.jpg


SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

SAMFÉLAGSMIÐLAR->

HAFA SAMBAND->

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

Soknaraetlun