04.12.2023Evelyn Ýr
Einn frægasti hundur íslenskra bókmennta er íslenski fjárhundurinn Leó úr bókinni Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson.
Sagan um hættuför Benedikts með hundinum sínum, Leó, og forystusauðnum Eitli um snæviþakin öræfi norður í landi þykir vera meistaraverk.
Aðventa byggir á frásögn eftir Þórð Jónsson sem birtist í tímaritinu Eimreiðinni. Þar sagði hann frá svaðilför sem farin var í desember 1925. Hópur manna fór á fjöll austan lands til að finna kindur, einn þeirra var Benedikt Sigurjónsson, kallaður Fjalla-Bensi, hann var þaulreyndur í ferðum um öræfin. Í grein Þórðar er rakið hvernig Benedikt verður einn eftir uppi á fjöllum, lendir í miklum hrakningum á Mývatnsöræfum en kemst aftur til byggða á öðrum degi jóla.
Benedikt leggur af stað upp í fjöll á aðventu til að leita að sauðfé sem ekki hafði fundist í venjubundnum haustleitum. Hann er orðinn 54 ára gamall og farin að reskjast, en þetta er hans 27. ferð í eftirleit á aðventu.
Hann býr sig undir ferðina á fyrsta sunnudegi í aðventu og hefur með sér tvo tryggustu förunauta sína – hundinn Leó og forystusauðinn Eitil. Benedikt lítur á þá sem vini sína, en þeir eru honum einnig ómissandi í leitinni; Leó er ratvís og tryggur fjárhundur, og Eitill dregur annað fé með sér.
Á leiðinni þurfa þeir að kljást við hríðarveður og myrkur, sem gera ferðina hættulega. Benedikt verður að treysta bæði á hugrekki sitt og dýrin sín. Hann er ekki trúaður í hefðbundnum skilningi, heldur finnur hann tilgang í ábyrgð sinni gagnvart dýrunum. Einsemd og íhugun fylgja honum alla leið.
Honum tekst að finna kindurnar sem týnst höfðu og leiða þær í gegnum veðrið með hjálp Leós og Eitils. En þegar heimferðin hefst versnar veðrið enn frekar. Benedikt verður að kljást við ofsaveður og þreytu, en hann neitar að yfirgefa dýrin sín.
Að lokum nær Benedikt aftur til byggða á öðrum degi jóla, örmagna en sigursæll. Hann hefur bjargað kindunum og sigrast á náttúruöflunum með hugrekki sínu og óbilandi ábyrgðartilfinningu.
Gunnar Gunnarsson (1889–1975) var einn helsti rithöfundur Íslendinga á 20. öld. Engin bók Gunnars hefur farið jafn víða um lönd og Aðventa, sem hefur verið þýdd á um 20 tungumál.
Í Sarpinum rakst ég á þessa áhugaverðu mynd af Fjalla-Bensa, sem sést hér að ofan. Hún er í eigu Minjasafnsins á Akureyri, og ég gat pantað hana þaðan. Myndin er eftir Bárð Sigurðsson (1877–1937), og henni fylgir eftirfarandi lýsing:
„Fjalla-Bensi, Benedikt Sigurjónsson f. 9.4.1876, á skíðum með hund og sauð, í myndastofu Bárðar í Höfða. Ekki er víst hvort þetta eru hundurinn Leó og forystusauðurinn Eitill.
Gaman er að skoða þessa mynd nánar. Búið er að hafa mikið fyrir því að taka upp torf og setja á gólfið þannig að það lítur út fyrir að Benedikt standi úti á skíðum með fjallasýn Mývatnssveitar að baki. En til vinstri sést í hefilbekk Bárðar, og til hægri sést í kistu. Myndastofa Bárðar var nefnilega líka smíðastofa hans í Höfða, þannig að hann vann sér inn fyrir lifibrauði í þessari stofu, bæði með smíðum og myndatökum.“
Lestur á sögunni Aðventa er orðinn að árlegri hefð hjá mörgum í jólamánuðinum, og ég get ekki annað en mælt með því að lesa eða hlusta á hana núna á aðventunni.
Sími: +354 893 3817
[email protected]