Gerplu Máni Herakles

Hero Image

30.01.2024Anna Sofía Kristjánsdóttir

Um miðjan nóvember 2020 fengum við okkur lítinn íslenskan hvolp. Karakterinn kom fljótt í ljós, hann var forvitinn, kátur og ljúfur orkubolti. Hann var líka uppátækjasamur og ansi þrjóskur. Seinna á lífsleiðinni átti þrjóskan eftir að bjarga lífi hvolpsins.

Máni kom á heimili þar sem fyrir voru tvær kisur. Mamma Þoka og sonurinn Moli. Moli var þá orðinn 1 ½ árs. Þeir urðu strax góðir vinir. Máni og Moli voru í eltingaleik og veltust um á gólfinu.

máni1.jpg

Máni og Moli

Máni og hundabúrið

Okkur var sagt að hundar hefðu gott af því að venjast búrum strax. Þeir væru mun rólegri og myndu sofa í búrinu þegar eigandinn væri í burtu. Við fjölskyldan ákváðum að prófa þetta heillaráð strax þegar hann var hvolpur og keyptum búr. Það var ríflega stórt stálgrindarbúr með plastbotni og púða. Búrið var sett á gólfið í hjónaherberginu. Á hverri nóttu fór Máni inn í búrið sitt og svaf. Þetta gekk vonum framar. Á daginn var búrið alltaf opið fram á gangi. Eitt sinn þegar ég ætlaði að skreppa í búðina, ákvað ég að nú skildi prófa að hafa hvolpinn í búrinu svo hann gæti verið öruggur og líklega leggja sig í róleg heitum. Það var stutt í þar til dóttirin á heimilinu kæmi úr skólanum. Síminn hringdi skömmu síðar. Það var dóttir mín sem sagði að Máni væri hoppandi glaður þegar hún kom heim en hann væri ekki í búrinu sínu. Nú, spurði ég, var búrið opið? Nei, svaraði hún mér, ein hliðin á búrinu er sprengd út og plastbotninn er í mörgum bitum út um allt gólf. Það hafði mikið gengið á. Mána tókst að sprengja búrið. Eftir það ákváðum við að láta vera að hafa hvolpinn í búri ef við skruppum frá. Hann hefði félagskap af kisunum og honum var sko ekki ætlað að vera innilokuðum í búri að hans mati.

máni2.gif

Var ég nokkuð að gera af mér mamma?

Máni og kattarlúgan

Máni elti oft Mola um húsið en hann gat farið inn og út að vild gegnum kattarlúguna. Oft sat Máni við kattarlúguna smá sár þegar Moli fór út.

Það kom að því að venja átti hvolpinn að vera einan heima í smá stund. Fjölskyldan skrapp út í klukkutíma en þegar heim var komið tók nágranninn á móti okkur með þau skilaboð að hann hafði fundið Mána einan á götunni og sleppt honum inn í garð. Okkur brá, enda allar hurðir og gluggar lokaðar. Kannski leigjandinn okkar hafi sleppt honum út með sér?

Næsta sinn vorum við um tvo tíma fjarverandi og höfðum vandlega gengið úr skugga um að húsið væri lokað. Þegar heim var komið stóð nágranninn við húsið með Mána glaðan og lukkulegan, flaðrandi upp um okkur. Tja, þetta var orðinn ráðgáta. Mig fór að gruna að hann hefði kannski troðið sér í gegnum kattarlúguna. Þegar vel var að gáð var lúgan skökk eins og einhver aðeins of stór hefði komist í gegnum hana.

Máni stækkaði ört og með tímanum vorum við hætt að hafa áhyggjur af þessu uppátæki. Sonurinn var einn heima með hundinn og ákvað að skreppa út í búð. Á leiðinni heim mætti hann Mána hoppandi á þremur fótum með kattarlúguna fasta um hálsinn og aðra framloppuna. Hann dillaði rófunni, alsæll þegar hann sá vin sinn. Nú voru góð ráð dýr. Kattarlúgan sat pikkföst og aðeins hægt að skera hana af. Það var komið með trjáklippur sem náðu utan um þykkt plastið og sem betur fer fór allt vel. Máni var orðinn 1 árs þegar hann prófaði þessa útgönguleið aftur en það var í síðasta skiptið.

máni3.jpg

Máni með lúguna um hálsinn. Kannski er hann að hugsa að þetta er óréttlátt að hann geti ekki lengur notað þessa útgönguleið. Vor 2021.

Máni hjálpar Þoku

Það gerðist eina nótt að það heyrðist væl í kisu og gat ég ekki sofnað. Máni stóð við rúmmið mitt og vildi fá mig á fætur, hann fann á sér að eitthvað var að. Ég fór fram til að kanna málið og ganga á hljóðið sem virtist koma alls staðar frá. Finndu Þoku sagði ég í sífellu við Mána en Máni stóð í ganginum og fór ekki þaðan þó ég reyndi allt til að fá hann til að leita með mér. Það var enginn á ganginum, allar hurðir og skápar opnir. Ég var ekki að skilja hvaðan mjálmið kom. Máni gaf frá sér smá úff-hljóð, hann horfði upp. Ég leit upp og sá loftlúguna. Við vorum að láta verktaka laga þakið og nú var dúkur yfir öllu þakinu. Ég fór í stiga og opnaði loftlúguna og viti menn þar kom Þoka í ljós. Þoka hafði laumað sér inn undir þakborðin án þess að nokkur tæki eftir því og var nú í vanda. Máni kom Þoku til bjargar.

máni4.jpg

Þoka, mamma Mola.

Máni lendir í slysi

Það var 26.12.20. þegar snjór var yfir öllu og Máni fór út í garð að leika sér. Hann sér pabba. Pabbi var að þvo pottinn með vel heitu vatni og sér ekki þegar 5 mánaða hvolpurinn hendist til hans og lendir á bólakafi í sjóðheitan pottinn. Ég heyrði hræðileg hljóð og hljóp út til að sjá hvolpinn hríðskjálfa og emja úr sársauka. Þetta var átakanlegt og skar í hjartað. Við reyndum eftir bestu getu að kæla hann með snjó en vissum að við yrðum að koma honum á bráðavakt dýraspítalans eins fljótt og hægt var. Við gátum varla snert hann en loks tókst að taka mjúka sæng og keyra af stað.

Máni fékk morfín og sprey til að kæla niður brunasárin. Allur maginn og fótakrikarnir voru illa brenndir. Næstu vikurnar voru kvöl fyrir hvolpinn. Hann gat ekki legið eða setið fyrstu 6 vikurnar. Máni studdi sig við veggi þegar hann var alveg úrvinda úr þreytu. Ég fékk hann til að styðja sig við mig og sá að hann náði að blunda inn á milli en annras stóð hann upp við vegg, litla greyið, sárþjáður. Á hverjum morgni mætti ég með hann upp á dýraspítala í Garðabæ þar sem hann var svæfður svo hægt væri að hreinsa sárin og leyfa honum að hvílast. Ég náði í hann um tvö og reyndi mitt besta til að láta honum líða sem best. Hann var kominn með tvo morfínplástra og skerm, aumingja litla skinnið. Á nóttunni svaf ég hálf sitjandi með púða undir höndum og Mána skorðaðan á bakinu ofan á mér. Þannig gátum við bæði sofið í nokkra klukkutíma. Aðal atriðið var að Máni fengi nægan svefn, annað væri hættulegt fyrir lítinn hvolp.

Á dýraspítalanum elskuðu allir þennan þrautseiga hvolp. Hann var þrjóskur, ójá, hann ætlaði sér að komast í gegnum þessa raun. Máni gelti ekki eða glefsaði þegar þurfti að gera að sárum hans. Hann lét sig hafa það. Vikurnar liðu og allt gekk ótrúlega vel. Sárin greru vel og á 7. viku settist hann á stofugólfið. Ég grét af gleði. Eftir 7 vikur gat hann loksins sofið liggjandi. Máni náði sér að fullu eftir þessa eldraun. Hann sýndi mikla þrautseigju og var ekki hræddur við vatn eða heita pottinn.

Hann elskar að vaða og synda.

máni5.jpg

Máni í Hvaleyrarvatni 2022

Máni gleypir smokk

Máni var eina helgi í pössun hjá stóru systur. Fyrsti göngutúrinn var eftirminnilegur þar sem Mána tókst að gleypa aðskotahlut sem hann fann á götunni. Það var farið í hasti upp á dýraspítala. Dýralæknirinn heilsaði Mána enda búinn að meðhöndla brunasárin hans fáeinum mánuðum áður. Hverju er hann að lenda í núna spurði dýralæknirinn góðlátlega. Mána var gefið meðal svo hann myndi kasta upp. Máni ældi smokk sem hæglega hefði getað kæft hann. Hann virtist ánægður með að losna við aðskotahlutinn og dillaði rófunni á leiðinni út hæstánægður með sjálfan sig og líklega feginn að losna við smokkinn.

416425367_2279355498930816_5338724081970696806_n.jpg

Í leit að Bellu

Vinur okkar á Bellu, sem er góð vinkona Mána. Þau hittast stundum út á hundasvæðinu við Bala og í göngutúrum. Eitt haustkvöld hringir síminn og vinur okkar segir að Bella er tínd. Hún var í pössun hjá vinum sem fóru með hana í göngutúr í Gálgahrauni. Það var farið að dimma en ég dreif mig með Mána út að leita. Kannski Máni gæti lokkað Bellu til sín. Máni var með blikkljós svo ég gat alltaf séð hann enda líka hvítur aðallitur. Ég hitti vin okkar sem var búinn að vera þarna að þvælast um í nær 4 klukkustundir og var kominn að gráti. Bella var ekki vön að vera í Gálgahrauni og þekkti því ekki svæðið. Máni var aftur á móti vanur svæðinu. Finndu Bellu, hvar er Bella, kallaði ég til hans. Ég sá að hann þefaði og hljóp um. Hann hvarf á bak við hraundranga og ég heyrði gelt. Máni er ekki vanur að gelta og því vissi ég strax að eitthvað væri að. Við hlupum í átt að geltinu og sáum hann ofan í gjótu. Hann var ekki einn. Þarna í klettasprungu var Bella. Auminginn litli hafði líklega ekki varað sig í hrauninu og lent með framfæturna ofan í þrönga gjótuna. Við náðum henni upp. Höfuðið var á kafi í mold og hún var nær köfnun. Ekki skrítið að litla skinnið hafði ekki gefið frá sér hljóð. Sem betur fer fór allt vel og Bella náði sér fljótt. Hún vill samt ekki fara í labbitúr í Gálgahrauni, það er eins og að hún sé hrædd við gjóturnar. Takk Máni fyrir að finna Bellu.

máni6.jpg

Góðir vinir. Mynd frá nóv. 2020

Máni kyssir gæs

Máni var með mér í lausagöngu í hrauninu fyrir neðan Vífilstaði þegar við rákumst á einmana gæs. Hún lá sérkennilega svo ég gekk að henni og lyfti henni upp. Máni fylgdi fast á eftir og fylgdist með. Ég sá ekki á henni svo hún virtist bara vera eitthvað vönkuð. Þegar ég lagði hana niður í graslaut, labbaði Máni hægt og varlega alveg upp að henni og lyfti goggnum með trýninu svo hún kinkaði kolli. Síðan rak hann út tunguna framan í gæsina sem lá grafkyrr. Þetta var svo sérkennilegt.

416370171_352503410911361_2137438705516225081_n.jpg

Gerplu Máni Herakles * 26.07.2020


SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

SAMFÉLAGSMIÐLAR->

HAFA SAMBAND->

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

Soknaraetlun