Hero Image

Íslenski Fjárhundurinn

Íslenski fjárhundurinn, þjóðarhundur Íslendinga, hefur fylgt þjóðinni allt frá landnámi og er órjúfanlegur hluti af sögu og menningu landsins. Á árinu 2025 opnum við einstaka sýningu á Lýtingsstöðum í Skagafirði, helgaða þessari einstöku hundategund og sögu hennar. Komdu og upplifðu þessa einstöku sýningu – fræðsla, saga og upplifun bíða þín!

BLOG



Íslands Sómi í "útrás"

Íslands Sómi í "útrás"

Í lok árs 2024 bárust þær fréttir að íslenski fjárhundurinn yrði viðurkenndur sem hundategund hjá breska hundaræktunarfélaginu, **The Kennel Club**. Viðurkenningin tók gildi þann 1. apríl 2025 og frá þeim degi er leyfilegt að rækta íslenska fjárhunda í Bretlandi, fá útgefnar ættbækur fyrir þá og taka þátt í opinberum hundasýningum, þar með talið **CRUFTS**, sem er ein elsta hundasýning í heimi og hefur verið haldin síðan 1891. [The Kennel Club birti tegundalýsingu](https://www.thekennelclub.org.uk/search/breeds-a-to-z/breeds/pastoral/icelandic-sheepdog-imp/) íslenska fjárhundsins á vefsíðu sinni þann 1. apríl. Fyrirsæta tegundarinnar er enginn annar en hundurinn minn, **Reykjavalla Íslands Sómi**, sem gerir mig einstaklega stolta. Ekki aðeins birtust tvær ljósmyndir af honum heldur einnig fallegt listaverk sem unnið var eftir ljósmyndinni hér að ofan. Það verður gaman að fylgjast með þróuninni og stöðu íslenska fjárhundsins í Bretlandi, en hundurinn naut vinsælda þar á miðöldum og hefur verið þekktur alla tíð síðan, þótt fjöldi íslenskra fjárhunda hafi aldrei verið mikill þar í landi.

Það helsta í mars

Það helsta í mars

Marsmánuðurinn hefur verið frekar viðburðaríkur og gaman að segja frá því hér. Húsið sem mun hýsa sýninguna er næstum því tilbúið og við getum farið að huga að uppsetningu. Ég hef klárað alla texta fyrir veggspjöldin sem eru núna hjá hönnuði og fara svo í prentun. Þetta var stórt og umfangsmikið verkefni en spjöldin verða væntanlega átta talsins. Ég ætlaði mér ekki að hafa of mikinn texta en eftir tveggja og hálfs árs vinnu er ég búin að taka saman svo mikið efni að mér fannst ekki skynsamlegt að stytta það of mikið, sérstaklega þar sem ég er búin að raða því vel upp. Það sem birtist á spjöldunum verður þó aðeins brot af því sem ég hef skrifað. Ég stefni einnig að því að skipuleggja efnið hér á síðunni betur til að auðvelda aðgengið svo efnið á sýningunni og á síðunni tali betur saman. Ég var spurð um daginn hvort þetta muni heita „Sýning um Íslenska fjárhundinn“ eða „Sögusetrið Íslenska fjárhundsins“. Eftir að hafa velt þessu mikið fyrir mér hallast ég að því að „Sögusetrið“ henti betur, þar sem þetta verður ótímabundin sýning. Í byrjun mánaðarins fékk ég heimsókn frá Darren Adam, fréttamanni hjá RÚV English radio, og hann tók viðtal við mig um íslenska fjárhundinn og verkefnið mitt. [Hægt er að hlusta á viðtalið hér](https://www.ruv.is/english/2025-03-21-ruv-english-radio-the-icelandic-sheepdog-439412). Þann 8. mars héldum við lítinn viðburð sem við kölluðum [„Hvolpaknús með þjóðarhundinum“](https://www.facebook.com/events/593096123885848/?active_tab=discussion). Connie frá Breiðanesræktun kom til okkar með hvolpana sína sem eru undan Sóma mínum og tíkinni Breiðanes Björt, sem prýðir desembermánuðinn í dagatali DÍF 2025. Við fengum góða gesti og nutu bæði ungir og eldri þess að knúsa hvolpana. Mikið var spjallað um hunda og hundaræktun. Tveir fallegir rakkar úr þessu sjö hvolpa goti eru ennþá að leita að framtíðarheimili þegar þetta er skrifað, og ég vona að þeir finni fjölskyldur sínar sem fyrst. _**Hafir þú áhuga, endilega hafðu samband við mig!**_ Næstum óvænt varð einn hvolpur eftir hjá mér þennan dag en ég hafði lengi látið mig dreyma um að eignast hvolp undan Sóma. Þannig kom hún Fönn inn í líf okkar og myndin hér að ofan er af henni. Nú er fjör á bænum og gaman að fylgjast með henni vaxa og dafna. Hún er einstaklega mannelsk, blíð og gáfuð. Það er betra að fylgjast vel með því sem hún lærir og tileinkar sér. Sem betur fer eru Sómi og Hraundís afar stilltir hundar sem hún getur lært margt af. Fönn sýnir mikinn áhuga á hrossunum sem við sinnum daglega og heilsar einnig upp á hrútana sem hýstir eru í hesthúsinu þessa dagana. Nú nálgast sauðburður og þá kemur upp í hugann þessi orð séra Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili úr bókinni „Íslenzkir þjóðhættir“: **„Hundur verður beztur sem alinn er á þorra eða góu, því að þá er hann mátulega gamall að venja hann við lambfé á vorin.“** Síðastliðinn föstudag tók Fönn í fyrsta sinn á móti hópi ferðamanna og stóð hún sig með miklum sóma. Þegar ég sýndi ferðamönnum torfhúsið leiddi Hraundís hana upp á torfhúsþakið þar sem hún sat í fyrsta skipti. Þið getið fylgst með daglegu lífi þjóðarhundateymisins á Lýtingsstöðum á Instagram undir [#fjarhundur.](https://www.instagram.com/fjarhundur/) Að lokum er gaman að segja frá því að síðastliðinn föstudag var frumsýnd stuttmynd sem tekin var upp í janúar. Í henni segi ég mína sögu hér á Íslandi og fjalla um tengsl mín við dýrin. Hundarnir (sem voru þá aðeins tveir) koma einnig aðeins við sögu. [Hér er hægt að horfa á myndina](https://youtu.be/v_prycnrCIA?si=-qAwiVtUKN74D9XO). Meira er ekki í fréttum í bili.

Fyrsta hundasýning á Íslandi

Fyrsta hundasýning á Íslandi

Árið 1969 var Hundaræktarfélag Íslands (HRFÍ) stofnað á Hótel Sögu í Reykjavík af 29 áhugamönnum um ræktun íslenska fjárhundsins. Eitt af markmiðum félagsins var að vernda og rækta tegundina. Þann 25. ágúst 1973 hélt HRFÍ fyrstu hundasýningu á Íslandi, sem fór fram í Hveragerði. Jean Lanning frá Englandi var dómari á sýningunni og fékk sérstaka undanþágu til að dæma, þar sem sýningin var ekki alþjóðlega viðurkennd – HRFÍ var þá enn ekki skráð sem ræktunarfélag erlendis. Alls voru 60 hundar skráðir til sýningar. Stærsti hópurinn var íslenskir fjárhundar (23 talsins), en einnig voru sýndir Poodle-hundar (13), Collie-hundar (9) og aðrir hundar af ýmsum tegundum. Meðal gesta á sýningunni var Mark Watson. Þorsteinn Thorsteinsson, hundaræktandi og dómari, tók viðtal við Jean Lanning árið 2011, þar sem hún rifjaði upp þessa fyrstu sýningu á Íslandi og kynni sín við Mark Watson. Mig langar að endurbirta hluta úr grein Þorsteins hér og hef fengið leyfi til þess hjá honum. Greinina í heild sinni er hægt að lesa í [Hundalífspósti.](https://hundalifspostur.is/2016/03/23/thorsteinn-thorsteinsson-tok-vidtal-vid-jean-lanning-arid-2011/) "Fyrsta hundasýningin hér á landi var haldin á vegum Hundaræktarfélags Íslands í Eden í Hveragerði í ágúst 1973 en taka skal fram að þetta var óformleg sýning og engin meistarastig í boði. Dómari þessarar sýningar var engin önnur en Jean Lanning en að hennar mati er árangurinn síðan undraverður. „Ef ég man rétt þá var sýningin haldin í stórri glerbyggingu. Ég var send til Íslands í boði hins háttvirta MARK WATSON, serviturs og auðugs Englendings sem dáði Ísland og ÍSLENSKA FJÁRHUNDINN og ég held að landið ykkar hafi veitt honum FÁLKAORÐUNA“. Jean starfrækti annasamt hundahótel og þar kynntist hún fyrst íslenska fjárhundinum. „Stundum dvaldi ljúf lítil gælutík sem hét Kim hjá okkur. Ég held það hafi verið á sjötta eða sjöunda áratugnum, en fína nafnið hennar var HREFNA OF WENSUM. Fjölskyldan varð að láta hana frá sér og við tókum hana að okkur. Þetta var indæll hundur og okkur þótti vænt um hana. Hún var sigursæl á MEISTARASTIGSSÝNINGUM í fjölbreyttum Y-flokki, þ.e. óskilgreindum flokki“. „Mark Watson kom til okkar dag einn en hann var þá nýkominn frá Íslandi og hafði áhyggjur af því að tegundin myndi deyja út í landinu ykkar. Á þeim tíma ræktaði Sigríður Pétursdóttir kynið á bóndabænum sínum en þurfti á nýju blóði að halda. Mark bað okkur að rækta frá Kim og annari tík sem bjó í Southampton. Báðar þessar paranir voru mjög skyldleikaræktaðar en Mark gat þá loks gefið Sigríði tvo hvolpa. Hann keypti einnig par af henni sem hann gaf mér. Við ræktuðum tegundina áfram um tíma en ég var ekki nægjanlega ánægð með mjúka feldinn sem nýju hundarnir frá Íslandi komu með. Hundarnir frá Mark Watson höfðu grófari feld sem ég kaus heldur. Ég veit hinsvegar að ræktunarmarkmið íslenska hundsins leyfir tvær feldgerðir. Þegar ég hef dæmt þá á Íslandi var ég mjög ánægð með ræktunarmarkmiðið. Tegundin á mikið að þakka MARK WATSON og Sigríði Pétursdóttur“. Hún heldur áfram að tala um Watson og íslenska fjárhundinn: „Mér skilst að hann hafi farið með fyrstu hundana sína til Kaliforníu en þegar hann snéri aftur til Englands hafði stofninn minnkað nokkuð þar sem hann missti marga hunda af völdum vírus sem kallaðist þá HARD PAD. Hann missti að lokum áhuga á hundarækt of flutti til London þar sem hann átti FÍNA ANTÍKBÚÐ á Old Brompton Road. Ég sagði að hann hafi verið servitur ENSKUR aðalsmaður, ég held hann hafi verið sonur einhvers ættgöfugs lávarðar“. Jean upplýsir að aðrir hafi ekki ræktað íslenska fjárhundinn í Bretlandi og kynið hafi því miður dáið út þar. Ástæðurnar hafi bæði verið ónógur áhugi og lítill ræktunarstofn. „Við ræktuðum fallega tík (hún sést á mörgum póstkortum í dag) sem bjó hjá góðri fjölskyldu í Guildford. Þau ætluðu að rækta frá henni en því miður þá dó hún í umferðarslysi. Kannski einhver muni flytja þá \[íslenska fjárhundinn\] til Englands, það væri indælt ef það myndi gerast“. **Mér þykir merkilegt** að hér séu einu upplýsingar sem ég hef hingað til fundið um hvolpana sem Sigríður Pétursdóttir fékk frá Mark Watson. Einnig finnst mér frábært að tegundin sé núna loksins viðurkennd í Bretlandi, eins og ég hef áður skrifað um. Það tók mörg ár, þrátt fyrir að íslenski fjárhundurinn hafi verið eftirsóttur í Bretlandi á miðöldum og þrátt fyrir tilraunir Mark Watsons á 20. öld til að rækta og sýna íslenska fjárhunda þar í landi. Að lokum vil ég bæta við tveimur greinum um Jean Lanning og hundasýningu á Íslandi árið 1983. [Morgunblaðið 7.september 1983](https://timarit.is/page/1579713#page/n27/mode/2up) [Vikan 27.október 1983](https://timarit.is/page/4503228#page/n5/mode/2up)

Sjá meira

SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

HAFA SAMBAND

Sími: +354 893 3817
[email protected]

HEIMILISFANG

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
561 Varmahlíð
Ísland

SoknaraetlunStjórnarráðRoyal Canin