Auli frá Sleðbrjót

Hero Image

09.03.2024Evelyn Ýr

Vilhjálmur Einarsson:

Minningabrot um Mark Watson.

Það var í júlímánuði 1956 að Haukur Snorrason, ritstjóri Tímans hafði samband við mig í athyglisverðum tilgangi: Gæti ég séð um könnunar- eða leitarferð fyrir enskan Ameríkana, Mark Watson, sem væri í hundaleit? Afskekktustu svæði landsins voru áhugverðust þar sem leitin beindist að hundum með sem hreinustu einkennum íslenska hundsins. Nú hugði Watson á Austurlandsferð og ég væri upplagður “guide”, gjörkunnugur svæðinu og nýútskrifaður úr bandarískum háskóla.

Það hittist þannig á að foreldrar mínir, búsettir á Egilsstöðum, voru einmitt í sinni fyrstu utanlandsferð, en faðir minn var byggingafulltrúi á Austurlandi og Land-Roverinn hans því í minni umsjá á meðan. Þótt verkefni af þessu tagi rímaði illa við undirbúning undir Ólympíuleika þá um haustið sló ég til.

Watson var hávaxinn myndarmaður og hafði um sig svip ensks aðalsmanns, enda af lávarðakyni. Hann gisti á gistihúsinu á Egilsstöðum en ég heima í “Laufási” en saman snæddum við á hótelinu. Þar var honum skipað til hægri handar húsbóndans enda raðað við borðið eftir mannvirðingum, bílstjórinn við fjærsta horn. Það var vætutíð með sólarglennu á milli þennan vikutíma, sem þessi leiðangur stóð. Fyrst var farið um nágrenni Egilsstaða, ekið heim að bæjum og bændur teknir tali. Árangur takmarkaður.

Á þriðja degi átti að leita í Jökulsárhlíðinni. Þegar ekið hafði verið örstutt “norður” og komið var rétt framhjá þar sem Fellabær er nú, rekur Watson upp óp og skipar mér að stoppa strax. Hann hafði þá komið auga á hund sem birtist út úr þokunni. Watson stökk út og var kominn með hundinn í fangið, himinlifandi á svip og ekki um annað að ræða en taka rennblauta skepnuna upp í bílinn. Nú var ekið heim að næsta bæ, Ekkjufellsseli, því líklegast þótti okkur að hundurinn væri þaðan. Nei, ónei, þar kannaðist fólk ekkert við skepnuna. Á sama hátt fór á hverjum bænum að öðrum uns við gáfumst upp við að finna réttan eiganda. Það fjölgaði því gestum á hótelinu hjá Sveini Jónssyni hótelhaldara og stórbónda, og kærleikar jukust með Watson og hinum dularfulla hundi. Hann fór að biðja mig um að setja auglýsingu í útvarpið. Ég baðst undan lengi vel og fannst hálf-hlægilegt að auglýsa sem svo: “Hundur hefur fundist...”, það yrði bara hlegið að þessu og talið gabb!

Dagarnir liðu einn af öðrum, ekið suður á bóginn með þá félaga, Watson og hundinn í faðmlögum í framsæti “Robbans”. Í Breiðdal og á Berufjarðarströndinni gerði Watson kaup. Það var eftirminnilegt að vera túlkur við þessi viðskipti. Bændur sýndu heilmikið viðskiptavit, því ævinlega var um hreina gersemi að ræða. En áður en lengra var haldið í viðskiptumum vildi Watson heyra ættartöfluna. Og það stóð ekki á svörum: þarna rakti margur bóndinn ætt hundsins síns í 7-8 ættliði! Þetta var mikilvægt fyrir Watson því til að fá kynið opinberlega viðurkennt þurftu ættliðir, að mig minnir 25, að vera klárir. Ekki man ég að nefna tölur um verð, en verðið skipti ekki máli, bændur fengu uppsett verð en hefðu

ef til vill getað fengið helmingi meira. Allir voru hæstánægðir að leikslokum. Ef ég man rétt varð uppskeran 6-7 hundar og nú þurfti að smíða sérstök búr á trésmíðaverkstæði Kaupfélagsins til sð flytja dýrin með flugi suður og síðan á hundabúgarð í Kaliforníu. Það færðist glóð í augu Watsons þegar hann trúði mér fyrir vonum sínum um þessa kostnaðarsamu hundaræktrunaráætlun: “Ég vonast til að komast á forsíðu Life-magasin þegar tekist hefur að hreinrækta íslenska hundinn og kynið hefur fengið löggildingu”.

En víkjum þá í lokin að fyrsta hundinum, sem Watson fann í þokunni. Hvort hundatilkynningin hreif eða vandræði okkar með óskilahundinn hafi orðið heyrikunn á Héraði veit ég ekki. Eigandinn gaf sig fram. Hann reyndist vera Geir bóndi á Sleðbrjót í Hlíð, 30 km. frá Egilsstöðum. Bóndi var um þessar mundir í vinnu á Egilsstöðum og hundurinn hefur verið kominn nærri alla leið á eftir honum. Kaup gengu greiðlega saman og nú fengum við að vita hvað hundurinn héti. Mér brá nokkuð við að heyra hundsnafnið og fór að hugsa um það hversu Watson myndi líka. Hann gæti auk þess ekki borið það fram, því Englendingum er fyrirmunað að bera fram au-hljóðið.

Nafn hundsins var AULI! Skelfing var hinn nýi eigandi undrandi og hryggur þegar ég þýddi þetta nafn á ensku: STUPID!

Greinin var birt í Sámi og í Árshefti 2014 Deild Íslenska Fjárhundsins.


SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

SAMFÉLAGSMIÐLAR->

HAFA SAMBAND->

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

Soknaraetlun