Hero Image

Íslenski Fjárhundurinn

Íslenski fjárhundurinn, þjóðarhundur Íslendinga, hefur fylgt þjóðinni allt frá landnámi og er órjúfanlegur hluti af sögu og menningu landsins. Á árinu 2025 opnum við einstaka sýningu á Lýtingsstöðum í Skagafirði, helgaða þessari einstöku hundategund og sögu hennar. Komdu og upplifðu þessa einstöku sýningu – fræðsla, saga og upplifun bíða þín!

BLOG



Óvænt símtal

Óvænt símtal

Síminn minn hringdi um 10:30 á gamlársdag. „Ingibjörg fréttamaður hjá RÚV, góðan dag. Mig langar að athuga hvort þú sért tilbúin í stutt viðtal um frétt sem barst frá Bretlandi – að breska hundaræktarfélagið hafi viðurkennt íslenska fjárhundinn sem tegund og hvað það þýðir.“ Ég hélt það nú! Fyrir utan útskýringar á því hvað þessi viðurkenning þýðir fyrir tegundina vorum við að spjalla um verkefnið mitt og tilvonandi opnun sýningarinnar um sögu íslenska fjárhundsins hér á bæ. Hversu dásamlegt að fá óvænt tækifæri til að kynna sýninguna á síðasta degi ársins fyrir landsmenn! Viðtalið var útvarpað í hádegisfréttum og einnig birtist frétt á ruv.is. Ég er ennþá alveg í skýjunum – ekki síst yfir því að RÚV leitaði til mín, var búið að frétta af mér og verkefninu. Það var dásamlegt að ljúka árinu með þessu viðtali! Til útskýringar á fréttinni frá Bretlandi: íslenski fjárhundurinn var einu sinni viðurkennd tegund hjá breska hundaræktarfélaginu. Til að mynda var Vaskur frá Þorvaldsstöðum valinn BOB (Best of Breed) á Crufts-sýningunni árið 1960. Mark Watson flutti hann frá Íslandi til Kaliforníu og síðar til Englands. Aðeins viðurkenndar tegundir fá að taka þátt í hundasýningum. Seinna voru of fáir einstaklingar skráðir í Bretlandi og tegundin missti viðurkenninguna. Núna hefur margra ára barátta eigenda og aðdáenda íslenska fjárhundsins skilað sér í nýrri viðurkenningu, og hægt verður að rækta og sýna íslenska fjárhundinn á ný í Bretlandi. Til hamingju! **Tenglasafn** [Frétt á The Guardian 31.desember 2024](https://www.theguardian.com/lifeandstyle/2024/dec/31/icelandic-sheepdog-breed-mentioned-shakespeare-pedigree) [Frétt á RÚV 31.desember 2024](https://www.ruv.is/frettir/erlent/2024-12-31-islenski-fjarhundurinn-vidurkenndur-sem-tegund-432022) [Viðtalið í hádegisfréttum á RÚV 31.desember 2024](https://www.ruv.is/utvarp/spila/hadegisfrettir/25243/a16khr/islenski-fjarhundurinn-vottadur-af-breska-hundaraek) [Póstur um Vask frá Þorvaldsstöðum, fyrirmynd í merki HRFÍ](https://www.fjarhundur.is/is/blog/vaskur-fra-thorvaldsstodum-fyrirmynd-merkisins-hrfi)

Í árslok

Í árslok

Í lok árs er gott að horfa til baka og gera upp árið. Við náðum því miður ekki að opna sýninguna á þessu ári, þar sem byggingarframkvæmdir töfðust vegna flókins umsóknarferlis og slæms veðurfars. Ég var kannski of bjartsýn í ársbyrjun, en það er bjartsýni sem drífur okkur áfram – ekki satt? Ég hafði því meiri tíma til að undirbúa sýninguna, sem kom sér vel, því verkefnið er stærra en ég hafði gert mér í hugarlund í upphafi. Mig langar að stikla á stóru yfir það helsta sem gert var í undirbúningi sýningarinnar. Í janúar var sérstakt svæði opnað á vefsíðunni þar sem sögur um hunda voru færðar inn. Hægt er að bæta við sögum hvenær sem er, og endilega sendið mér sögur ef þið viljið segja frá hundum – ykkar eigin eða öðrum. Einnig sögur sem þið hafið heyrt eða lesið. Það skemmir ekki að láta myndir fylgja með ef þær eru til. Í febrúar fengum við til okkar kvikmyndafólk til að taka upp efni (myndir og myndbönd) fyrir sýninguna. Fyrir þessa vinnu fengum við styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra. Í vor fjárfestum við í fallegu húsi (tilsniðið en ósamsett) og hafist var handa við undirbúning fyrir grunninn.  Mest vinnan í sumar fór í byggingarframkvæmdir, og myndir af ferlinu er hægt að sjá á Facebook-síðu verkefnisins. Í júlí mætti ég á viðburð í Glaumbæ á Degi Íslenska fjárhundsins og var beðin um að kynna verkefnið fyrir gestum. Samstarfið við Byggðasafn Skagfirðinga er mér mjög kært og hlakka ég til áframhaldandi samvinnu. Í haust keypti ég nokkrar gamlar myndir, aðallega koparstungumyndir af íslenskum fjárhundum. Ég fann þessar gersemar í antíkverslunum í Evrópu og Bandaríkjunum og þær verða til sýnis á sýningunni. Ég sótti um fleiri styrki til að ljúka undirbúningi og uppsetningu og fékk jákvæð svör bæði frá Menningar- og viðskiptaráðuneytinu og Menningarsjóði Kaupfélags Skagfirðinga. Ég er mjög þakklát fyrir þennan stuðning. Haustið var einnig nýtt til áframhaldandi lesturs, rannsóknarvinnu og textaskrifa. Nú tel ég mig vera tilbúna til að taka lokaskrefið og ég vona að geta opnað sýninguna í apríl eða maí. Rétt fyrir jól vorum við með opið torfhús og fengu gestirnir tækifæri til að kíkja líka í nýja húsið, þó það sé ekki alveg fullklárað. Við settum upp ýmislegt til að gefa innsýn í það sem koma skal í sýningunni, og kvikmyndarefnið sem tekið var upp í febrúar var sýnt í fyrsta skipti, sem vakti mikla lukku hjá gestum okkar. Nú kveð ég þetta ár með miklu þakklæti til allra sem hafa stutt mig í þessu verkefni, unnið fyrir mig, sýnt mér stuðning, hvatt mig áfram, gefið mér klapp á bakið, sent mér bækur, sögur, myndir eða annað áhugavert efni. Síðast en ekki síst þakka ég fjölskyldunni minni fyrir að sýna mér þolinmæði og trú á hugmyndum mínum sem ég verð sjaldan þreytt á að þróa og framkvæma. Ég læt þessari færslu fylgja mynd sem tekin var í Glaumbæ í febrúar þegar við tókum þar upp efni. Takk fyrir samfylgdina og ég óska ykkur öllum gleðilegs og friðsæls nýs árs.

Íslenzkir þjóðhættir

Íslenzkir þjóðhættir

Bókin "Íslenzkir þjóðhættir" eftir Séra Jónas Jónasson frá Hrafnagili er ein af merkustu bókum íslenskrar menningar og þjóðfræði. Hún er einstök lýsing á daglegu lífi og venjum Íslendinga á 19. öld. Jónas Jónasson (1856–1918) var íslenskur prestur, kennari og fræðimaður og var þekktastur fyrir þessa bók, sem kom út árið 1934, sextán árum eftir andlát hans. Bókin varðveitir dýrmætar heimildir um íslenskt þjóðlíf, sem örugglega hefðu glatast með nútímavæðingu, og er talin ein af grundvallarritum íslenskrar þjóðfræði. Fyrir utan það er hún skemmtileg lesning, enda er hún skrifuð þannig að hún höfðar ekki bara til þjóðfræðinga heldur líka til almennings. Í bókinni er ýtarlegur kafli um hunda (blaðsíðu 177-181), og frásögnin er að sumu leyti frábrugðin því sem við finnum í öðrum ritum. Jónas skrifar um nauðsyn þess fyrir bændur og smala að eiga hunda. Hann skrifar að Íslendingar hafi lengi verið þekktir fyrir að hafa dálæti á hundum, láta þá sofa hjá sér og þrífa fyrir sig matarílátin. Hann nefnir að á Grenjaðarstað í Þingeyjarsýslu hafi verið tólf hundar, en það var ekki algengt. Víða var þó hægt að sjá að minnsta kosti sex hunda, þar sem mikið af fjáreign og búskap var að finna. Jónas dregur fram ýmsa þjóðtrú í sambandi við hunda, sem mig langar að setja hér upp: "Hundur verður beztur sem alinn er á þorra eða góu því að þá er hann mátulega gamall að venja hann við lambfé á vorin." "Alla varuð verður við að hafa, þegar hvolpar eru valdir til lífs; fyrst er það, að þeir séu ekki gotnir sjáandi, því að ef svo er, á að drepa þá hið bráðasta. Annars hverfa þeir í jörð niður, þegar þeir eru þriggja nátta, en koma upp aftur á sama stað að þrem árum liðnum, en þá eru þeir orðnir svo voðaleg ófreskja, að hver sú skepna deyr, sem verður fyrir augum þeirra. Ef svo illa fer, verður að stilla svo til, að ókind þessi sjái fyrst sjálfa sig í spegli, er hún kemur upp, því að það er hennar bráður bani." "En svo er annað, - að geta átt það vist, að hundurinn, sem alinn er, verði vænn. Til þess segja sumir, að taka skuli þann hvolpinn, er fyrst fæðist, en sumir segja, og það eru fleiri, að taka skuli hvolpana frá tíkinni, er hún er búin að gjóta, og bera þá burt frá henni, svo að hún sjái, hún tekur þá svo aftur og færir þá í bæli sitt; sá hvolpurinn, sem hún tekur fyrst, verður vænstur, og skal hann upp ala." "Þar sem smalamennska fór fram í bröttum fjöllum, sældust margir til að hafa hunda hvíta eða sem ljósleitasta, því þeir sjást bezt, þegar langt þarf að senda." "Jafnan hefir verið við brugðið tryggð hunda, en þó hafa sumir smalar verið svo óheppnir, að hundar eru ófúsir að fylgja þeim. En til þess að tryggja sér hund þarf ekki annað en gefa honum bita og núa bitanum í svita sinn. Þá fylgir hundurinn manni fúslega og verður honum tryggur." "Sumum hundum hætti við að vera grimmir og bíta í afturfæturnar á fénu og enda rífa það til skemmda. Ef ekki var hægt að venja þá af því öðruvísi, var vant að brjóta úr þeim vígtennurnar með naglbit; gátu þeir úr því ekki bitið fé til skemmda." "Hundar eru skyggnir og sjá fylgjur manna og aðrar vofur; þegar hundar taka til að ólmast og gelta á kvöldin frammi í bænum eða úti við, kemur það af því, að þeir sjá fylgjur eða eitthvað óhreint á seyði. Þegar einhver óhug setur að þeim af einhverju óhreinu, sem er á flökti í kring um þá, setjast þeir niður og spágola eða spangóla, sem kallað er. Svo vita þeir og á annan hátt, þegar gesta er von." "Hundaskinn er til margra hluta nytsamlegt, t.d. eru vettlingar úr hundaskinni óvenju hlýir, og eins þeir sokkar og vettlingar, er hundshár er haft saman við ull í. Hundafeiti er allra áburða bezt á gigt, mar, tognun og önnur meiðsli, og trúa margir því enn í dag." Sem betur fer útskýrir Jónas ekki verkun á hundaskinn og framleiðslu hundafeitunnar, því það gæti verið erfið lesning nú til dags. Í framhaldi af yfirferð bókarinnar langar mig að benda á [spurningaskrá um hunda inni á Sarpi](https://www.sarpur.is/Spurningaskra.aspx?ID=531295&page=0&pageSize=192), sem er menningarsögulegt gagnasafn. Í svörunum er komið inn á margt sem Jónas nefnir í "Íslenzkir þjóðhættir," og það er afar áhugavert að lesa sig í gegnum svörin. Mynd: Djúpadal, 1930. Höfundur óþekktur.

Sjá meira

SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

SAMFÉLAGSMIÐLAR->

HAFA SAMBAND->

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

Soknaraetlun