Hero Image

Íslenski Fjárhundurinn

Íslenski fjárhundurinn, þjóðarhundur Íslendinga, hefur fylgt þjóðinni allt frá landnámi og er órjúfanlegur hluti af sögu og menningu landsins. Á árinu 2025 opnum við einstaka sýningu á Lýtingsstöðum í Skagafirði, helgaða þessari einstöku hundategund og sögu hennar. Komdu og upplifðu þessa einstöku sýningu – fræðsla, saga og upplifun bíða þín!

BLOG



Það helsta í mars

Það helsta í mars

Marsmánuðurinn hefur verið frekar viðburðaríkur og gaman að segja frá því hér. Húsið sem mun hýsa sýninguna er næstum því tilbúið og við getum farið að huga að uppsetningu. Ég hef klárað alla texta fyrir veggspjöldin sem eru núna hjá hönnuði og fara svo í prentun. Þetta var stórt og umfangsmikið verkefni en spjöldin verða væntanlega átta talsins. Ég ætlaði mér ekki að hafa of mikinn texta en eftir tveggja og hálfs árs vinnu er ég búin að taka saman svo mikið efni að mér fannst ekki skynsamlegt að stytta það of mikið, sérstaklega þar sem ég er búin að raða því vel upp. Það sem birtist á spjöldunum verður þó aðeins brot af því sem ég hef skrifað. Ég stefni einnig að því að skipuleggja efnið hér á síðunni betur til að auðvelda aðgengið svo efnið á sýningunni og á síðunni tali betur saman. Ég var spurð um daginn hvort þetta muni heita „Sýning um Íslenska fjárhundinn“ eða „Sögusetrið Íslenska fjárhundsins“. Eftir að hafa velt þessu mikið fyrir mér hallast ég að því að „Sögusetrið“ henti betur, þar sem þetta verður ótímabundin sýning. Í byrjun mánaðarins fékk ég heimsókn frá Darren Adam, fréttamanni hjá RÚV English radio, og hann tók viðtal við mig um íslenska fjárhundinn og verkefnið mitt. [Hægt er að hlusta á viðtalið hér](https://www.ruv.is/english/2025-03-21-ruv-english-radio-the-icelandic-sheepdog-439412). Þann 8. mars héldum við lítinn viðburð sem við kölluðum [„Hvolpaknús með þjóðarhundinum“](https://www.facebook.com/events/593096123885848/?active_tab=discussion). Connie frá Breiðanesræktun kom til okkar með hvolpana sína sem eru undan Sóma mínum og tíkinni Breiðanes Björt, sem prýðir desembermánuðinn í dagatali DÍF 2025. Við fengum góða gesti og nutu bæði ungir og eldri þess að knúsa hvolpana. Mikið var spjallað um hunda og hundaræktun. Tveir fallegir rakkar úr þessu sjö hvolpa goti eru ennþá að leita að framtíðarheimili þegar þetta er skrifað, og ég vona að þeir finni fjölskyldur sínar sem fyrst. _**Hafir þú áhuga, endilega hafðu samband við mig!**_ Næstum óvænt varð einn hvolpur eftir hjá mér þennan dag en ég hafði lengi látið mig dreyma um að eignast hvolp undan Sóma. Þannig kom hún Fönn inn í líf okkar og myndin hér að ofan er af henni. Nú er fjör á bænum og gaman að fylgjast með henni vaxa og dafna. Hún er einstaklega mannelsk, blíð og gáfuð. Það er betra að fylgjast vel með því sem hún lærir og tileinkar sér. Sem betur fer eru Sómi og Hraundís afar stilltir hundar sem hún getur lært margt af. Fönn sýnir mikinn áhuga á hrossunum sem við sinnum daglega og heilsar einnig upp á hrútana sem hýstir eru í hesthúsinu þessa dagana. Nú nálgast sauðburður og þá kemur upp í hugann þessi orð séra Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili úr bókinni „Íslenzkir þjóðhættir“: **„Hundur verður beztur sem alinn er á þorra eða góu, því að þá er hann mátulega gamall að venja hann við lambfé á vorin.“** Síðastliðinn föstudag tók Fönn í fyrsta sinn á móti hópi ferðamanna og stóð hún sig með miklum sóma. Þegar ég sýndi ferðamönnum torfhúsið leiddi Hraundís hana upp á torfhúsþakið þar sem hún sat í fyrsta skipti. Þið getið fylgst með daglegu lífi þjóðarhundateymisins á Lýtingsstöðum á Instagram undir [#fjarhundur.](https://www.instagram.com/fjarhundur/) Að lokum er gaman að segja frá því að síðastliðinn föstudag var frumsýnd stuttmynd sem tekin var upp í janúar. Í henni segi ég mína sögu hér á Íslandi og fjalla um tengsl mín við dýrin. Hundarnir (sem voru þá aðeins tveir) koma einnig aðeins við sögu. [Hér er hægt að horfa á myndina](https://youtu.be/v_prycnrCIA?si=-qAwiVtUKN74D9XO). Meira er ekki í fréttum í bili.

Fyrsta hundasýning á Íslandi

Fyrsta hundasýning á Íslandi

Árið 1969 var Hundaræktarfélag Íslands (HRFÍ) stofnað á Hótel Sögu í Reykjavík af 29 áhugamönnum um ræktun íslenska fjárhundsins. Eitt af markmiðum félagsins var að vernda og rækta tegundina. Þann 25. ágúst 1973 hélt HRFÍ fyrstu hundasýningu á Íslandi, sem fór fram í Hveragerði. Jean Lanning frá Englandi var dómari á sýningunni og fékk sérstaka undanþágu til að dæma, þar sem sýningin var ekki alþjóðlega viðurkennd – HRFÍ var þá enn ekki skráð sem ræktunarfélag erlendis. Alls voru 60 hundar skráðir til sýningar. Stærsti hópurinn var íslenskir fjárhundar (23 talsins), en einnig voru sýndir Poodle-hundar (13), Collie-hundar (9) og aðrir hundar af ýmsum tegundum. Meðal gesta á sýningunni var Mark Watson. Þorsteinn Thorsteinsson, hundaræktandi og dómari, tók viðtal við Jean Lanning árið 2011, þar sem hún rifjaði upp þessa fyrstu sýningu á Íslandi og kynni sín við Mark Watson. Mig langar að endurbirta hluta úr grein Þorsteins hér og hef fengið leyfi til þess hjá honum. Greinina í heild sinni er hægt að lesa í [Hundalífspósti.](https://hundalifspostur.is/2016/03/23/thorsteinn-thorsteinsson-tok-vidtal-vid-jean-lanning-arid-2011/) "Fyrsta hundasýningin hér á landi var haldin á vegum Hundaræktarfélags Íslands í Eden í Hveragerði í ágúst 1973 en taka skal fram að þetta var óformleg sýning og engin meistarastig í boði. Dómari þessarar sýningar var engin önnur en Jean Lanning en að hennar mati er árangurinn síðan undraverður. „Ef ég man rétt þá var sýningin haldin í stórri glerbyggingu. Ég var send til Íslands í boði hins háttvirta MARK WATSON, serviturs og auðugs Englendings sem dáði Ísland og ÍSLENSKA FJÁRHUNDINN og ég held að landið ykkar hafi veitt honum FÁLKAORÐUNA“. Jean starfrækti annasamt hundahótel og þar kynntist hún fyrst íslenska fjárhundinum. „Stundum dvaldi ljúf lítil gælutík sem hét Kim hjá okkur. Ég held það hafi verið á sjötta eða sjöunda áratugnum, en fína nafnið hennar var HREFNA OF WENSUM. Fjölskyldan varð að láta hana frá sér og við tókum hana að okkur. Þetta var indæll hundur og okkur þótti vænt um hana. Hún var sigursæl á MEISTARASTIGSSÝNINGUM í fjölbreyttum Y-flokki, þ.e. óskilgreindum flokki“. „Mark Watson kom til okkar dag einn en hann var þá nýkominn frá Íslandi og hafði áhyggjur af því að tegundin myndi deyja út í landinu ykkar. Á þeim tíma ræktaði Sigríður Pétursdóttir kynið á bóndabænum sínum en þurfti á nýju blóði að halda. Mark bað okkur að rækta frá Kim og annari tík sem bjó í Southampton. Báðar þessar paranir voru mjög skyldleikaræktaðar en Mark gat þá loks gefið Sigríði tvo hvolpa. Hann keypti einnig par af henni sem hann gaf mér. Við ræktuðum tegundina áfram um tíma en ég var ekki nægjanlega ánægð með mjúka feldinn sem nýju hundarnir frá Íslandi komu með. Hundarnir frá Mark Watson höfðu grófari feld sem ég kaus heldur. Ég veit hinsvegar að ræktunarmarkmið íslenska hundsins leyfir tvær feldgerðir. Þegar ég hef dæmt þá á Íslandi var ég mjög ánægð með ræktunarmarkmiðið. Tegundin á mikið að þakka MARK WATSON og Sigríði Pétursdóttur“. Hún heldur áfram að tala um Watson og íslenska fjárhundinn: „Mér skilst að hann hafi farið með fyrstu hundana sína til Kaliforníu en þegar hann snéri aftur til Englands hafði stofninn minnkað nokkuð þar sem hann missti marga hunda af völdum vírus sem kallaðist þá HARD PAD. Hann missti að lokum áhuga á hundarækt of flutti til London þar sem hann átti FÍNA ANTÍKBÚÐ á Old Brompton Road. Ég sagði að hann hafi verið servitur ENSKUR aðalsmaður, ég held hann hafi verið sonur einhvers ættgöfugs lávarðar“. Jean upplýsir að aðrir hafi ekki ræktað íslenska fjárhundinn í Bretlandi og kynið hafi því miður dáið út þar. Ástæðurnar hafi bæði verið ónógur áhugi og lítill ræktunarstofn. „Við ræktuðum fallega tík (hún sést á mörgum póstkortum í dag) sem bjó hjá góðri fjölskyldu í Guildford. Þau ætluðu að rækta frá henni en því miður þá dó hún í umferðarslysi. Kannski einhver muni flytja þá \[íslenska fjárhundinn\] til Englands, það væri indælt ef það myndi gerast“. **Mér þykir merkilegt** að hér séu einu upplýsingar sem ég hef hingað til fundið um hvolpana sem Sigríður Pétursdóttir fékk frá Mark Watson. Einnig finnst mér frábært að tegundin sé núna loksins viðurkennd í Bretlandi, eins og ég hef áður skrifað um. Það tók mörg ár, þrátt fyrir að íslenski fjárhundurinn hafi verið eftirsóttur í Bretlandi á miðöldum og þrátt fyrir tilraunir Mark Watsons á 20. öld til að rækta og sýna íslenska fjárhunda þar í landi. Að lokum vil ég bæta við tveimur greinum um Jean Lanning og hundasýningu á Íslandi árið 1983. [Morgunblaðið 7.september 1983](https://timarit.is/page/1579713#page/n27/mode/2up) [Vikan 27.október 1983](https://timarit.is/page/4503228#page/n5/mode/2up)

Leit Watsons að dæmigerðum íslenskum hundum

Leit Watsons að dæmigerðum íslenskum hundum

Þórhildur Bjartmarz, hundaþjálfari og fyrrverandi formaður Hundaræktarfélags Íslands (1997–2005), hefur mikla þekkingu á sögu hunda á Íslandi og hefur tekið saman heimildir í fyrirlestra sem hún kallar _Hundalíf í sögu þjóðar_. Þórhildur fann ýmislegt áhugavert um framlag Mark Watsons til að bjarga kyni íslenska fjárhundsins. Hægt er að sjá greinar hennar á vefsíðu hennar, [_Hundalífspóstur_](https://hundalifspostur.is/). Ég fékk góðfúslegt leyfi hennar til að endurbirta efnið, sem ég er mjög þakklát fyrir. Í greininni [_On the Outlook for the True Type of Dogs_](http://hundalifspostur.is/2016/04/02/on-the-outlook-for-the-true-type-of-dogs/) birti hún bréfaskipti Watsons við nokkra Íslendinga sem hjálpuðu honum að finna hunda sem báru enn einkenni íslenska hundsins. Meðal annars var það Haukur Snorrason, ritstjóri Tímans. Bréfin eru frá árinu 1955, skrifuð á ensku, en ég var að þýða þau á íslensku. **Bréf #1:** **Í þessu bréfi frá Mark Watson til Hauks Snorrasonar lýsir hann þeim gerðum hunda sem hann ætti að leita að.** "Ég vil fá tvo rakka og tvær tíkur, ekki eldri en sjö ára og ekki yngri en eins árs. Þeir eiga að vera dæmigerðir íslenskir hundar. Litil, standandi eyru, mjög góð feldgerð, gulkolóttir, sterkbyggðir í herðum og hvorki of háfættir né langir í búk. Þeir verða að hafa vel hringað og loðið skott sem liggur upp á bakinu. Í eftirfarandi bók er mynd af íslenskum hundi sem gæti verið gagnleg fyrir Árna Þorbjörnsson. Bókin heitir _Kennslubók í dýrafræði_. Við sáum einn góðan en heldur gamlan hund á Höskuldsstöðum og sáum einnig móður hans, sem var ellefu ára; okkur var sagt að amma hans hafi verið mjög falleg tík. Við sáum einnig hund á bæ Davíðs Ólafssonar á Hvítárvöllum, sem var góður, nema eyrun voru heldur stór og annað þeirra ekki nógu reist." **Bréf #2:** **Frá Hauk Snorrasyni til Mark Watson í ágúst 1955** "Málefni hundanna hafa verið að þróast, þó nokkuð hægt. Það mun hins vegar óhjákvæmilega taka sinn tíma ef við eigum að finna réttu hundana og vera vissir um að velja rétt. Þar sem við þurfum að leita þeirra á afskekktum svæðum, er það einnig spurning um að finna rétta fólkið til að fara þangað. Ég hélt að við yrðum að bíða og sjá hvernig Þorbjörnssyni gengi í leit sinni í Öræfum áður en næstu skref yrðu ákveðin. Við munum nú vita meira eftir viku eða svo." **Bréf #3:** **Akureyri, 30. ágúst 1955** "Kæri Mark, A. Þorbjörnsson kom aftur til Reykjavíkur frá Öræfasveit í dag. Hann hafði verið veðurtepptur þar í nokkra daga. Ég var rétt í þessu að tala við hann í síma. Niðurstaða ferðar hans er mjög vonbrigðaleg. Hann segist hafa heimsótt alla líklega bæi á svæðinu en hvergi fundið hinn sanna íslenska hund. Það virðist sem bændurnir þar hafi verið áhugasamir um að láta tíkur sínar ganga undir erlenda hunda. Það er sama sagan og áður. Í stuttu máli er skýrsla hans þessi: Aðeins einn hundur sem hann sá kemst nokkurn veginn nærri hinum dæmigerða íslenska hundi. Hann kom með þessa einu ljósmynd en hefur ekki miklar vonir um að hundurinn muni falla þér í geð. Að mínu mati ætti næsta skref að vera að senda áreiðanlegan mann héðan til hins afskekkta Bárðardals í Þingeyjarsýslu og leyfa Þorbjörnssyni að fara í réttirnar eftir tvær vikur í Skagafirði og Húnavatnssýslu, þegar bændurnir sækja fé sitt af fjöllunum. Í réttunum sjást flestir hundar hvers héraðs. Þorbjörnsson hefur lofað að fara í þessar tvær sýslur, og ég gæti skipulagt ferðir héðan til austurhéraða." **Bréf #4:** **Þýðing á bréfi frá Árna Þorbjörnssyni til Hauks Snorrasonar, dagsett 25. september 1955** "Ég ferðaðist til Reykjavíkur þann 20. ágúst til að fljúga til Fagurhólsmýrar. Ég dvaldi í fjóra daga í Öræfasveit og ferðaðist um allt svæðið, heimsótti alla bæi. Það vildi svo til að ég gat farið með póstinum, sem var á ferðinni um sveitina þessa daga. Ég þurfti ekki að greiða fargjald fyrir að ferðast með honum í bílnum, og fyrir eina nótt í Skaftafelli var mér ekki gert að borga. Hins vegar dvaldi ég þrjár nætur á Fagurhólsmýri og greiddi 150,00 krónur fyrir gistingu. Ég sá alla hunda í sveitinni og komst að því að þeir voru ekki hentugir. Ég tók eina ljósmynd af svörtu tík á Svínafelli, en hún er þó ekki fullnægjandi. Mér þykir mjög leitt að niðurstöðurnar séu svona rýrar. Virðingarfyllst, Árni Þorbjörnsson" **Bréf #5:** **Akureyri, september 1955** "Þar sem Þorbjörnsson hafði ekki tíma til að fara í Jökuldalinn, ákvað ég að senda Davíðsson, sem fylgdi ykkur til Skagafjarðar, í Jökuldalinn. Hann dvaldi þar í nokkurn tíma, talaði við marga bændur og skoðaði vel hundana sem ég hafði séð í sumar. Hann er nú kominn til baka með Kodacolor-filmur, sem ég sendi þér með flugi í sérstöku bréfi. Útkoman er óviss. Í skýrslu um ferð sína segir hann: „Í Jökuldal virðast hundarnir blandaðir við aðrar tegundir eins og annars staðar, og einstakir hundar eru mjög mismunandi að lit, byggingu og almennu útliti. Á bænum Hvanná eru, að mínu mati, nokkrir hundar sem koma næst þeim hundi sem herra Watson hefur lýst. Meðfylgjandi ljósmyndir má skýra á eftirfarandi hátt: **Mynd 1:** Rakki Kópur, frekar stór hundur, þriggja ára gamall, gulbrúnn eða gullitaður. Skott vel hringað, eyru ekki mjög vel sperrt. Móðirin er Nafna, svört á lit. Sagður vera snjall fjárhundur. Frá Hvanná, Jökuldal. Vel til fallinn fyrir okkar tilgangi, nema eyrun eru ekki alveg rétt. **Mynd 2:** Tíkin Brana er 14 mánaða gömul, gulbrún á lit, frekar lág á fæti, eyru vel sperrt, skott hringað. Móðirin er Nafna, svört, 9 ára gömul, hefur ekki átt hvolpa í nokkurn tíma. Þessi móðir er falleg tík og mjög klár. **Mynd 3:** Rakki Mosi, 6 mánaða gamall. Brúnn á lit með hvítar lappir. Eyru vel sperrt, skott hringað. Móðirin er Brana. **Mynd 4:** Rakki frá Finnastöðum í Eyjafjarðarsveit, gulbrúnn á lit, eyru ekki vel sperrt, en að öðru leyti rétt byggður. **Mynd 6:** Nafna, svarta tíkin, 9 ára gömul, áður nefnd. Móðirin er frá Hjarðarhaga í Jökuldal, svört tík, nú orðin mjög gömul, sögð vera snjöll. **Mynd 8:** Rakki í Jökuldal, ekki af réttri gerð, en algengur á bæjum þar. **Mynd VIII:** Algeng tegund hunda í Jökuldal og nágrenni. Gulbrúnn, frekar langur á fæti, skott ekki alveg hringað. Eyru vel sperrt. Eigandi: Bóndi á Skjöldólfsstöðum. Allir hundarnir á myndum 1-7 eru til sölu. Þeir virðast geta verið vænlegir fyrir upphaf ræktunar íslensks fjárhunds. Að mínu mati eru bestu hundarnir sem ég hef séð „Brana“ tíkin sem lýst er í mynd II og hundurinn sem herra Watson sá á Höskuldsstöðum í Skagafirði þegar ég fylgdi honum þangað.“ Þetta er skýrsla herra Davíðssonar, en hvort myndir hans hafi heppnast, veit ég ekki. Ég vona að þær séu nægilega góðar til að gefa þér nauðsynlegar upplýsingar um hvort við ættum að skipuleggja að taka einhverja af hundunum frá Hvanná. Eftir nokkra daga treysti ég því að fá upplýsingar og filmur frá Þorbjörnssyni og mun þá skrifa þér aftur." **Bréf #6:** **Akureyri, 5. október 1955** "Kæri Mark. Varðandi hundana höfum við ekki fundið neitt betra en Brönu og Bósa, og hingað til eru þessir tveir einu hundarnir sem hægt er að segja að séu ásættanlegir. Ég hef talað í síma við bóndann á Hvanná, eiganda Brönu, og hann er tilbúinn að semja og láta okkur fá hundinn. Hægt er að fljúga með hana hingað frá Egilsstöðum með stuttum fyrirvara. Hann segir að Brana hafi átt hvolpa tvisvar sinnum. Hún er ekki hvolpafull núna, að hans sögn. Hann er þó ekki viss hvenær hún var síðast á lóðari. Ég sendi skeyti í dag og náði viðunandi samkomulagi um Bósa. Bóndinn kom hingað og við áttum langt samtal. Hann samþykkti loks að láta okkur fá hundinn, og ég get sent eftir honum þegar við erum tilbúin. Hann vildi gjarnan fá ljósmynd af Bósa í nýju umhverfi sínu og vita hvenær hann deyr. Ég lofaði því að við myndum sjá um það." **Bréf #7:** **Akureyri, 26. október 1955** "Ég hef fengið eftirfarandi frá eiganda Brönu, Einari Jónssyni, bónda í Jökuldal. Í bréfi dagsettu 8. október segir hann: „Ég hef verið að velta fyrir mér hvaða verð ég ætti að setja á Brönu. Niðurstaðan er sú að ef yfirhöfuð á að setja verð á hund, þá verður það að vera 1000 krónur, og jafnvel meira. Hvað finnst þér? Þessi tík, Brana, er að mörgu leyti mjög ljúf og skemmtileg tík, mjög góðlynd og hefur ekkert af þeirri grimmd sem hundar hafa stundum tilhneigingu til. Og hún er einnig að verða afar góður fjárhundur. Hún var frekar léleg í því til að byrja með, en því oftar sem við tökum hana með á afréttinn, því betri verður hún. Það er auðvitað afar mikilvægt að hún reynist vel fyrir þennan Ameríkana, og að sannað verði að hún sé af hreinum og gömlum íslenskum stofni. Ég er ekki vanur að svíkja neinn, en tel í þessu tilfelli að ég geti vel sett þetta verð á Brönu.“ Svona hljómar bréf bóndans. Það gefur þér hugmynd um verðlagið. Líklegt er að eigandi Bósa hugsi á svipaðan hátt." **Þetta voru lokaárangur þessara ferða til að leita að hundum árið 1955. Við höfum ekki myndirnar sem Davíðsson tók í Jökuldal.** **28\. nóvember** voru Brana og Bósi send frá Íslandi til London, San Francisco og loks til Wensum kennel í Kaliforníu. **5\. desember** sendi Watson skilaboð til Hauks Snorrasonar: „Hundarnir komu á laugardaginn. Í góðu ástandi. Brana er að lóða. Vinsamlega sendu mér bráðnauðsynlegt símskeyti ef hún var á lóðari þegar hún fór frá Reykjavík 28. nóvember, og ef svo er, hvaða dag hún byrjaði. Er einhver möguleiki á að hún hafi verið pöruð við einhvern ókunnan hund eða að hún hafi verið pöruð við Bósa? Svaraðu tafarlaust. Mark.“ **31\. janúar** skrifaði Watson: „Í gær gaut Brana fjóra fallega hvolpa og ég er mjög ánægður.“ **Leitin að dæmigerðum íslenskum hundum hélt áfram árið 1956.** Þú getur lesið meira í [sögukaflanum](https://www.fjarhundur.is/is/saga) á þessari vefsíðu, þar sem sögur eru sagðar af þeim hundum sem við höfum nöfn og myndir af. * Bósi frá Höskuldsstöðum (1955, úr Skagafirði) * Brana frá Hvanná (1955, úr Jökuldal) * Konni frá Lindarbakka (1956, úr Breiðdal) * Auli frá Sleðbrjót (1956, úr Jökulsárhlíð) * Vaskur frá Þorvaldsstöðum (1956, úr Breiðdal) Mig langar einnig að bæta við [grein úr _Tímanum_](https://timarit.is/page/1027157#page/n11/mode/2up) frá 1956, sem ég fann um leit Watsons. Að auki [grein úr Dýraverndanum](https://timarit.is/page/4953912#page/n7/mode/2up).

Sjá meira

SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

HAFA SAMBAND

Sími: +354 893 3817
[email protected]

HEIMILISFANG

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
561 Varmahlíð
Ísland

SoknaraetlunStjórnarráðRoyal Canin