04.12.2023Evelyn Ýr
Einn frægasti hundur íslenskra bókmennta er íslenski fjárhundurinn Leó úr bókinni Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson.
Sagan um hættuför Benedikts með hundinum sínum, Leó, og forystusauðnum Eitli um snæviþakin öræfi norður í landi þykir vera meistaraverk. Aðventa byggir á sannri frásögn af eftirleit Fjalla-Bensa í desember árið 1925.
Benedikt leggur í ferð upp á fjöll á aðventu til að leita að sauðfé sem ekki hafði fundist í venjubundnum leitum að hausti. Benedikt er farinn að reskjast, hann er fimmtíu og fjögurra ára. Í sögunni er hann að fara í sína 27. ferð til að leita að fjárs við upphaf aðventu. Hann býr sig til ferðarinnar á fyrsta sunnudegi í aðventu, og með honum í för eru hundurinn hans, Leó, og sauðurinn Eitill. Benedikt lítur á þá sem trygga vini sína. Þeir eru honum líka nauðsynlegir til ferðarinnar vegna eiginleika sinna við að reka fé.
Gunnar Gunnarsson (1889–1975) var einn helsti rithöfundur Íslendinga á 20. öld. Engin bók Gunnars hefur farið jafn víða um lönd og Aðventa, sem hefur verið þýdd á um 20 tungumál.
Í Sarpinum rakst ég á þessa áhugaverðu mynd af Fjalla-Bensa, sem sést hér að ofan. Hún er í eigu Minjasafnsins á Akureyri, og ég gat pantað hana þaðan. Myndin er eftir Bárð Sigurðsson (1877–1937), og henni fylgir eftirfarandi lýsing:
„Fjalla-Bensi, Benedikt Sigurjónsson f. 9.4.1876, á skíðum með hund og sauð, í myndastofu Bárðar í Höfða. Ekki er víst hvort þetta eru hundurinn Leó og forystusauðurinn Eitill.
Gaman er að skoða þessa mynd nánar. Búið er að hafa mikið fyrir því að taka upp torf og setja á gólfið þannig að það lítur út fyrir að Benedikt standi úti á skíðum með fjallasýn Mývatnssveitar að baki. En til vinstri sést í hefilbekk Bárðar, og til hægri sést í kistu. Myndastofa Bárðar var nefnilega líka smíðastofa hans í Höfða, þannig að hann vann sér inn fyrir lifibrauði í þessari stofu, bæði með smíðum og myndatökum.“
Lestur á sögunni Aðventa er orðinn að árlegri hefð hjá mörgum í jólamánuðinum, og ég get ekki annað en mælt með því að lesa eða hlusta á hana núna á aðventunni.
Sími: +354 893 3817
[email protected]