Hero Image

Íslenski Fjárhundurinn

Íslenski fjárhundurinn, þjóðarhundur Íslendinga, hefur fylgt þjóðinni allt frá landnámi og er órjúfanlegur hluti af sögu og menningu landsins. Á árinu 2025 opnum við einstaka sýningu á Lýtingsstöðum í Skagafirði, helgaða þessari einstöku hundategund og sögu hennar. Komdu og upplifðu þessa einstöku sýningu – fræðsla, saga og upplifun bíða þín!

BLOG



Tímamót í hundahald á Íslandi

Tímamót í hundahald á Íslandi

Góðar fréttir bárust í gær þegar Alþingi samþykkti [frumvarp Ingu Sælands](https://www.althingi.is/altext/155/s/0162.html), félags- og húsnæðismálaráðherra, um breytingu á lögum um fjöleignarhús, sem kveður á um að hunda- og kattahald verði ekki lengur háð samþykki annarra eigenda. Lögin fela í sér að: * Fólk sem býr í fjöleignarhúsum og deilir stigagangi með öðrum þarf **ekki lengur samþykki annarra eigenda fyrir því að eiga hund eða kött.**   * Húsfélög munu þó geta sett reglur um hunda- og kattahaldið, svo lengi sem þær eru **málefnalegar, eðlilegar og byggðar á jafnræði**. Eigendur geta þá sammælst um **nánara fyrirkomulag dýrahaldsins**, svo sem um umgengni og afnot á einstökum hlutum sameignar. Slíkar reglur geta þó eðli málsins samkvæmt ekki gengið svo langt að þær girði fyrir hunda- eða kattahald í húsinu enda væri það andstætt markmiði laganna.   * Húsfélög geta áfram lagt bann við hundum og köttum **ef dýrin valda verulegum ama, ónæði eða truflunum** og eigendur bregðast ekki við áminningum húsfélagsins og ráða bót þar á. Þannig gæti húsfélag til dæmis bannað einstök tilvik dýrahalds **ef ofnæmi væri á svo háu stigi að sambýli við dýrið yrði óbærilegt** og ekki væri hægt að finna lausnir til að ráða bót þar á.   * **Samþykki 2/3 hluta eigenda þarf þó fyrir slíku banni** og það sama gildir þegar **eigandi dýrs brýtur verulega eða ítrekað gegn skyldum sínum samkvæmt lögunum eða reglum húsfélagsins**, þrátt fyrir áminningar húsfélags. Húsfélagið getur þá bannað viðkomandi dýrahald með samþykki 2/3 hluta eigenda og gert eiganda dýrsins að fjarlægja það úr húsinu. Dæmi um slíkt brot er lausaganga hunda í sameign eða á sameiginlegri lóð, sem telst alvarlegt brot í þessum skilningi samkvæmt lögunum. Mikilvægt skref var stigið í réttindamálum hundeiganda með þessu lagabreytingu en hundabann var í Reykjavík í 60 ár eða frá 1924-1984. Það var þó ekki fyrr en 2007 að hundabanninu var með öllu aflétt nema að hunda- (og kattahald) í fjöleignarhúsi var háð samþykki 2/3 hluta eigenda sem höfðu sameiginlegan inngang eða stigagang. Með breytingu laganna heyri það nú sögunni til. Þetta mun auðvelda fólki að eiga hund og gera það að verkum að fólk getur haldið í hundana sína þegar það þarf að flytja í annað húsnæði. Lagabreytingin hefur lengi verið baráttamál HRFÍ [sem fagnar þessum breytingum](https://hrfi.is/blogs/news/godar-frettir-fra-althingi-breytingar-a-logum-um-fjoleignarhus). Hér er hægt að lesa meira um [Hundabann í Reykjavík](https://www.fjarhundur.is/is/blog/hundabann-i-reykjavik-i-60-ar) - þessi bloggpóstur er reyndar mest lesni pósturinn á þessari síðu.

Úti garmar geltu

Úti garmar geltu

Sarpur er menningarsögulegt gagnasafn þar sem má meðal annars finna mikið af fróðleik um þjóðhættir í formi spurningaskráa.  [Skrá #66](https://sarpur.is/Spurningaskra.aspx?ID=531295) er tileinkuð hundinum, og þar má finna svör frá 71 viðmælanda. Þessi svör gefa góða hugmynd um hundamenningu (viðhorf til hunda, þjóðtrú, venjur) á Íslandi á fyrri hluta tuttugustu aldar. Skrásetningin fór fram árið 1987. Ég hef gluggað mikið í þessa spurningaskrá #66 því hún er sannkallaður fjársjóður. Ein spurningin er til dæmis um algeng hundanöfn, og ég taldi 221 hundanafn sem kom fram í svörunum. Meira um það síðar. Önnur spurning var um samheitin fyrir hunda: "Greinið frá samheitum um hunda (hundur, hvutti, deli, búadeli, grey, garmur, rakki, seppi, skinn, héppi o.s.frv.). Segið frá afleiddum orðum, merkingu og merkingarmun (hundsspott, hundsskinn, garmsskinn, greyskinn, greyskarn o.s.frv.). Var orðið ,,klódýr" notað um hunda og ketti og jafnvel tófur sem samheiti? Voru orðin hrædýr, hrækvikindi stundum notuð um hund? " Ég hef tekið saman nokkur svör: * Skammarorð: hundsspott. * Afleidd orð: hundsskinn, garmskinn, greyskinn, greyskarn * Garmur er notað í lítilsvirðingar- og vorkunnartón * Hvuttar var frekar haft um hvolpa. Gæluorð um hund voru t.d. garmskinn, greyskinn og greyskarn. * Hundsspottið er mér ókunnugt um, held það þýði að vera öðruvísi en hann ætti að vera, hundsskinnið, garmskinnið, greyskinnið eru vorkunar- eða gæluorð, greyskarnið gæti haft líka þýðingu en eins blandað lítilsvirðingu, en ef einhver var sagður vera hundtyrki merkti það að hann væri slæmur. * Ég kannast við flest þessi samheiti, hundur, hvutti, deli, búadeli, grey, garmur, rakki, seppi, skinn, héppi en hygg að klódýr og hrædýr hafi aðallega verið notuð af gömlu fólki og heyrist ekki lengur. * Orðin hvutti, aðallega um unga hunda s.s. hvolpa, rakki og seppi mjög algengt, en grey og garmur frekar sem gælunafn og afleiðing af þeim greyskinn og garmskinn ekki síður notuð við menn, sem vinahót * Um samheitin á hundum, sem upp eru talin í spurningaskránni s.s. hvutti, deli, búadeli, grey, garmur, rakki, seppi, skinn og héppi, voru öll notuð af gömlu fólki í minni bernsku að undanskyldu búadela, það hefi ég aldrei heyrt. Hundsspott, þá var einkum átt við hvolpa sem höfðu gert eitthvað til óþurftar. Orðið klódýr var samheiti á hundum og köttum. Þegar hundar komu heim illa útleiknir eftir langvarandi flæking var stundum sagt að hundshræið væri nú loksins komið heim. * Hrædýr og krækvikindi voru tófur (refir) en fyrir kom að það væri notað um flækingshunda eða hunda sem af einhverjum ástæðum sultu. Svo var oft talað til þeirra í gamni, sérstaklega af krökkum, grey, líka sagt seppi minn þegar verið var að gefa þeim í dallinn sinn: "Leptu nú þetta greyið." Oft voru flökkuhundar á ferðinni, horaðir og hungraðir, þá var oft sagt: "Það verður að gefa garminum." * Oft var sagt aumingja hræið eða hrækvikindið, ef eitthvað var að hundi. Eins og sést hafa hundurinn og samheitin haft mikil áhrif á daglegt mál, og ætla ég að ljúka þessum pósti með tilvitnun í Jónas Hallgrímsson í kvæðinu [Óhræsið](https://www.holabok.is/jonas/ohraesid.html): Mædd á manna besta miskunn loks hún flaug, inn um gluggann gesta guðs í nafni smaug **– úti garmar geltu**, gólið hrein í valnum – kastar hún sér í keltu konunnar í dalnum. Mynd: Baldvin Jónatansson, frú og bústofn í Víðaseli árið 1910

Vetraropnun Söguseturs

Vetraropnun Söguseturs

Sögusetur Íslenska fjárhundsins var opið daglega frá 9-18 í allt sumar og fram á haustið. Við verðum ekki með fasta opnunartíma í vetur. Hins vegar búum við á staðnum og getum opnað með stuttum fyrirvara ef áhugi er fyrir því að koma og skoða sýninguna. Endilega hafið samband í síma eða með tölvupósti. Það skiptir engu máli hvort þið eruð ein á ferð eða með hóp. Við og hundarnir tökum vel á móti ykkur. Einnig er hægt að skoða torfhúsin okkar allt árið um kring, með hljóðleiðsögn á íslensku og fleiri tungumálum. Við stefnum á að hafa einn opinn dag í aðventu og hann verður auglýstur nánar þegar nær dregur. Tilvalið er að gera sér ferð í Skagafjörð með alla fjölskylduna, njóta samveru, fræðast um þjóðararfin og versla okkar einstöku minjagripi tengda þjóðarhundinum. Sumaropnun Sögusetursins byrjar aftur um miðjan maí. Hlökkum til að sjá ykkur!

Sjá meira

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
561 Varmahlíð
Sími: +354 893 3817
[email protected]

SoknaraetlunStjórnarráðRoyal Canin